Regina Osarumaese og drengirnir hennar tveir verða flutt með valdi úr landi og send til Nígeríu á næstunni. Drengirnir hafa aldrei komið til Nígeríu en Útlendingastofnun tekur aðstæður þeirra ekki til greina.
„Það er klárlega ómannúðlegt að senda þau til Nígeríu. Í fyrsta lagi vegna þess að börn Reginu hafa aldrei komið þangað,“ segir Claudie A. Wilson, lögfræðingur hjá Rétti, sem hefur farið með mál Reginu Osarumaese, hælisleitanda sem situr nú heima með drengina sína tvo og bíður þess að verða send til Nígeríu af íslenskum stjórnvöldum.
Claudie segir röksemdina fyrir því að synja umsögn Reginu, að henni stafi ekki hætta af því að vera í Nígeríu, mjög bagalega þar sem hún hafi upphaflega flúið landið því henni stafaði hætta af sinni eigin fjölskyldu.
Alvarlegast sé þó að Útlendingastofnun hafi ekki tekið tillit til aðstæðna drengja Reginu.
„Þegar hælisleitendur með börn sækja um hæli á Íslandi þá er staða barnanna ekki skoðuð sérstaklega, heldur er umsóknin tekin sem ein heild, en það kann að vera í ósamræmi við 22. grein barnasáttmálans þar sem segir að það verði að veita börnum vernd, óháð því hvort þau séu í fylgd foreldra eða ekki. Hingað til hefur það verið framkvæmd Útlendingastofnunar að fjalla ekki efnislega um aðstæður barnsins heldur vísa í rökstuðning með ákvörðun um foreldra þeirra. Í þessu máli hefur algjörlega verið farið fram hjá því að skoða aðstæður barnanna þó það sé sérstök ástæða til þess þar sem annað barnið fæddist hér og hitt á Ítalíu.“
„Ég tel vera sérstaka ástæðu til að skoða þetta mál frekar því nýju útlendingalögin, sem taka gildi þann 1.janúar, kveða enn skýrar á um að það verði að skoða mál hverrar manneskju, hvort sem hún er í fjölskyldu eða ekki. Það ætti því ekki að afgreiða umsókn með þessum hætti.“

Regina og fjölskylda hennar komu til Íslands í leit að betra lífi árið 2014. Yngra barn hjónanna fæddist á Íslandi fyrir einu og hálfu ári og eldra barnið er í leikskóla í Keflavík. Regina er barnshafandi í dag. Hjónin hafa tvisvar sótt um hæli hér á landi en verið synjað í bæði skiptin. Beiðni Rauða krossins til Mannréttindadómstóls um endurupptöku á máli fjölskyldunnar var hafnað í síðustu viku.
The post Nýsamþykkt lög hefðu hlíft Reginu og drengjunum appeared first on Fréttatíminn.