Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Kaþólski söfnuðurinn þarf að rísa upp

$
0
0

Ísleifur Friðriksson fékk loks staðfestingu á því frá hinu opinbera að frásögn hans af kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi skólastjórnenda Landakotsskóla og starfsmanna kaþólsku kirkjunnar, hafi átt við rök að styðjast. Ísleifur greindi fyrst frá þessu opinberlega fyrir fimm árum og hefur barist fyrir því að vera tekinn trúanlegur síðan. Á dögunum fékk hann ásamt fleiri fyrrum nemendum Landakotsskóla boð um sanngirnisbætur frá ríkinu vegna skaðans sem þau hlutu af ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar.

Eftir að málið blossaði fyrst upp í fjölmiðlum lét kirkjan stofna óháða rannsóknarnefnd til að rýna í viðbrögð kirkjunnar manna við ásökunum um ofbeldi. Fyrir þeirri nefnd fór Hjördís Hákonardóttir fyrrum hæstaréttardómari. Í kjölfar niðustaðna nefndarinnar vildu starfsmenn kaþólsku kirkjunnar stofna aðra rannsóknarnefnd til að fara yfir málið á ný. Þær niðurstöður voru aldrei gerðar opinberar. Að auki var stofnað fagráð kaþólsku kirkjunnar.

Ísleifur segist fagna sáttaboði ríkisins; „Ég er mjög ánægður með aðkomu ríkisins, Reykjavíkurborgar og sýslumanns, að þessu máli. Ég fagna því gríðarlega að fá þessa staðfestingu og sanngirnisbæturnar voru hærri en mig grunaði. Viðbrögð kirkjunnar við þessu máli öllu hafa hinsvegar verið máttlaus og ekki leitt til neins. Kirkjan hefur stofnað nefndir og fagráð sem ekkert hefur komið út úr. Ég var aldrei boðaður til samtals við starfsmenn kirkjunnar. Þeir ollu mér enn meiri sársauka með fáranlegum viðbrögðum sínum.”

Það var niðurstaða Fagráðs kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma, að Ísleifur hefði ekki sýnt fram á að kaþólska kirkjan hefði brotið á honum. Ríkið hefur nú komist að þveröfugri niðurstöðu.

„Það fylgdi enginn hugur þeim orðum sem starfsmenn kirkjunnar hafa látið falla um þetta mál. Og ég er enn rasandi hissa á því að söfnuðurinn hafi leyft kirkjunni að afgreiða þetta svona. Það heyrðist aldrei múkk í neinum.“

Ísleifur segist aldrei hafa verið á höttunum eftir peningum. „En nú verður kirkjan að svara því hvort hún vilji biðja mig afsökunar og gangast við því sem borið var upp á sínum tíma. Ég vil að biskup biðji mig persónulega afsökunar í hámessu á páskadagsmorgun.”

Fréttatíminn reyndi án árangurs að ná tali af kaþólska biskupnum Davíð Techner. Séra Patrick Breen er staðgengill biskups en vildi alls ekki svara spurningum um málið. „Það er best að biskupinn heyri af þessu máli fyrst og ákveði hvernig eigi að bregðast við því. Ég ætla ekki að tjá mig um þetta.“

Patrick Breen staðgengill kaþólska biskupsins vill ekki bregðast við því að ríkið greiði nú fólki sanngirnisbætur vegna skaða sem það hlaut af illri meðferð innan kaþólsku kirkjunnar.

28973-patrik-breen
Patrick Breen staðgengill kaþólska biskupsins vill ekki bregðast við því að ríkið greiði nú fólki sanngirnisbætur vegna skaða sem það hlaut af illri meðferð innan kaþólsku kirkjunnar.

Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652