Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Vilja draga úr mengun glaðlofts

$
0
0

„Við ætlum að draga úr losun koltvísýrings um 40% á næstu fjórum árum, en glaðloftið er stór hluti af því,“ segir Hulda Steingrímsdóttir, verkefnastjóri hjá Landspítalanum.

Glaðloft mengar meira en akstur allra starfsmanna spítalans í og úr vinnu, samkvæmt grænu bókhaldi spítalans frá síðasta ári, og er í raun stærsti mengunarvaldurinn þegar kemur að kolefnisspori Landspítalans. Losun glaðlofts á síðasta ári nam tæplega 1500 tonnum árið 2015, en alls losaði spítalinn um 3800 tonn af koltvísýringi á síðasta ári.

Yfir fimm þúsund manns starfa hjá spítalanum, sem er einn stærsti vinnustaður landsins, en spítalinn endurvinnur tæplega 30% af rusli sem fylgir spítalanum, eða sem nemur um einu tonni af þeim þremur og hálfu tonni sem til fellur á einum sólarhring hjá stofnuninni.

Glaðloft er gastegund sem heitir niontix. Það bragðast og lyktar örlítið sætt, en efnið er litlaust og er geymt í gashylki sem inniheldur hreint niontix undir svo háum þrýstingi að gasið er fljótandi. Glaðloftið er langoftast notað við fæðingar og þykir gott deyfilyf þar sem það hefur umtalsverða verkjadeyfandi verkun. Þá þykir það einnig reynst vel í verkjameðferð barna.

Spurð hvernig það sé hægt að draga úr mengun glaðlofts, svarar Hulda: „Það myndum við gera með sérstökum eyðingarbúnaði.“

Hulda segir búnaðinn brjóta niður glaðloftið áður en það fer út í andrúmsloftið og þannig breytist það í óskaðlega lofttegund.

Næst mesti mengunarvaldur spítalans eru samgöngur starfsmanna spítalans, og því býður spítalinn upp á samgöngusamninga við starfsmenn þar sem þeir eru hvattir til þess að koma með vistvænni leiðum í vinnuna.

„Það hefur reynst mjög vel,“ segir Hulda sem bætir við að starfsfólk sé ekki aðeins sátt við að koma til vinnu með vistvænni hætti, heldur hafi hreyfingin jákvæð áhrif á heilsu þeirra.

Losun koltvísýrings vegna starfsemi Landspítala árið 2015 var 3.851 tonn sem er á við meðallosun 1.146 fólksbíla á ári, en nokkur samdráttur hefur orðið frá árinu 2014. Áhrifamestu þættirnir í losun eru glaðloftsnotkun, akstur starfsmanna í og úr vinnu, gufuframleiðsla á Hringbraut með svartolíu og flug starfsmanna vegna erinda erlendis, að því er fram kemur í grænu bókhaldi Landspítalans.

Í samtali við Áslaugu Valsdóttur, formann Ljósmæðrafélags Íslands, sagði hún að notkun glaðlofts hefði ekki verið rætt sérstaklega á fundi ljósmæðra.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652