Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa, vísar á bug gagnrýni Friðberts Friðbertssonar, forstjóra Heklu, um að útboð Ríkiskaupa um ráðherrabíla séu tilgangslaus.
Í Fréttatímanum í gær gagnrýndi forstjóri Heklu að Ríkiskaup hefðu í þrígang synjað tilboðum fyrirtækisins í ráðherrabíla, þó þau væru lægstu boð og uppfylltu öll skilyrði útboðslýsinga. Halldór Ó. Sigurðsson hjá Ríkiskaupum segir það ekki sjálfgefið að taka lægsta tilboði hverju sinni, Ríkiskaup starfi eftir ströngum reglum.
„Eins og nefnt hefur verið er það því ekki alltaf verð sem ræður niðurstöðu eins og umfjöllun Fréttatímans virðist ganga út frá. Óheimilt er að velja tilboð sem uppfyllir ekki kröfur tæknilýsingar og hæfiskröfur til bjóðanda, jafnvel þótt um lægsta tilboð sé að ræða. Hver og einn bjóðandi fær málefnalegar röksemdir fyrir valinu, sem byggist á valforsendum útboðsgagna og tæknilýsingu. Þér er velkomið að fá bæði örútboðsgögn og röksemdir fyrir vali í hverju tilviki fyrir sig í þeim örútboðum sem hér um ræðir.
Að síðustu skal þess getið að seljendur geta kært niðurstöðu útboðs og er það rétti farvegurinn ef seljandi telur niðurstöðu útboðs byggða á ómálefnalegum sjónarmiðum. Það hefur seljandi ekki gert í þessu tilviki. Ríkiskaup eiga engra hagsmuna að gæta við val á ráðherrabifreiðum að öðru leyti en því að farið sé að lögum við innkaupin,“ segir Halldór.
The post Ríkiskaup: Ekki bara verðið sem ræður kaupum á ráðherrabílum appeared first on Fréttatíminn.