Konan sem varð fyrir fólskulegri líkamsárás í Vestmanneyjum um síðustu helgi hefur birt stutt myndbrot af áverkum sínum á Facebook. Þar má sjá að konan er afar illa farin eftir árásina sem átti sér stað aðfaranótt sunnudags.
23 ára gamall Vestmannaeyingur situr í gæsluvarðahaldi sökum málsins en sá hefur neitað sök. Manninum er gefið að sök að hafa misþyrmt konunni með hrottafengnum hætti, meðal annars sparkað í andlit hennar.
Lögreglan í Vestmannaeyjum staðfestir að konunni hafi verið skipaður réttargæslumaður og að henni hafi verið boðin margvísleg aðstoð sem hún hafi ekki þegið. Þá hefur ekki verið tekin ákvörðun hvort farið verði fram á lengra varðhald yfir manninum, en gæsluvarðhaldið rennur út síðdegis í dag.
Mikil reiði er á meðal Vestmannaeyinga vegna málsins, en fram kom í samtali við þá í Fréttatímanum í gær að þeir teldu árásina afar ófyrirleitna, þá helst vegna þess að konan stendur höllum fæti félagslega og á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.