„Það verður væntanlega ekki biðröð fyrir framan verksmiðjuna til að vinna fyrir þessi laun,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur, en kísilverið United Silicon hefur ákveðið að gera ekki sérkjarasamninga við verkalýðsfélagið á staðnum vegna nýs kísilvers.
Kísilver United Silicon er að fara í gang en dagsetningunni hefur þó verið frestað nokkrum sinnum. Verið er að ráða verkamenn til starfa og verksmiðjan verður gangsett fyrir áramót. „Þetta eru mikil vonbrigði og algerlega á skjön við öll fyrirheit sem gefin voru þegar þessar framkvæmdir voru kynntar til sögunnar,“ segir Kristjá Gunnarsson. Hann segir að fyrirtækið greiði verkamönnum 1470 krónur á tímann sem nái ekki lágmarkslaunum. Þá greiði fyrirtækið 60 þúsund króna uppbót til að slefa yfir lágmarkið. „Mín vegna má þetta fyrirtæki bara fara, ég hef áhyggjur af því að þeir ætli í raun að sækja þetta vinnuafl til útlanda og koma því fyrir í einhverjum leiguhjöllum fyrir okurprís,“ segir hann og bendir á að það sé mikill uppgangur á Suðurnesjum, atvinnuástandið sé gott eftir langt atvinnuleysistímabil, það sé ólíklegt að heimamenn flykkist á staðinn: „Ekki til að vinna fyrir laun sem rétt drullast yfir 300 þúsund kallinn.“
Stjórnendur fyrirtæksins hafa samþykkt að ræða við verkalýðsfélagið um kaup og kjör. Kristján segist vonast eftir því að fyrirtækið endurskoði afstöðu sína eftir fundinn.
Fyrirtækið United Silicon er þegar komið í mikil vanskil við bæjarfélagið og eru 100 milljónir í lögfræðinnheimtu vegna lóðarleigu. Fyrirtækið neitaði að greiða skuldina þar sem bæjarfélagið væri á hausnum en bæjaryfirvöld telja hinsvegar að ekki verði vandkvæði á því að standa við öll fyrirheit þegar verksmiðjan taki að fullu til starfa en einungis fyrsti áfangi hennar af alls fjórum verður gangsettur á næstu mánuðum. Þá deilir fyrirtækið við Íslenska aðalverktaka vegna launakröfu uppá nærri einn milljarð króna. Líklegt er að bæði málin endi fyrir dómstólum.
The post Kísilver greiðir lágmarkslaun verkafólks appeared first on Fréttatíminn.