Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Allir nema stjórnarflokkarnir vilja uppboð

$
0
0

Fimm af sjö stærstu stjórnmálaflokkum landsins vilja reyna uppboðsleiðina í sjávarútvegi hér á landi, þó blæbrigðamun megi finna á aðferðum sem stjórnmálaflokkarnir vilja fara. Framsóknarflokkurinn er harðastur í andstöðu sinni gagnvart uppboðsleiðinni, samkvæmt nýjustu fréttum, á meðan Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið óljósari í málflutningi.

Bæði Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð ætla að bjóða færeyskum stjórnmálamönnum til landsins í haust til þess að fræðast um uppboð Færeyinga á kvóta. Þannig stefnir VG á að bjóða sjávarútvegsráðherra Færeyinga til landsins, Högna Höydal, á meðan Samfylkingin hyggst bjóða Aleks V. Johannessen, formanni Jafnaðarflokksins og lögmanni Færeyinga.

„Við höfum haft þessa leið á stefnuskránni frá upphafi,“ útskýrir Oddný G. Harðardóttir, en Samfylkingin hefur lengi barist fyrir svokallaðri fyrningarleið sem er í anda uppboðsleiðar Færeyinga.

„Við þurfum að læra af reynslu Færeyinga og því höfum við boðið Aleks að koma til landsins í haust,“ segir Oddný. Spurð út í rök andstæðinga uppboðsleiðarinnar, meðal annars út frá þeim forsendum að það sé erfitt fyrir fyrirtæki að skipuleggja sig í slíku umhverfi, svarar Oddný að það sé ódýr fyrirsláttur. „Þá er hægt að gera langtímasamninga,“ bætir hún við.

Píratar hafa ítrekað mælst stærsta stjórnmálaaflið hér á landi síðustu mánuði, en Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir flokkinn hafa skýra stefnu í sjávarútvegi, „og hún er mjög í anda færeysku leiðarinnar,“ segir Birgitta. Þegar stefna Pírata er skoðuð má sjá að vilji flokksins er skýr; þeir vilja markaðsvirði fyrir kvótann.

Viðreisn er með keimlíka stefnu og Píratar. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segist ekki vera hrifinn af fyrningarleiðinni, honum þyki hreinlegast að bjóða upp 5-10% kvóta á ári í 10-20 ár.

Hann segir að til þess að auka á rekstraröryggi fyrirtækja, þá megi endurúthluta aflaheimildum áfram árið eftir.

„Mér finnst eðlilegast að fyrirtæki borgi markaðsvirði fyrir kvótann, þannig fær almenningur eðlilegan arð af auðlindunum,“ segir Benedikt.

Vinstri grænir vilja skoða uppboðsleiðina, „þetta er mjög spennandi umræða,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Hún segir flokkinn þó vilja fara blandaða leið, þannig vilja þau bjóða upp hluta af kvótanum og úthluta rest, meðal annars með áherslu á að styrkja byggðarlög.

„Byggðir hafa verið að taka kollsteypu vegna kvótasölu og við viljum skoða það hvernig við getum tryggt byggðafestu,“ segir Katrín.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir mikilvægt að horfa til nýliðunar í sjávarútvegi, en flokkurinn er hlynntur uppboðsleiðinni. „Nýliðun í dag er möguleg, en bara undir frekar óréttlátum aðstæðum, þar sem þarf að kaupa sig dýrum dómi inni í kerfið,“ segir Óttar. Hann segir uppboðsleiðina í raun geta auðveldað nýliðun á markaði.

Ef reiknað er út virði þorskkvótans hér á landi, með virði hans í færeyska uppboðinu til hliðsjónar – sem voru 3,40 krónur danskar krónur kílóið – má fá út að virði þorskkvótans á Íslandi sé 83 milljarðar króna. Aftur á móti greiða útgerðir aðeins 4,8 milljarða í veiðileyfagjöld.

The post Allir nema stjórnarflokkarnir vilja uppboð appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652