Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hann kom fram eins og ég væri einskis virði – Saga konunnar úr mansalsmálinu á Hótel Adam

$
0
0

Hótel Adam á Skólavörðustíg hefur ítrekað komist í fréttirnar, bæði fyrir að selja ferðamönnum á hótelinu vatn á plastflöskum á okurverði undir því yfirskyni að kranavatnið væri ekki í lagi og síðast fyrir vinnumansal, eftir að starfskona hótelsins frá Tékklandi leitaði til lögreglu. Hún hafði ráðið sig í góðri trú til hótelsins fyrir 300 þúsund á mánuði. Þegar á hótelið kom lét maðurinn hana sofa við hliðina á sér í rúmi og nær sex mánuðum síðar hafði hún enn ekki fengið greidd laun, nema naumt skammtaða vasapeninga.

„Ég hitti eiganda Hótels Adam út í Prag,“ segir konan sem við getum kallað Elynu en hún vill ekki koma fram undir nafni í viðtalinu af ótta við fordóma, þar sem hún vill gjarnan vera áfram á Íslandi. Við hittumst á kaffihúsi nálægt hótelinu, hún er brosmild og reynir að bera sig vel, en segist hafa átt fremur erfiða ævi og vonast til að ná fótfestu á Íslandi. „Hann var viðskiptavinur vinkonu minnar sem var vændiskona í borginni. Hann er með sína eigin skrifstofu í Prag enda rekur hann kaffihús í miðborginni, alveg eins og í Reykjavík. Ég var þjónn á veitingastað í miðborginni en átti í vandræðum þegar ég hitti hann og hann bauð mér að koma og hitta sig á skrifstofunni. Hann bauð mér síðan vinnu í Reykjavík og lofaði mér 300.000 á mánuði og mér leist bara vel á það. Við gerðum engan skriflegan samning, ég átti að vinna í þrjá mánuði til reynslu en eftir það ætlaði hann að gera fastan samning við mig.“

Áreitti mig stöðugt

Elyna segir að eigandi hótelsins hafi spurt hvað hún þyrfti mikinn tíma til að undirbúa sig. Hann hafi síðan sent sér flugmiða í tölvupósti. „Nokkrum dögum seinna, í byrjun nóvember í fyrra, lenti ég í Keflavík. Hann tók sjálfur á móti mér á flugvellinum og var mjög kurteis. Hann bauð mér út að borða þegar við komum til Reykjavíkur og lagði sig greinilega fram. Ég man að ég var mjög fegin því það er alltaf svolítið kvíðvænlegt að fara í nýjar aðstæður.“

En það átti þó eftir að síga á ógæfuhliðina þegar líða fór á kvöldið og hann sýndi á sér nýja og aðra hlið: „Þegar við komum á hótelið brá mér mjög mikið þegar hann sagði að ég yrði að sofa í sama rúmi og hann. Það rann upp fyrir mér að hann hélt greinilega að ég hefði verið í vændi, eins og vinkona mín sem kynnti mig fyrir honum. Ég spurði hann hvort ég gæti ekki fengið mitt eigið herbergi en hann sagði nei.“

Hún fullyrðir að hún hafi ekki átt i neinu kynferðissambandi við hann þrátt fyrir að þau hafi deilt rúmi í tvo mánuði að kröfu hans. „Hann reyndi mjög mikið og gerði mér erfitt fyrir, á hverju einasta kvöldi. Hann nauðgaði mér ekki en áreitti mig stöðugt. Ég fékk tíma fyrir sjálfa mig þegar hann var í burtu en hann var tíu daga í mánuði í Prag til að sinna rekstrinum þar og stundum var hann úti á landi um helgar. Ég hefði auðvitað átt að biðja hann oftar um mitt eigið rúm og vera harðari en ég var hrædd um að hann yrði reiður.“

Fyllti 200 vatnsflöskur á jóladag

Skömmu fyrir jól kom eigandinn heim með konu frá Litháen og þurfti því að nota rúmið. „Ég fékk loksins mitt eigið herbergi en konan flutti í hjónarúmið. Hótelið fylltist af ferðamönnum, það var nóg að gera því ræstingakonan hafði líka fengið frí og sjálfur var hann upptekinn með konunni. Eitt af því sem hann setti mér fyrir var að fylla plastflöskur með kranavatni til að selja ferðamönnunum fyrir 400 krónur stykkið. Á herbergjunum var miði þar sem þeir voru varaðir við því að drekka vatnið, það væri ekki drykkjarhæft. Þetta var mjög skrítið verkefni en við þetta vann ég samviskusamlega á jóladag og fyllti 200 slíkar flöskur.“

Hún segir að hann hafi verið kuldalegur ef hún minntist á laun og samning eins og um hafi verið rætt. Hann hafi verið dónalegur og yfirgangssamur en ekki hótað henni eða beitt hana ofbeldi. Hann hafi frekar stjórnað með þögn og fýluköstum ef hún lét i ljós óánægju. Hann hafi stundum látið hana hafa lítilræði í vasapeninga, leyft henni að fara til tannlæknis og á íslenskunámskeið í málaskólanum Mími sem hann greiddi.

Spurði af hverju vatnið væri mengað

„Ég var fegin að vera laus úr herberginu eftir að litháska konan kom. Ég fékk nýtt sjálfstraust og spurði hann um samning og launin sem ég hafði ekki fengið greidd. Hann sagði að við gætum rætt það eftir að hann kæmi heim frá Prag,“ segir hún en í millitíðinni rataði hótelið í fréttirnar og það kom ekki til að góðu.
„Í janúar, meðan hann var í burtu, kom íslenskur gestur á hótelið, kona utan að landi, sem rak auðvitað augun strax í miðann á herberginu, þar sem fólk var varað við að drekka kranavatnið. Hún kom strax niður í móttöku og var afar áhyggjufull. Spurði af hverju vatnið væri mengað og hvort henni væri óhætt að baða sig og svo framvegis? Ég gat ekki útskýrt þetta fyrir konunni enda kannski ekki von. Á endanum setti hún þetta á Facebook-síðu sína og þá var fjandinn laus. Það var fjallað um málið í fjölmiðlum og allt komst upp, ekki bara svindlið með vatnið heldur líka að hann hafði bara leyfi fyrir helmingi þeirra herbergja sem voru í útleigu. Þetta varð til þess að hann talaði ekki við mig og svaraði engu fyrr en um páskaleytið.“

Fékk hláturskast yfir launakröfunni

Þar sem hún hafði ekkert fast í höndunum og enginn samningur hafði verið gerður, óttaðist hún að verða rekin úr landi. Þá óttaðist hún að missa það sem hún ætti inni af vangoldnum launum ef hann yrði reiður og ræki hana burt. Hann notfærði sér að því er virðist, aðstöðumuninn til hins ýtrasta. „Hann var ekki búinn að borga mér neina peninga og ekkert bólaði á samningi í apríl. Ég vissi að ég var réttlítil þar sem ekkert væri skriflegt á milli okkar en hann fullvissaði mig um að ég yrði ekki rekin úr landi. Hann lét mig síðan hafa flugmiða frá 17. til 24. maí svo ég kæmist heim í frí. Hann sagðist vilja setjast niður með mér til að skipuleggja vinnuna eftir að ég kæmi til baka. Loksins var komið að því. Ég hafði sett tímana mína niður á blað og taldi sanngjarnt að miða við 1500 krónur á tímann, mínus útgjöld vegna veru minnar og vasapeninga. Ég var búin að vera að vinna fyrir hann í sex mánuði, stundum alla daga vikunnar og 800 þúsund var því algert lágmark.“

Þegar hún sýndi hóteleigandanum reikninginn segir hún að hann hafi orðið furðu lostinn, síðan hafi hann fengið hláturskast og spurt hver hún héldi eiginlega að hún væri. Og hver hún héldi að hann væri? Milljónamæringur kannski. „Hann sagði, „þú færð í mesta lagi 150 þúsund.““
Ég gat ekkert nálgast hann dagana á eftir, hann sagðist bara vera upptekinn. Það leið að heimferðinni og ég var gersamlega peningalaus. Ég reyndi að ganga á hann en hann lét mig bara bíða tímunum saman meðan hann sagðist vera í tölvunni eða í símanum.“
Hún segist hafa frétt hjá konu sem vinnur á veitingastað í grenndinni að hún gæti fengið hjálp á Mannréttindastofu Íslands sem er til húsa á Hallveigarstöðum. Þangað fór hún og ræddi við lögfræðing sem vísaði henni á lögregluna, þaðan lá leiðin til ASÍ. Skömmu síðar rataði fréttin í fjölmiðla.

26892 Mansal 03417

Sögð vera á flótta undan lögreglu

Í síðustu viku var greint frá því í fréttum RÚV að engin kæra hefði verið lögð fram vegna mansalsmálsins á Hótel Adam. Fórnarlambið forðaðist lögregluna og málatilbúnaðurinn væri líklega að renna út í sandinn. Hún segir að skýringin sé sú að hún hafi á endanum farið peningalaus til Prag til að nota miðann sem hún hafi fengið í hendur. Hún hefur enn ekki fengið greidda krónu af vinnulaununum og staðan er óbreytt. Hún lagði fram kæru hjá lögreglunni eftir að hún kom til baka og leitar núna að vinnu til að fá að dvelja áfram á Íslandi, því það vill hún. „Ég elska Ísland, náttúruna og fólkið, tungumálið. Mig langar mjög mikið til að vera hérna og geri mér grein fyrir því að það eru ekki allir vinnustaðir eins og Hótel Adam. En það er mjög erfitt hjá mér í augnablikinu og kærastanum mínum sem er líka útlendingur og hefur verið að vinna við ræstingar.

„Málið er í rannsókn hjá okkur núna,“ segir Snorri Birgisson rannsóknarlögreglumaður  við Fréttatímann. Hann staðfestir að konan hafi gefið skýrslu hjá lögreglunni á þriðjudag.
„Hún hefur mjög áhugaverða sögu að segja og er að meta með lögreglunni hvaða skref verða tekin í framhaldinu,“ segir Snorri og staðfestir jafnframt að hún hafi greint frá fleiri dæmum sem hún taldi orka tvímælis á vinnustaðnum. „Við erum að fá inn á borð til okkar fjöldann allan af tilkynningum frá almenningi um ömurlega stöðu erlendra verkamanna hér á landi. Það hefur orðið mikil vitundarvakning í þessum efnum eftir þá umræðu sem hefur átt sér stað.“

26928-adam

Elyna segist hafa frétt það eftir á að eigandi hótelsins hafi áður notfært sér oft og tíðum félitla og vegalausa útlendinga, oft fólk frá fyrrverandi austantjaldslöndum til að vinna fyrir sig, oftast stoppi það bara í stuttan tíma og tapi á því peningum. „Hann taldi greinilega að ég væri mjög heimsk og hann gæti komist upp með allt sem hann vildi gagnvart mér. Ég var ekki hrædd við að hann meiddi mig líkamlega, en hann komst upp með allt og ég kunni ekki á neitt í íslensku samfélagi. Hann kom fram við mig eins og ég væri ódýr, eða einskis virði. Ég var alltaf smeyk við spillinguna, að hann hefði alla í vasanum, jafnvel lögregluna ef okkur lenti saman. Þannig er það bara sumstaðar, því miður.” Ragnar Guðmundsson eigandi Adam Hótels við Skólavörðustíg var spurður hvort ásakanir um að hann hefði beitt starfskonu sína miklum órétti ættu við rök að styðjast. Hann sagðist ekkert vilja tala við fjölmiðla. “Ég hef bara engar fréttir fyrir þig.” Þú vilt ekki svara því hvort þessar ásakanir eigi við rök að styðjast?
“Ég hef bara ekkert að segja, skilurðu það ekki?”

The post Hann kom fram eins og ég væri einskis virði – Saga konunnar úr mansalsmálinu á Hótel Adam appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652