Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Dauðadæmdur Írani talar í Breiðholtskirkju

$
0
0

Fjölmörg börn á Íslandi fæðast af öðru kyni en þau vilja sjálf vera. Fréttatíminn ræddi við þrjú ungmenni sem hafa ólíkar sögur að segja.

Gabríela er ellefu ára og vill segja frá sjálfri sér því hún telur að það geti hjálpað öðrum transgender krökkum. „Mig langar að segja þeim að vera hugrökk. Ekki vera hrædd. Verið eins og þið eruð. Gerið þetta bara.“ Þetta eru helstu ráðin sem hún gefur þeim sem langar að vera af öðru kyni en þau fæddust. Sjálf hefur hún alltaf viljað vera stelpa þó hún hafi fæðst strákur og verið skírð Gabríel.  

„Það er heimskuleg tilhugsun að ef maður fæðist einhvern veginn þá eigi maður bara að vera þannig. Mér finnst hræðilegt þegar foreldrar leyfa ekki börnunum sínum að ráða hvort þau eru stelpa eða strákur. Það er örugglega það heimskulegasta sem til er í heiminum. Ég hef alltaf fengið að vera stelpa. Þannig líður mér best.“

Gabríela notar engin sérstök fræðiorð yfir hlutina en segist vilja hjálpa og styðja krakka sem vilja skipta um nafn. Þarf hugrekki til að skipta um nafn?
„Ég var svo ung þegar ég gerði það, ég var bara í öðrum bekk. Þá sagði ég öllum að ég vildi frekar vera Gabríela. Ég vissi í raun ekki að ég væri hugrökk því ég var svo lítil. En mér finnst mikilvægt að hjálpa þeim sem eru nær mér í aldri, kannski átta, níu, tíu ára krökkum. Mig langar að segja þeim að vera eins og þau vilja vera. Það skiptir engu máli hvað annað fólk hugsar um þig.“

Hefur þú fengið spurningar um nafnabreytinguna?
„Nei, ekkert svo margar. Stundum gerðist það að einhver gleymdi nafninu og kallaði mig Gabríel. Ég sagði þeim bara að ég héti Gabríela.“

Manstu eftir því að hafa verið kölluð Gabríel?
„Nei, eiginlega ekki, því um leið og ég breytti nafninu mínu, þá fóru allir að kalla mig Gabríelu. Mig minnir að það hafi tekið stuttan tíma fyrir fólk að venjast nýja nafninu. Stundum kallaði fólk á mig og sagði Gabríel, en bætti svo „a“ við. Sumir segja bara Gabbí. Bróðir minn kallar mig það.“

Þetta er kannski asnaleg spurning, en hefurðu einhvern tíma séð eftir því að hafa skipt um nafn?
„Mér finnst það ekki asnaleg spurning. Ég sé ekki eftir því. Um leið og allir vissu að ég væri stelpa og héti Gabríela, þá leið mér svo ótrúlega vel. Bara miklu betur.“

Hefur þér verið strítt á þessu?
„Það hefur alveg komið fyrir að einhver reyni að pirra mig með því að kalla mig Gabríel. Ég hugsa bara ekkert um það.“

Hvað með þau sem þora ekki alveg að vera eins og þau eru?
„Mér finnst mikilvægt að vera hugrökk. Það þarf hugrekki.“

Hefur þetta verið erfitt?
„Nei, mér fannst ekkert erfitt að safna hári eða breyta nafninu mínu eða eitthvað svoleiðis. Ég held ég hafi líka verið svo lítil að ég skildi það ekki að það gæti verið erfitt. En það hafa komið slæmir dagar, þar sem ég vildi bara fara upp í rúm og gráta af því að ég er transgender. Þá braut ég mig niður og sagði við sjálfa mig að ég hefði aldrei átt að fæðast. Þetta gerðist ekki oft, kannski nokkrum sinnum á stuttu tímabili. Núna finnst mér skrítið að ég hafi verið með svona tilfinningar. Það er ekkert mál að vera ég. Ég er bara ég.“

26523_Gabriella_Maria_Dadadottir-4

Gabríela segist stundum vilja útskýra hlutina fyrir krökkum. „Stundum þegar ég kynnist einhverjum nýjum þá finnst mér ég þurfi að segja þeim frá þessu. Ég segi þá bara að ég hafi í alvörunni fæðst sem strákur en mig langi að vera stelpa. Fyrst fríka þau pínu lítið út, en svo verður þetta bara venjulegt. Sumir krakkar fá sjokk og vita ekkert hvað þeir eiga að segja. En ég er ekkert það mikið að hitta nýja krakka. Ég er bara með krökkunum í skólanum mínum og þau þekkja mig vel. Núna vil ég helst þekkja manneskjuna vel til að ræða þetta. Ég vil geta treyst henni og mér finnst betra að vita fyrst hvort fólk er til dæmis rasistar eða með fordóma fyrir einhverju. Því ef svo væri, myndi ég frekar vilja hætta að tala við það og sleppa því að segja frá þessu.“

Hún vill sérstaklega taka fram að hún hafi verið heppin með kennara sem hefur hjálpað henni mjög mikið. „Já, ég hef átt alveg ótrúlega góða kennara, þær Söru og Jónu. Þær hafa bara verið til staðar fyrir mig og hafa ekkert á móti því að ég vilji vera stelpa. Þeir hafa tekið mér eins og ég er og hvatt mig áfram.”

Hún hefur aldrei efast

FJölskylda Gabríelu Maríu.
FJölskylda Gabríelu Maríu.

María Bjarnadóttir og Daði Már Ingvarsson segja það hafa verið náttúrulegt ferli, þegar Gabríela dóttir þeirra opinberaði fyrir umheiminum að hún væri í raun stelpa.
Daði segist stundum gleyma því að dóttir þeirra hafi einhverntíma verið öðruvísi en hún er nú. „Hún er bara stelpan okkar og þetta hefur ekki verið jafn flókið og við bjuggumst við.“

Foreldrarnir segjast í raun alltaf hafa vitað að Gabríela væri stelpa og þess vegna hafi ferlið verið áreynslulaust og eðlilegt. „Hún leitaði í allt sem gæti kallast stelpulegt frá því hún var pínulítil. Hún var alltaf að fá lánuð föt frá vinkonum sínum og klæða sig upp. Hún lék sér með dúkkur og Barbie og hreifst af öllu sem glitraði. Okkur fannst ekkert að því. Við bjuggumst alveg eins við því að áhugi hennar á þessu myndi hverfa,” segir María. „Ég reyndi stundum að draga úr þessu, þegar hún varð aðeins eldri. Ég vildi vernda hana og var hræddur um að henni yrði strítt. Sem dæmi gat verið snúið að gefa henni afmælisgjafir. Við vissum alveg hvað hana langaði í en vorum smeyk við að ota að henni dóti sem gæti þótt of stelpulegt. Við vildum ekki ýta undir þetta,“ segir Daði.

26523 Gabriella Didriksen 2

Fyrstu æviár Gabríelu bjó fjölskyldan í Ólafsvík en þegar hún varð fjögurra ára fluttu þau til Keflavíkur. „Á þessum tíma klæddist Gabríela alltaf kjólum eða pilsum heima hjá sér en við vorum vön að senda hana í hlutlausari fötum í leikskólann. Það varð henni til happs að koma inn í leikskóla Hjallastefnunnar í Keflavík. Kynin eru aðskilin í skólanum og allir krakkarnir ganga í skólabúningum. Árið sem hún byrjaði komu í fyrsta skipti pils við skólabúningana. Hún var sett í strákahóp en fékk að vera í pilsi. Leikskólakennaranum fannst það alveg sjálfsagt og krakkarnir kipptu sér ekkert upp við það,” segir María.

Gabríela fékk að vera nákvæmlega eins og hún vildi. Þegar krakkarnir höfðu kynnst henni setti enginn spurningamerki við það þegar hún ári síðar, var látin skipta yfir í stelpuhópinn.
„Það styrkti hana rosalega og við fundum hvað hún varð miklu sáttari,“ segir María. „Hún passaði betur þar.“

Daði og María segja að þetta dæmi lýsi reynslu þeirra af því ala upp Gabríelu. Þau hafi stundum reynt að halda aftur að henni, en þegar þau leyfðu henni að vera eins og henni leið best, þá fundu þau vel hvað það gerði henni gott.

„Þegar við fluttum svo í bæinn, með hana sex ára gamla, var ég aðeins strangari við hana. Ég reyndi að draga úr þessu stelpulega sem hún sýndi svo mikinn áhuga, og passaði að hún færi í strákalegri föt þegar við vorum úti á meðal fólks. Ég óttaðist að hún yrði fyrir aðkasti á skólalóðinni. Það varð til þess að hún fjarlægðist mig sífellt meira,” segir Daði. „Ég fann það sjálfur að ég var að mála mig út í horn. Hún treysti mér ekki jafn vel og áður. Þegar ég kom heim úr vinnunni á daginn þá hætti hún að leika sér í stelpulegum leikjum um leið. Hún leitaði meira í mömmu sína en mig og mér fannst ég vera að missa hana frá mér. Ég áttaði mig á því að ég væri bara að flækja hlutina með því að streitast á móti,” segir Daði.

26523_Gabriella_Maria_Dadadottir-5

Um þetta leyti byrjaði Gabríela í Vatnsendaskóla í Kópavogi og að sögn foreldranna fékk hún heimsins besta kennara, Ragnheiði Jónu Laufdal Aðalsteinsdóttur. „Hún var alveg frábær og reyndist okkur vel í öllu ferlinu. Hún fékk styrk til að fara á ráðstefnu um transkrakka í Bandaríkjunum og námsráðgjafi skólans fór með. Ragnheiður Jóna bjó til fræðsluefni fyrir aðra kennara um þetta og stóð þétt við bakið á okkur í öllu ferlinu. Ég man til dæmis að hún mætti í karlmannsfötum á einhverjum búningadegi, svo Gabríela yrði öruggari með sig. Hún varð okkar helsti stuðningsmaður í þessu öllu. Henni finnst mikilvægt að allir fái að vera eins og þeir vilja vera, og ekki fastir í einhverjum kynjahlutverkum,” segir María.

Þau segja að í samráði við kennarann og Gabríelu hafi verið ákveðið, á miðju skólaári í öðrum bekk, að upplýsa foreldra skólasystkina hennar um að hún væri stelpa. Sendur var tölvupóstur á foreldrana, svo var haldinn foreldrafundur og krökkunum sagt frá því að Gabríel héti Gabríela.
„Þá höfðum við kallað hana Gabríelu heima í langan tíma og þörf hennar varð alltaf sterkari. Um leið og hún fékk að breyta um nafn var eins og meiri ró kæmi yfir hana,“ segir María.
„Já, og við sáum hvað hún varð sáttari. Þessi ýkta þörf fyrir eitthvað bleikt og stelpulegt varð afslappaðri og hún komst í meira jafnvægi. Ég hafði miklað fyrir mér hvernig krakkarnir myndu bregðast við. En breytingin var miklu auðveldari en ég hafði ímyndað mér,“ segir Daði.

Þau segja bekkjarfélagana hafa þekkt Gabríelu vel og ekkert kippt sér upp við þetta.
Svo kom að því að Gabríela fékk nýjan kennara. Sú fékk að vita að það væri stelpa í bekknum sem væri fæddur strákur. „Nýi kennarinn vildi í fyrstu ekki fá að vita hvaða stelpa það var. Eftir heila viku með bekknum höfðu henni dottið tvær eða þrjár stelpur í hug, en engin þeirra var Gabríela,” segir María.

Þau neita því þó ekki að það hafi komið hnökrar í ferlinu. Því eldri sem Gabríela varð, áttaði hún sig betur á líffræðilegum staðreyndum. „Og það hafa komið tímabil þar sem hún hefur verið döpur. Til dæmis þegar hún áttaði sig á því að hún gæti ekki gengið með barn. Það var svolítið áfall að átta sig á því að hún væri kannski ekki að öllu leyti eins og hinar stelpurnar,“ segir Daði.

Þau segja að í Gabríelu megi stundum greina undirliggjandi kvíða yfir því sem er í vændum.
„En á heildina litið er hún hamingjusamur krakki. Það koma hæðir og lægðir en aldrei efi. Hún vill hvetja aðra krakka áfram og deila sinni reynslu. Við vorum auðvitað hrædd við það líka, eins og öll önnur skref, en tökum undir það með henni að það sé mikilvægt að tala um hlutina.“

Ekki hægt að brjóta mig niður

26510_Lara_Didriksen-3

Lára Didriksen er fimmtán ára og opinberaði sig sem stelpu í september í fyrra. Þó hún hafi á tímabili orðið fyrir einelti í skóla þá rís hún alltaf upp aftur. Hún segir ferðalagið frelsandi ævintýri og sér engar hindranir á veginum. 

„Þetta hefur aldrei verið ströggl hjá mér,“ segir Lára í dyragættinni á heimili sínu þegar Fréttatímann ber að garði. „Ég hef eiginlega alltaf vitað að ég er stelpa.“

„Það urðu miklar breytingar hjá mér eftir að ég fór í sumarbúðir til New York í fyrra. Á þeim tíma var ég mikið að horfa á Youtube-vídeó um líf transkvenna eins og Gigi Gorgeous og Princess Joules. Þegar ég sá þessi vídeó þá gerðist eitthvað og ég hugsaði að í raun væri ég svona eins og þær. Ég vissi hins vegar ekkert hvað ég átti að gera. Ég var rosalega stressuð yfir þessu en ákvað, einu sinni þegar við mamma vorum tvær einar í bíl á planinu fyrir utan Krónuna, að segja henni frá þessu. Pabbi hafði hlaupið inn í búðina og ég notaði tækifæri á meðan og sagði við hana: „hey, ég er trans.“ Mamma sagði bara ókei og svo þögðum við það sem eftir var af bíltúrnum.“

26510_Lara_Didriksen-7

Heidi Didriksen, móðir Láru, hlær og gengst við þessari lýsingu. „Innst inni vissi ég að það væri eitthvað að gerast. Það eina sem ég hafði í huga var að barninu mínu liði vel í sínu skinni. Fyrir okkur og okkar nánasta umhverfi hefur þetta ekki verið neitt mál. Hún hefur alltaf fengið að leika sér eins og henni sýnist og hefur alltaf laðast að kjólum og prinsessudóti. Hún var óð í skó og töskur og sem lítið barn klæddi hún sig upp í kjóla, gekk ofan á borðstofuborðinu og speglaði sig í glerskápunum. Hún átti fullt af vinkonum og var oftast bara boðið í stelpuafmælin í bekknum. En þó hún hafi alltaf fengið að vera eins og hún vildi vera, þá áttuðum við okkur líka á því að heimurinn getur verið grimmur. Hún þarf bara að finna það sjálf,“ segir Heidi.

Lára gekk í Hólabrekkuskóla og þegar unglingsárin færðust yfir varð hún, að sögn þeirra mæðgna, fyrir miklu einelti. „Það gekk allt vel þangað til ég byrjaði í áttunda bekk. Þá snerust krakkarnir gegn mér og mér var meira að segja hótað að ég yrði lamin. Kennarinn tók þátt í þessu og mér leið ekki vel. Í níunda bekk fór ég í Réttarholtsskóla og fann hvernig allt breyttist. Þar eru krakkarnir miklu opnari og mér var rosalega vel tekið.“ Þær segja að það hafi hjálpað Láru mikið að á þessum tíma var hún komin út sem stelpa.

Heidi segir Láru vera einstaklega sterka manneskju sem lætur ekki bugast þó á móti blási. Hún hafi sjálf óskað eftir því við kennara í skólanum, að fá að halda fyrirlestur um einelti og lýsa sinni upplifun fyrir krökkunum. Þar að auki hafi hún markað sér sterka stöðu í félagslífinu fyrir að vera góð að syngja. Lára hefur tvisvar sinnum tekið þátt í söngkeppni Samfés og lent í öðru og þriðja sæti. „Hún söng sig bara í gegnum erfiðleikana. Það hefur styrkt hana mjög mikið. Ég fann líka rosalega mikinn mun á henni eftir að hún byrjaði í nýjum skóla. Hún varð hamingjusamari og sjálfsöruggari. Hún var líka heppin að komast fljótt í viðtöl hjá BUGL og Samtökunum ‘78 og skömmu eftir að hún sagði okkur fjölskyldunni frá þessu var hún farin að fá læknishjálp til að geta lifað eins og hún vill.“

„Nú er ég að æfa mig í að beita röddinni rétt,“ segir Lára. Og bætir því við að hún hafi líka þurft að læra að mála sig og leika sér með útlitið. „Og það er algjört frelsi að fá að klæða sig í falleg föt alla daga.“

Skilningur fólks kom á óvart

26420_Solon_Huldar_Bjartmarsson-7

Hvert skref í kynleiðréttingarferlinu gerði Sólon Huldar Bjartmarsson hamingjusamari manneskju. Hann segir transkrökkum að vera hugrökk og skýr á vilja sínum. Lífsgleðin muni fylgja. 

Sólon er tvítugur en tæpur áratugur er síðan hann áttaði sig á því að hann væri strákur.
Samt þurfti hann að glíma við kynþroska stelpulíkamans og þjást yfir öllum þeim líffræðilegu breytingum sem stríddu gegn kynvitund hans. Síðasta skrefið í leiðréttingarferlinu steig hann á dögunum þegar brjóstin voru fjarlægð. „Ég hafði beðið eftir þessari aðgerð í mörg ár. Nú finnst mér ég loksins orðinn ég sjálfur. Það er mikill léttir. Loksins er ég kominn á góðan stað. Ég er í vinnu, ég er með bílpróf, ég er með fjólublátt hár og þori að klæða mig í litrík föt. Ég þori að láta í mér heyra. Ég held ég sé bara alveg eins og ég vil vera.“

En Sólon þurfti að hafa fyrir þessu öllu. Það var eftir langt og strangt baráttuferli að honum fór að líða vel. „Umhverfi mitt var ekkert vandamál. Mamma er smíðakennari og systir mín var alltaf í íþróttum og engin svona stelpustelpa. Ég var alltaf að spila tölvuleiki með pabba mínum. Það voru sem sagt engar staðalímyndir á mínu heimili. Mér fannst bara skelfileg tilhugsun að alast upp sem kona. Giftast, fara í hvítan kjól. Fara á blæðingar. Það var eiginlega framtíðin sem hræddi mig. Mér fannst eins og fólk myndi þá sjá mig sem eitthvað annað en ég er.“

Transbörn oft heimilislaus

„Sólon var alltaf brosandi sem krakki, eiginlega alveg þar til hann varð svona tíu ára. Ég sé það á myndunum í fjölskyldualbúmunum að þá kom einhver sorg yfir hann,“ segir Lóa Kristín Guðmundsdóttir móðir Sólons. Um það leyti segist Sólon hafa verið mjög óöruggur um kynímynd sína og fljótlega áttað sig á því að hann væri strákur.

Unglingsárin færðust yfir og urðu honum sífellt erfiðari. Hann lokaði sig af og vildi helst ekki yfirgefa herbergið sitt. „Ég svelti mig svo ég fengi ekki mjaðmir og brjóst. Ég gekk í svörtum fötum sem voru fimm númerum of stór svo engin sæi hvernig ég væri í laginu. Ég vildi ekki vera innan um fólk og óskaði þess stundum að jörðin gleypti mig. Svona held ég að mörg transbörn í gegnum tíðina hafi hugsað líka. Ég hef lesið sögur af transkrökkum á áttunda áratugnum sem eru hreint út sagt hræðilegar. Þó aðstæður hafi lagast mikið síðan þá, eru enn hræðilegir hlutir að gerast í lífi transbarna. Sjálfsmorðstíðnin er rosalega há og tölur yfir heimilislausa transkrakka, til dæmis í Bandaríkjunum, eru svakalegar.“

26420_Solon_Huldar_Bjartmarsson-9
„Ég byrjaði náttúrulega á því að lesa mér til á netinu. Þegar ég var fjórtán ára fór ég í nokkur viðtöl á barna- og unglingageðdeild sem mér fannst alveg hryllileg. Þar var ég þráspurður um sömu hlutina aftur og aftur, hvort ég væri alveg viss um það sem ég væri að segja, og svo framvegis. Á endanum varð eg svo pirraður að ég spurði á móti, hvernig læknarnir þar gætu verið vissir um sitt kyn.”
„Eftir þetta fór hann að skrópa í skólanum,“ segir Lóa Kristín.
„Svo fór pabbi að lesa sér til um transkrakka og sækja sér upplýsingar. Hann frétti af þessum stopphormónum sem halda kynþroskanum niðri,“ segir Sólon og Lóa Kristín bætir við;
„Það var eitt af þessum skrefum sem hjálpuðu mikið til. Og fleiri fylgdu í kjölfarið. Það þurfti að segja kennaranum og skólastjóranum frá því að hann væri strákur. Hann valdi sér nafn sjálfur og það tók auðvitað tíma fyrir fólk að venjast því. Það þurfti að breyta skráningunni hans í skólakerfinu og alls konar vesen. Við áttuðum okkur fljótt á því að auðveldasta leiðin var að styðja hann í því sem hann vildi gera. Vera jákvæð og þolinmóð og mæta þörfum hans. Það var aldrei erfitt að stíga skrefin með honum því við sáum hvernig hann varð glaðari,“ segir Lóa Kristín.

Margir veggir að mölva

Mæðginin segjast hafa fengið ómælda hjálp frá Sigríði Birnu Valsdóttur hjá Samtökunum ‘78 og hún hafi meðal annars talað við kennara og hjálpað þeim í ferlinu við að koma út sem strákur. Sólon segir að það hafi hjálpað honum heilmikið að skipta um skóla í tíunda bekk og vera kynntur með réttu nafni. Þannig fór hann inn í menntaskóla sem strákur og gerðist virkur þátttakandi í ungliðahreyfingu Samtakanna ‘78.

„Allt þetta hjálpaði mér að líða betur og verða meira opinn. Í raun kom það mér á óvart hvað fólk sýndi mér mikinn skilning. Eldra fólk og þeir sem ég bjóst við að myndu setja sig upp á móti mér gerðu það alls ekki. Allt varð svo miklu betra og réttara þegar ég fór að lifa sem ég sjálfur.“

Þau segja aðgreiningu samfélagsins á kynjum mjög áberandi og enn sé transfólk að reka sig á alls kyns óþægilega veggi. Til dæmis í sundlaugunum, búningsklefum og salernum.
„Það þýddi ekkert annað en að fá vottorð í leikfimi fyrir Sólon,“ segir Lóa Kristín.
„En krakkar finnar sínar leiðir. Sem betur fer eru yfirleitt eitt eða tvö ómerkt klósett í menntaskólum og við finnum þau bara,“ segir Sólon. Hann segist líka elska sund þó hann hafi bara farið þrisvar sinnum á undanförnum sex árum. Það hafi meðal annars verið í sumarbúðum hinsegin fólks og svo hafa stundum aðilar innan Samtakanna ‘78 tekið sundlaugar á leigu.
„Ég myndi mjög gjarnan vilja fara oftar í sund en það hefur ekki verið hægt. Mér líst því vel á tillögu sem nú er til umræðu í borginni, að koma upp óskilgreindum búningsklefum í helstu sundlaugum landsins. Það myndi gagnast mörgum.“

Átti ekki von á hamingjunni

Sólon nefnir fleiri dæmi um hindranir á veginum.
„Ég man hvað ég óttaðist að vera beðinn um skilríki eða að einhver sæi debetkortið mitt.“
„Já, hann tók alltaf pening út úr hraðbönkum til þess að lenda ekki í veseni þegar hann sýndi skilríki með stelpunafni.“
„Það var líka óþægilegt að ferðast á vegabréfi með stelpunafni, ég var mjög smeykur um að vera stoppaður þegar ég fór til Þýskalands fyrir tveimur árum og framvísaði passanum mínum. En litlu sigrarnir á leiðinni voru svo ánægjulegir. Að fá rétta skráningu í þjóðskrá og ökuskírteini með réttu nafn var mér mjög mikilvægt.“

Mægðinin vilja hvetja transbörn til að koma út og leita sér hjálpar og stuðnings, til dæmis hjá Samtökunum ‘78. „Það er mikilvægt að börn segi hvernig þeim líður því þó séu kvalin og búin að loka sig af inni í herbergi, þá verða þau að vita að þau geta orðið einstaklingarnir sem þau sjá fyrir sér. Það er nauðsynlegt að þau fái að heyra það, því trúið mér, ég veit um hvað ég er að tala. Ég hefði ekki trúað því fyrir nokkrum árum hvað mér ætti eftir að líða vel í dag.“

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652