Þó söngvakeppnin eigi að heita ópólitísk hafa heimsmálin oft haft áhrif á það sem gerist á sviðinu og stundum jafnvel öfugt. Hún hefur valdið deilum á Norður-Írlandi, endurspeglað átökin í Úkraínu og jafnvel komið af stað byltingu í Portúgal. Þá hefur hún verið til marks um ris og fall Tony Blair og átt sinn þátt í að endurreisa sjálfstraust Íslendinga eftir hrun.
Líklega er mörgum í fersku minni þegar púað var á hina rússnesku Polinu á Eurovision í fyrra. Ekki var þetta af listrænum ástæðum fyrst og fremst, lagið lenti þrátt fyrir allt í öðru sæti. Tildrögin voru hins vegar stuðningur Rússa við uppreisnarmenn í Úkraínu, sem vakið hafði sterk viðbrögð um alla álfuna. Eurovision-keppnin hefur ávallt haft það að leiðarljósi að hefja sig yfir stjórnmálin, en þetta er bara eitt dæmi af mörgum um hvað þau eru ávallt nálægt samt.
Eurovision-keppnin var fyrst haldin árið 1956, rétt áratug eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Ætlun hennar frá upphafi var því að eiga sinn þátt í að leiða álfuna saman, sem í sjálfu sér er pólitískt markmið. Átök í álfunni áttu þó oft eftir að endurspeglast á sviði sönglagakeppninnar. Árið 1970 höfðu skærur brotist út á milli kaþólikka og mótmælenda á Norður-Írlandi. Sama ár vann Írland Eurovision í fyrsta sinn af mörgum og var söngkonunni Dönu vel fagnað við heimkomuna. Þó var sá hængur á að sjálf var hún af norður-írskum ættum og fædd á Englandi, en hafði kosið að taka þátt fyrir hönd lýðveldisins Írlands. Svo var hún kaþólsk og kaþólikkar á Norður-Írlandi tóku þetta sem stuðningsyfirlýsingu við þann málsstað að þeir ættu frekar heima í suðrinu
Frá Eurovision í forsetaframboð
Tveimur árum síðar náðu deilurnar hámarki þegar 14 manns voru drepnir af breskum hermönnum í bænum Derry á Norður-Írlandi. Það sama ár sungu Írar í fyrsta og síðasta sinn á gelísku í keppninni, sem mátti túlka sem andstöðu við Englendinga. Ekki tókst að lægja öldurnar þrátt fyrir mikla velgengni Íra í Eurovision næstu árin. Á árunum 1992 til 1996 unnu þeir fjögur ár af fimm í Eurovision og árið 1996 var loksins samið um vopnahlé á Norður-Írlandi sem hefur að mestu verið haldið síðan.
Af Dönu er það hins vegar að frétta að hún fór í forsetaframboð á Írlandi árið 1997. Þar hafði hún ekki erindi sem erfiði, en var þó kosin á þing tveimur árum seinna. Árið 2011 bauð hún sig aftur fram til forseta með það að markmiði að vernda Írland frá Evrópusambandinu, en framboð hennar hlaut talsvert bakslag þegar í ljós kom að hún hafði bandarískan ríkisborgararétt til jafns við þann írska. Loks var bróðir hennar handtekinn í London, ásakaður um að hafa misnotað tvær stúlkur undir 16 ára aldri, en var ekki fundinn sekur. Dana lenti í sjötta sæti í forsetakosningunum það árið.
Ísraelar eða Arabalönd?
Þátttaka í Eurovision miðast ekki við landfræðilega legu þjóða, heldur við að þær séu meðlimir í Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva. Útsendingarsvæði þeirra er talið ná frá 40 gráðum austur og 30 gráðum norður, svo það nær einnig yfir stóran hluta Norður-Afríku og Miðausturlanda. Ísrael hefur kosið að taka þátt í keppninni allt frá 1973, en Arabaríkin hafa neitað að senda út framlag þeirra og hafa því ekki tekið þátt. Deilur Araba og Ísraela hafa því ekki náð inn í keppnina nema með óbeinum hætti, en þess má geta að árið 1973 var einmitt síðasta stórstríð þeirra á milli enn sem komið er, sem lauk með sigri Ísraela yfir Sýrlendingum og Egyptum.
Eftir fall kommúnismans breyttist landakort Evrópu meira en það hafði gert frá seinni heimsstyrjöld, og fjöldamörg ný ríki komu til skjalanna. Flóknast var ástandið í Júgóslavíu, sem leystist upp árið 1991. Árið eftir tók Júgóslavía þátt án Slóveníu, Króatíu og Makedóníu sem höfðu lýst yfir sjálfstæði, en Bosnía taldist hins vegar enn hluti af ríkinu. Árið 1993 tók Bosnía þátt undir eigin nafni í fyrsta sinn, en þá hafði stríð brotist út í landinu á milli þjóðarbrota Króata, Múslíma og Bosníu-Serba.
Á Eurovision í gegnum kúlnaregn
Framlag Bosníu það árið hét „The Whole World‘s Pain,“ og fjallaði um hermann sem sendir ástkonu bréf um að hann sé enn að berjast. Svo vildi til að söngvarinn Fazla var fyrrum fyrirsæta sem nú var orðinn hermaður í umsátrinu um Sarajevo. Rafmagn hafði verið tekið af borginni og því varð að taka lagið upp með aðstoð rafals sem þeir höfðu keypt á svarta markaðnum af hermönnum Sameinuðu þjóðanna.
Loks þurftu menn að smygla sér úr borginni í gegnum skothríð Serba til að komast til forkeppni sem haldin var í Zagreb í Króatíu. Bosníumenn komust áfram í keppninni, en Serbíu var neitað um þátttöku sökum viðskiptaþvingana Sameinuðu þjóðanna (þeirra sömu og Bobby Fischer varð eftirlýstur fyrir brjóta á sama tíma) og tók því ekki aftur þátt fyrr en 2004. Fazla komst lokum heilu og höldnu til Írlands, þar sem lokakeppnin var haldin sem oftar, en lenti ekki nema í 16. sæti fyrir viðvikið. Á hinn bóginn beið ástkona hans, sem áður hafði flúið frá Sarajevo, eftir honum í Dublin og giftust þau þar. Bosníumenn, sem stigu á svið beint á eftir Íslendingum í ár, sungu aftur um stríðið í þetta sinn en komust ekki áfram frekar en við.
Jóhanna Guðrún og Tony Blair
En það eru ekki bara stríð sem hafa haft áhrif á keppnina. Stundum er hún ágætis mælikvarði á álit þjóða í alþjóðasamfélaginu. Sem dæmi má nefna að þrátt fyrir að vera með stærsta tónlistariðnað Evrópu hafði Bretland ekki unnið keppnina síðan við upphaf Thatcher-tímans árið 1981. Árið 1997 varð loks breyting þar á. Britpop tónlistin ómaði víða um álfuna og hinn ungi og glæsilegi Tony Blair var nýkjörinn forsætisráðherra. Eins og til að kóróna endurreisnina unnu þeir jafnframt Eurovision þetta árið. Sex árum síðar hafði almenningsálit Evrópubúa heldur snúist gegn þeim eftir þátttöku þeirra í hinni umdeildu innrás í Írak. Sneru þeir þá heim frá keppni með núll stig.
Stundum má segja að þjóðir hljóti uppreisn æru í gegnum söngvakeppnina. Á þetta ekki síst við um Ísland árið 2009, þegar Jóhanna Guðrún reisti Ísland upp úr öskustó efnahagshruns og Icesave-hneykslis með laginu „Is It True?“ sem náði alla leiðina í annað sætið og er jafnbesti árangur landsins til þessa. Því lauk með eftirfarandi orðum:
Is it real? Did I dream it?
Will I wake from this pain?
Is it true? Is it over?
Baby did I throw it away?
Is it true?
Eurovision þátttakandi og byltingarleiðtogi
Það árið var keppnin haldin í Moskvu, en samskipti Rússlands og Úkraínu eru eitt helsta bitbein álfunnar þessa dagana. Ruslana vann keppnina fyrir hönd Úkraínu árið 2004 og skömmu síðar átti bylting sér stað í landinu. Fólk klæddist appelsínugulu og stóð saman á Maidan torgi til að mótmæla Viktor Yanukovich forseta, sem talinn var hafa svindlað í kosningunum. Einn af leiðtogum byltingarinnar var Ruslana sjálf, sem fór í hungurverkfall. Yanokovich sagði af sér og Yushchenko, sem var byltingarmönnum meira að skapi, tók við. Framlag Úkraínu árið 2005, GreenJolly, innihélt orðin: „No falsifications! No lies! No machinations! Yes Yushchenko! Yes Yushchenko! This is our president!“
Þetta þótti of pólitískt fyrir Eurovision-nefndina, sem lét þá taka nafn forsætisráðherrans út. Keppnin hafði þó margvísleg áhrif fyrir landið. Meðal annars afnámu Úkraínumenn vegabréfsáritanir einhliða, til að gera Evrópubúum auðveldara að vera viðstaddir keppnina. Hefur þeirri tilhögun verið haldið áfram til hagsbóta fyrir ferðamannaiðnaðinn. Keppnin þótti og vatn á myllu Evrópusinna, en deilurnar um ESB komust aftur í hámæli árið 2013. Yanukovich hafði þá aftur verið kosinn forseti og aftur verið steypt af þeim sem vildu ganga í Evrópusambandið. Þetta fór mjög í taugarnar á Rússum, sem lögðu í kjölfarið undir sig Krímskaga og hafa stutt uppreisnarmenn í austurhéruðum landsins.
Eurovision veldur byltingu
Þessar deilur ná síðan inn í keppnina þar sem þátttakandi Rússlands var púaður í fyrra, en Úkraínumenn tóku ekki þátt sökum fjárskorts í kjölfar stjórnarkreppu og stríðs. Framlag Úkraínumanna í ár er hins vegar sungið af Krímtataranum Jamölu á eigin þjóðtungu og nefnist „1944,“ sem er vísun í ártalið þegar nauðungarflutningar Stalíns á þjóð hennar áttu sér stað. Á meðan Úkraínumenn grípa til sögulegra vísana til að koma höggi á Rússa hafa menn í Moskvu hins vegar ákveðið að skilja pólitíkina eftir heima en leggja þess í stað allt kapp á að sigra í keppninni. Ekkert hefur verið sparað við þátttakandann, Sergei Lazarev, og hafa Rússar jafnvel fengið framleiðanda sænsku poppsveitarinnar Ace of Base til liðs við sig. Það að fá að halda keppnina á næsta ári þykir betra áróðursbragð en bein skot af sviðinu og margir spá Rússum sigri í ár.
Hvort svo mun reynast kemur í ljós í kvöld. Aðeins eitt dæmi er hins vegar um að söngvakeppnin hafi komið af stað byltingu. Það gerðist árið 1974 þegar lagið „E Depois do Adeus“ var flutt af þátttakendum Portúgala. Þetta voru leynileg skilaboð til herforingja um að hefja valdarán gegn einræðisherranum Tomás. Hin svokallaða „Nellikubylting“ fylgdi í kjölfarið, sem leiddi til afnáms einræðis í Portúgal og um leið endaloka blóðugra nýlendustríða þeirra í Angóla og Mósambík. 1974 var því ekki aðeins árið sem að Abba sigraði í Eurovision.