Hjálparsamtök bágstaddra barna eru nýlega stofnuð félagasamtök sem biðla til fólks um að styrkja fátæk börn. Fjöldapóstur með ósk um peninga var nýlega sendur út en ómögulegt er að rekja hver stendur fyrir söfnuninni.
Engin leið var að finna ábyrgðarmenn söfnunarinnar í kynningarefni samtakanna, né eiganda símanúmers sem gefið er upp á hjalparsamtok.is, þar til Fréttatíminn spurðist fyrir um það. Ekki var svarað í síma samtakanna heldur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
„Okkur hafa borist upplýsingar um þessa síðu og erum að skoða hvort eitthvað óeðlilegt sé í gangi,“ segir Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu.
Samtökin eru nýstofnuð en samkvæmt lögum ber að sækja um leyfi fyrir opinberri fjársöfnun. Fjársöfnun í keðjubréfum er óheimil. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á Suðurlandi hefur ekki verið útgefið leyfi til samtakanna fyrir opinberri fjársöfnun.
Tilgangur samtakanna er að „vinna að velferð bágstaddra barna og þeirra sem eiga um sárt að binda á Íslandi og víðar.“ Um þessar mundir fer púðrið í að safna fyrir skóladóti sem reynist bágstöddum fjölskyldum þungbært að fjármagna. Glæsileg heimasíða samtakanna var opnuð með tölum úr nýlegri skýrslu UNICEF um fátækt barna á Íslandi. Undanfarna daga hefur fjölmörgum aðilum borist tölvupóstur úr netfanginu postur@hjalparsamtok.is þar sem óskað er eftir peningum sem eiga að renna til bágstaddra barna. Í póstinum er vitnað í skýrslu UNICEF.
UNICEF sendi hjálparsamtökunum póst og óskaði eftir upplýsingum um aðstandendur og að leiðrétt yrði orðalag þar sem vitnað er í UNICEF. Svar barst frá Gunnari Bender, blaða- og veiðimanni, þar sem hann segir samtökin ný í þessum geira og muni einbeita sér að börnum á grunnskólaaldri og þar sem þörfin sé brýnust hverju sinni. Gunnar er titlaður formaður samtakanna, í tölvupóstinum.
Fréttatíminn spurði Gunnar um samtökin. „Ég veit ekkert um þetta, ég hjálpaði þeim bara að koma þessu af stað og aðstoðaði lítillega við markaðsmál.“ Hann vísaði alfarið á Eggert Jóhannesson.

Eggert sagðist, í samtali við Fréttatímann, vera framkvæmdastjóri samtakanna. Fjöldapósturinn, sem sendur var út í vikunni, hafi hinsvegar verið sendur út óvart og ekki að beiðni samtakanna. „Það var tölvufyrirtæki úti í bæ sem sendi þetta, án þess að við höfum óskað eftir því. Söfnunin er hinsvegar rétt að byrja og við höfum fengið 68 þúsund krónur inn.“
Hvernig verður peningunum úthlutað? „Núna erum við að safna í sambandi við skóladót og þessháttar og við erum með plan um það að koma kannski greiðslum til, sem sagt, þeirra sem eru einstæðar mæður og svona. Það er efst á blaði hjá okkur.“
Hvernig verður söfnunarfénu miðlað til barna?
„Við ætlum að setja okkur í samband við samtök sem eru á svipaðri bylgjulengd og við. Og svo er félagsleg aðstoð hjá sveitarfélögunum, svo það er öruggt mál að víða er þörf. Eins og Mæðrastyrksnefnd, við höfum mikinn hug á að veita mestu til þeirra.“
Hvers vegna er þess ekki getið á heimasíðunni?
„Við viljum ekki eyrnamerkja peningana strax, til dæmis ef einhverjir vilja sækja um til okkar. Það er algengt hjá svona samtökum.“ Eggert segist hafa sótt um öll tilskilin leyfi fyrir söfnuninni.
Fréttatíminn hefur rætt við konu, eiganda lítils fyrirtækis í Kópavogi, sem millifærði 20 þúsund krónur inn á reikning samtakanna. Það runnu hinsvegar á hana tvær grímur þegar hún uppgötvaði að enginn væri skráður fyrir samtökunum. Hún vonar peningarnir nýtist vel og fannst heimasíða samtakanna flott.
Skúli Jónsson, sviðsstjóri skráasviðs ríkisskattstjóra, segir skýrari reglna þörf; „Vandamálið er að það eru ekki neinar reglur um félagasamtök. Við viljum hafa lagabókstafinn sem skýrastan svo ekki þurfi að koma til okkar persónulega mats á því hvað megi skrá og hvaða kröfur megi gera til slíkra félaga um stjórnskipulag og upplýsingaskyldu.“
UPPFÆRT: Eftir að Fréttatíminn náði í þá Eggert Jóhannesson og Gunnar Bender og spurði um starfsemi Hjálparsamtaka bágstaddra barna, var heimasíða þeirra uppfærð og nú eru nöfn þeirra beggja þar að finna. Símanúmer samtakanna var skráð á ja.is aðeins klukkutíma eftir samtal við blaðamann.
The post Nafnlaus samtök safna peningum fyrir bágstödd börn appeared first on Fréttatíminn.