Þúsundþjalasmiðurinn Tómas Ponzi ræktar alls kyns tómata í Brennholti í Mosfellsdal. Tómas segir að garðyrkjan og þessi merkilegi ávöxtur, tómaturinn, kenni honum margt um lífið og tilveruna.
Ekki langt frá Gljúfrasteini kúrir Brennholt. Þar búa nú Tómas Ponzi og Björk Bjarnadóttir ásamt kettinum Mola (Molafi Jónssyni), tíu landnámshænum og um 100 þúsund býflugum. Um helgar kemur þangað líka Guðrún Tómasdóttir, 91 árs, til að dvelja hjá syni sínum Tómasi. Guðrún og eiginmaður hennar, bandaríski listfræðingurinn, forvörðurinn og listamaðurinn Frank Ponzi, komu sér fyrir í Brennholti fyrir um hálfri öld.
Í Brennholti er hægt að bragða á tómötum. Það eru tómatar sem slá út alla þá sem sá sem þetta skrifar hefur áður smakkað. Þeir eru lífrænt ræktaðir og fallegir, afbrigðin eru fjölmörg og koma víða að.

„Hér er alltaf gott veður og gróska, jafnvel þó það sé súld í bænum,“ segir Tómas Ponzi brosandi á hlaðinu í Brennholti. Þarna þreifar hann sig áfram í garðyrkjutilraunum sínum, vegur og metur ýmis afbrigði afurðanna enda eru aðstæður góðar. Í Brennholti er sjálfrennandi heitt vatn sem nýtist til upphitunar gróðurhúss og í sundlaug sem faðir hans kom upp á sínum tíma. Önnur ræktun fer fram undir berum himni eða undir lágum burstahúsum sem skýla plöntum frá veðri og vindum.
Í arf frá pabba
Tómas segir augljóst að hann hafi fengið garðyrkjuáhugann í arf frá föður sínum sem starfaði á árum áður hjá hinu virta Guggenheim safni í New York, en fluttist til Íslands á sjöunda áratugnum með fjölskyldunni.
„Faðir minn var vel á undan sinni samtíð,“ segir Tómas. „Hann sagði skilið við neyslusamfélagið og gerði fjölskyldu sinni kleift að lifa í tengslum við náttúruna innihaldsríku og listrænu lífi. Ég man eiginlega fyrst eftir mér í kringum tómata. Þá hef ég líklega verið á þriðja aldursári og þetta var í sveitinni í Connecticut.
Þegar pabbi var að vinna á safninu bjuggu foreldrar mínir oft á óðali Hans Richter, þýska myndlistarmannsins og dadaistans. Við fengum að vera í gömlum hænsnakofa og þarna ræktaði pabbi sinn garð. Hann vildi fá góðar afurðir fyrir fjölskyldu sína og ræktaði eiginlega allt sem honum datt í hug. Þaðan man ég eftir lykt af graskerjum og maískólfum sem sóttir voru af akrinum og settir beint í pottinn til suðu. Við tíndum líka sveppi og jarðhnetur og til eru myndir af mér og litlu systur minni þar sem við erum nakin innan um tómatplönturnar. Rauðir tómatar allt um kring. Ég man stemninguna í kringum þetta og ekki síst lyktina.“

Frá New York til Íslands
Frank Ponzi kynntist Guðrúnu Tómasdóttur, móður Tómasar, í New York þar sem hún var við söngnám. Árið 1963 flutti fjölskyldan til Íslands og þá var Tómas fjögurra ára. Frank hafði þá þegar hrifist að landi og þjóð, til dæmis af lífinu norður í Mývatnssveit þar sem hluti tengdafjölskyldunnar bjó.
Leiðin lá í Mosfellsdal þar sem Frank og Guðrún festu kaup á landi sem á þeim tíma kostaði ekki mikið, „líklega á við eitt sófasett,“ giskar Tómas á. Þarna í holtinu byggði Frank Ponzi kofa inn í brekku og síðan flutti fjölskyldan að fullu úr Reykjavík í dalinn árið 1968. Fljótlega var líka byggt lítið gróðurhús úr plasti og þar voru strax ræktaðir tómatar sem síðan voru seldir í kaupfélaginu í Mosfellssveit.
„Faðir minn sagði því skilið við stórborgarlífið og heimslistina og gerðist að hluta til sjálfsþurftarbóndi hér uppi á Íslandi. Þetta var samt menningarheimili þar sem margir komu með erlenda gesti til að sýna þeim hvernig hægt væri að búa í náttúrunni á Íslandi, í lítilli sjálfbærri menningarparadís.“
Frank Ponzi starfaði reyndar líka við forvörslu hér á landi, til dæmis við Þjóðminjasafnið og vann líka við að verja þann merka arf sem Kjarval og fleiri listamenn skildu eftir sig. Sjálfur hélt hann eina sýningu í Bogasalnum í Þjóðminjasafninu en þrátt fyrir góðar viðtökur gafst hann upp á því að sýna Íslendingum list sína og snéri sér að forvörslu og lífinu í sveitinni með fjölskyldunni. „Ég er sjálfur í raun alinn upp við tómatarækt, keyrði til dæmis út tómatasendingar þegar ég hafði aldur til,“ segir sonurinn Tómas.

Ættardjásn og harðir Rússar
Það er sterk listræn og skapandi taug í Tómasi Ponzi, eins og hann á ættir til. Á síðustu árum, eftir störf við tölvutækni og forritun og við myndlistina, hefur hann í auknum mæli snúið sér að garðyrkjunni sjálfur.
„Fyrir um sjö árum ákváðum við Björk Bjarnadóttir, búkona mín, að koma hingað í dalinn og taka við Brennholti. Það var eftir að pabbi lést og móðir móðir mín orðin ein. Tómatahúsið sem ég mundi eftir var þá fullt af vínvið sem pabbi hafði komið sér upp. Ég hringdi í ýmsa myndlistarvini mína og bauð þeim að koma og taka vínvið og nýta til víngerðar. Það stóð ekki á viðbrögðum. Sjálfur hafði ég ekki áhuga á því að brugga og vildi þess í stað snúa mér að grænmetinu, að því sem ég kunni.“
„Mig langaði að fá góðar afurðir eins og ég þekkti úr æsku minni. Ég hafði saknað þess alveg svakalega. Við fórum því strax að rækta alls konar afbrigði af salati. Við vorum með sextán mismunandi afbrigði þegar mest var. Undanfarin sex ár höfum við verið að selja salat, einkum í veitingastaði.“

Skilaboð um tómata
Í Brennholti í dag er tómatræktun Tómasar í raun tvíþætt. „Annars vegar eru þetta svokölluð ættardjásn (e. heirlooms). Það eru súper bragðgóðir tómatar sem að þurfa mikinn hita og við ræktum í upphituðu gróðurhúsi. Nafnið kemur til af því að fjölskyldur hafa varðveitt afbrigðin mann fram að manni. Hins vegar ræktum við rússnesk kuldaþolin afbrigði í óupphituðum bogahúsum. Ástæðan fyrir þeirri ræktun er líklega nokkuð persónulegri.“
Fyrir nokkrum árum veiktist Tómas, fékk alvarlegt krabbamein og var vart hugað líf. Baráttan hafðist og Tómas segist í framhaldi af því hafa þurft að finna tilgang í lífinu, svör við því af hverju honum væri ætlað að halda áfram.
„Ég einfaldlega spurði tilveruna: „Hvað á ég að gera?“ Þá stóð ekki á svari, það kom eiginlega bara strax til baka: „Þú átt að rækta tómata úti, á Íslandi.“ Þess vegna lagðist ég í könnun á kuldaþolnum og þrjóskum rússneskum afbrigðum af tómötum, afbrigðum sem vilja lifa af,“ segir Tómas.
Eftir nokkurt grúsk fann Tómas mann í Minsk í Hvíta-Rússlandi sem að útvegaði honum tólf kuldaþolin tómataafbrigði. Undir litlum burstum í Brennholti dafna þessar harðgerðu plöntur ágætlega, þrátt fyrir næturkulda snemma sumars. Tilraunirnar halda áfram og síberísku afbrigðin skipta nú orðið tugum.
Tómaturinn er stórmerkilegt fyrirbæri, í grunninn upprunnin frá Aztekum í Mexíkó en aðlögunarhæfni tómatplöntunnar er ótrúleg sem aftur hefur aukið á fjölbreytni tómatanna. Tómas segir afbrigðin á heimsvísu vera að minnsta kosti fimm þúsund talsins. „Fjölbreytnin er geysileg. Það eru til allar stærðir og gerðir, allir litir og brögð og í samtökum áhugafólks um tómataræktun er fólk um allan heim sem er annt um þessa fjölbreytni. Netið dugar vel til að hafa samskipti sín á milli, miðla reynslu og svo deilir fólk fræjum afbrigðanna milli heimshluta.“

Miklir möguleikar í moldinni
Tómas er á því að þessi harðgerðu tómataafbrigði séu tilvalin fyrir íslenskt garðyrkjufólk. Nóg sé að slá upp litlum óupphituðum húsum fyrir ræktunina. „Fólk á alls ekki að vera feimið við það að gera tilraunir með tómata. Þetta er svo gefandi. Við eigum að gera miklu meiri kröfur til þess grænmetis sem við borðum og það grænmeti sem þú ræktar sjálfur verður alltaf það besta.“
Tómas segir að fólk megi alls ekki vera hrætt við moldina því að þaðan sé öll okkar næring. „Við þurfum að teygja okkur aftur til baka og velta fyrir okkur matvælagerð upp á nýtt. Tengjast moldinni. Hver einstaklingur getur ræktað grænmeti ef hann á bara smá bleðil af jörð þar sem sólar nýtur, líka hér á Íslandi.“
Fyrir Tómas Ponzi eru tilraunir með ný afbrigði tómata mikill skóli og árangurinn lætur ekki á sér standa. „Maður þarf svo lítið að hjálpa náttúrunni, það er nóg að vinna aðeins með henni. Hér á Íslandi eigum við að hugsa um gæði matvæla og gæði alls sem við gerum, frekar en að einblína alltaf bara á magn, gróða og stærðina,“ segir Tómas Ponzi innan um fallegu og fjölbreyttu tómatana sína í Brennholti í Mosfellsdal.

The post Ættardjásn í tómatalandi appeared first on Fréttatíminn.