Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Læknirinn í eldhúsinu: Lambalundir og Bulgursalat

$
0
0

Ragnar Freyr Ingvarsson, læknirinn í eldhúsinu, töfrar fram ljúffengar lambalundir með sambal oelek og límónu og Bulgursalat

Lambalundir eru gjarnan taldar besti bitinn af lambinu, en það fer auðvitað alveg eftir því hvernig farið er með hráefnið. Kjöt af hálsinum getur líka verið algert sælgæti ef kokkurinn vandar sig. En lambalundirnar er vissulega fyrirhafnarlítið að gera dásamlegar og svo þurfa þær ekki langan tíma á grillinu áður en þær eru tilbúnar á matarborðið.

Sambal er sterk sósa frá Austurlöndum fjær, algengust er hún frá Indónesíu og Malasíu. Hún er mestmegnis gerð úr rauðu chili og síðan bragðbætt m.a. með lauk, sítrónusafa og fleiri kryddtegundum. Hvert svæði á síðan sína gerð af sambal með mismunandi áferð og viðbótarhráefnum.

26672 Lambalundir1

 

Fyrir fjóra

800 g lambalundir
2 msk sambal oelek
2 msk jómfrúarolía
4 hvítlauksrif
½ rauður chilipipar
börkur af heilli límónu
safi úr límónu
salt og pipar

26672 Lambanlundir2

1. Skolið og þerrið lambalundir og setjið í skál.
2. Hellið jómfrúarolíu saman við ásamt sambal.
3. Brytjið hvítlauk og chili smátt og setjið saman við.
4. Skafið börkinn af límónunni (bara græna hlutann, ekki þann hvíta), saxið mjög smátt og sáldrið yfir kjötið.
5. Kreistið límónusafa yfir og bragðbætið með salti og pipar.
6. Blandið öllum hráefnunum vandlega saman og marínerið í minnst klukkustund (helst lengur).
7. Grillið á háum hita í tvær mínútur á hvorri hlið (háð þykkt kjötsins).

8. Hvílið í nokkrar mínútur áður en lundirnar eru sneiddar niður svo þær nái að jafna sig.

 

Bulgursalat með papríkum, fetaosti og þurrkuðum apríkósum

Bulgur er hveitiafurð sem er algeng í matargerð Miðausturlanda. Það er oftast gert úr durum hveiti þó að hægt sé að framleiða það úr öðrum hveititegundum. Þetta hráefni á sér langa sögu og hefur verið framleitt síðan 2800 árum fyrir Krist. Þó að þetta sé kannski fyrsta framleidda matvaran þá hefur það ágæta kosti eins og að innihalda mikið af trefjum þar sem hismið er að miklu leyti notað við framleiðsluna.

Annar augljós kostur er að það er ljúffengt og að auki skemmtileg tilbreyting frá því að nota kartöflur, hrísgrjón eða kúskús.

3 dl bulgur
6 dl kjúklingasoð
1 rauð paprika
1 græn paprika
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
50 g þurrkaðar apríkósur
100 g fetaostur
2 msk fersk sítrónumelissa
2 msk fersk mynta
safi úr einni límónu
4 msk góð jómfrúarolía
salt og pipar

26673 Bulgursalat

1. Útbúið bulgur eftir leiðbeiningum á pakkanum nema í staðinn fyrir vatn er það eldað upp úr kjúklingasoði.
2. Skerið paprikurnar og rauðlaukinn í bita og blandið við bulgur ásamt maukuðum hvítlauk.
3. Skerið apríkósurnar gróft niður og bætið í bulgursalatið.
4. Skerið fetaostinn í bita og blandið saman við.
5. Saxið myntuna og sítrónumelissuna gróflega og sáldrið yfir salatið.
6. Blandið saman jómfrúarolíunni og límónusafanum, smakkið til með salti og pipar og dreifið yfir herlegheitin.

The post Læknirinn í eldhúsinu: Lambalundir og Bulgursalat appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652