Kanadíski popparinn Justin Bieber krefst þess að á tónleikum hans sé fjölbreytt úrval af mat og drykkjum til taks baksviðs. Meðal þess sem Bieber vill geta gætt sér á er Bud Light bjór, te, Red Bull orkudrykkir, morgunkorn og lífrænir bananar.
Tekíla og lífrænn kalkúnn
Þetta má lesa út úr kröfulista Biebers, eða svokölluðum „rider“ sem Fréttatíminn hefur undir höndum. Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu Live, vill ekki staðfesta að umræddur „rider“ eigi við tónleika Biebers hér á landi. Hann vill ekki tjá sig um kröfur Biebers og föruneytis á tónleikunum í Kórnum í næsta mánuði.
Ýmislegt forvitnilegt er á kröfulista Biebers. Auk áðurnefnds Bud Lights vill söngvarinn svala þorstanum með Corona og Stella bjór. Þá vill hann að til taks séu tvær flöskur af Don Julio 1942 tekíla. Bieber vill gott úrval af gosdrykkjum og orkudrykkjum, fjölbreytt úrval af te-i og flöskuvatn. Ekki ætlar söngvarinn að svelta og því skal vera til taks fjölbreytt úrval ávaxta, mikið af lífrænum banönum, samlokubrauð og ýmist álegg, svo sem lífrænn kalkúnn, Provolone ostur og svartar ólívur.

Nóg af sælgæti og kexi
Þá vill Justin Bieber geta gengið að nokkrum tegundum af tyggjói, venjulegu Skittles og súru Skittles, M&M og tíu pökkum af Hi-Chew sælgæti. Hann er greinilega eitthvað fyrir sætindin því þar fyrir utan vill hann graðga í sig þremur gerðum af Oreo-kexi, Twixi og Kit Kat. Og ef sá gállinn er á honum er ekki verra að geta komist í minnst tvær gerðir af morgunkorni.
Auk Biebers sjálfs eru settar fram kröfur um það sem dansarar og tónlistarmenn í hljómsveitinni vilja hafa til taks.
Stærstu tónleikar Íslandssögunnar
Tónleikar Justins Bieber fara fram í Kórnum í Kópavogi dagana 8. og 9. september næstkomandi. Um 38 þúsund gestir verða á tónleikunum eða yfir tíu prósent þjóðarinnar. Í vikunni var tilkynnt að hljómsveitin Sturla Atlas hiti upp. Samkvæmt upplýsingum Fréttatímans er undirbúningur fyrir tónleikana nú kominn á fullt. Umfang tónleikanna verður af áður óþekktri stærðargráðu enda um langstærstu tónleika hér frá upphafi.
The post Justin Bieber vill fá Bud light og lífræna banana í Kórnum appeared first on Fréttatíminn.