Hvað sérðu, ágæti lesandi, margar ljósmyndir á dag? Flestum verður líklega fátt um svör, því að þær skipta jafnvel hundruðum, ef ekki þúsundum. Aftur má spyrja: Hvað sérðu margar góðar ljósmyndir í dag? Verða á vegi þínum myndir sem að fá þig til að stoppa og hugleiða myndefnið? Er einhver mynd í dag fær um að kveikja tilfinningar, spyrja þig spurninga eða stækka fyrir þér heiminn?
Samtíminn er uppfullur ljósmyndum og sannarlega verða til góðar myndir á hverjum degi. Veröldin er full af góðu myndefni. Við tökum myndir í gríð og erg af því að okkur þykir það spennandi og til að vitna um að líf okkar sé spennandi. Stundum kann það að vera rétt og myndin af því líka góð.
Hins vegar er ljósmyndasagan einnig rík af góðum myndum frá þeim tíma þegar tæknin var dýrari, undirbúningur fyrir ljósmyndatökuna lengri og ekki endilega möguleiki á að taka margar myndir til að ná einni góðri. Þegar best tókst til náðu ljósmyndarar fyrri tíma öruggum listrænum og tæknilegum tökum á ljósmyndatækninni sem oft var þá frekar tengd fagi, en síður litið á hana sem listgrein. Stundum standa samt eftir ótvíræð listaverk.

Meistari íslenskra mannamynda
Ljósmyndarinn Jón Kaldal (1896-1981) rak ljósmyndastofu í Reykjavík í nærri hálfa öld og tók myndir af alls konar fólki. Stofan var í hjarta bæjarins og Kaldal naut vinsælda í sínu fagi. Sýning sem hann hélt í Casa Nova, byggingu Menntaskólans í Reykjavík árið 1966, þótti nokkur nýlunda, því ekki tíðkaðist þá að ljósmyndarar héldu einkasýningar, ólíkt því sem við þekkjum í dag.
Mannamyndirnar eru það svið ljósmyndunar sem Kaldal sérhæfði sig í og náði meistaralegum tökum á. Í grein um ljósmyndarann, í bók um hann sem kom út árið 1982, skrifaði Thor Vilhjálmsson rithöfundur um ljósmyndarann að hann reyndi að „sjá inn í manneskjuna. Átta sig á manninum, hver hann er. Og hann hefur svo mikið að sýna í myndum sínum af því hann hafði séð svo mikið sjálfur. Og lagt sig eftir því að vita hvað byggi bak við svipinn, svipbrigðin.“ Áður en fyrsti áratugur í lífi Jóns var liðinn hafði hann misst foreldra sína báða og bróður.

Sérstakur galdur
Augun eru stingandi, hrukkurnar meitlaðar, húðin nánast þannig að maður vill rétta út höndina og strjúka vanga. Mannamyndir Kaldals eru meistaralega framkvæmdar og nákvæm, sérhæfð þjónusta. Þegar best lætur eru myndirnar, sem varðveittar eru á plötum og filmum í Ljósmyndasafni Íslands, innan Þjóðminjasafnsins, þannig að þær grípa augað og halda athygli manns, betur en flestar myndir ljósmyndir.
Ljósið sjálft, frumskilyrði ljósmyndunar, var lykillinn að árangri Kaldals. Með lýsingunni mótaði hann viðfangsefni sín, bjó til skugga í andlitin og ýkti aðra þætti þeirra. Ennið á Ástu Sigurðardóttur verður eggslétt og lokaðir munnar fagurlega mótaðir með hjálp ljóss og skugga.
Oft á tíðum eru mannamyndir Kaldals nærri dramatísk myndverk, samt er það aldrei svo að fyrirsæturnar séu blásnar upp í yfirstærðir eða hafnar til skýjanna. Þetta er ekki hetjuljósmyndun. Augun eru anddyri sálarinnar og yfirleitt draga þau áhorfandann að myndum Kaldals. Sveitafólk fortíðar sem harðnaði í lífsins eldi, jafnt sem helstu listamenn þjóðarinnar á 20. öld, sátu fyrir hjá ljósmyndaranum og stór hluti snilldarinnar er hvernig ljósmyndarinn rammaði módelin inn. Þannig kallast myrkrið í augum Finns Jónssonar listmálara á við þann þrönga dökka ramma sem ljósmyndarinn útdeilir honum.

„Sá ólæsi í framtíðinni mun ekki vera sá sem ekki getur lesið stafrófið, heldur hann sem ekki getur tekið ljósmynd.“ Þetta sagði þýski heimspekingurinn Walter Benjamin eitt sinn og sá fyrir hvernig aukið aðgengi að myndefni myndi stjórna sýn okkar á heiminn og breyta tilfinningum okkar fyrir raunveruleikanum.
Myndir eru allsstaðar fyrir framan nefið á okkur, en samt er eitthvað í eðli þeirra sem gerir það að verkum að við stoppum nánast í sporunum þegar við verðum fyrir „góðri mynd“. Þannig mynd getur nánast kýlt okkur köld og snert taugar sem ekki er endilega auðvelt að ná til.
Með mannamyndum sínum, til dæmis af mörgum af merkustu listamönnum þjóðarinnar, skapaði Kaldal tilfinningu okkar fyrir manneskjunum á bak við verkin. Þær fjölmörgu myndir sem hann tók af Jóhannesi Kjarval eru gott dæmi. Þar þroskast listamaðurinn fyrir framan augu okkar á löngu tímabili og við skynjum manninn á bak við verkin. Auðvitað var Kjarval óvenju „fótógenískur“ en þann eiginleika þarf samt að fanga vel. Það sama á við um eldinn í augum Finns Jónssonar og dramatískan „femme fatale“ þokka Ástu Sigurðardóttur.
Það á jafnt við um listamennina og hrjúfa bændahöfðingja, að Kaldal staðfestir tilvist þessa fólks í mannheimum, löngu eftir að það er farið. Og áfram getum við notið myndanna. Hann lýsti upp manneskjurnar og safnaði sálum þeirra. Það er galdur ljósmyndarinnar þegar best lætur.
