Færeyingar munu setja reglur um hámarkskvóta sem færeyskar útgerðir munu mega ráða yfir þegar nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi verður innleitt í landinu árið 2018. Helsta inntakið í nýja fiskveiðistjórnarkerfinu verður að tekin verður upp uppboðsleið á kvóta. Fjallað er um kvótaþakið í niðurstöðum frá sérstakri nefnd í Færeyjum sem á að koma með tillögur um tæknilegar útfærslur á innleiðingu nýja fiskveiðistjórnarkerfisins. Rætt var um tillögurnar á fundum í Færeyjum dagana 22. og 23 september.
Tæknilegar útfærslur á uppboðskerfinu eru í vinnslu í Færeyjum og varpa niðurstöður nefndarinnar ljósi á hvernig uppboðskerfið verður
uppbyggt.
Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Høgni Hoydal, kom til Íslands nú í september til að tala um uppboðsleiðina og sagði hann þá í viðtali við Fréttatímann að Færeyingar hefðu „sögulegt tækifæri“ til að búa til fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem kvótinn er ekki „gefinn“ heldur boðinn upp.
Kvótaþak er ekki að finna í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða í Færeyjum og væri það því nýbreytni. Markmiðið með slíkri reglu er að koma í veg fyrir að stór sjávarútvegsfyrirtæki í landinu misnoti markaðsráðandi stöðu sína. „Reglur um kvótaþak hafa það aðalmarkmið að koma í veg fyrir að fyrirtæki misnoti markaðsráðandi stöðu sína,“ segir í niðurstöðum færeysku nefndarinnar. Færeyska nefndin setur hins vegar ekki fram hugmynd um neina ákveðna prósentu sem kvótaþakið á miðast við þar sem slíkt sé spurning sem nefndin hafi ekki forsendur til að ákvarða að svo stöddu. Ljóst er hins vegar að samþjöppun kvótans á fárra hendur í Færeyjum er vandamál þar í landi.
Á Íslandi er í gildi kvótaþak sem felur það í sér að einstaka útgerðir mega ekki ráða meiru en tólf prósentum heildarkvótans í landinu. HB Grandi hefur farið yfir það hámark í gegnum tíðina en ræður nú 10,33 prósentum kvótans og er Samherji Ísland ehf. næst með 6,03 prósent. Þar með er ekki öll sagan sögð þar sem Samherji á stóra hluti í útgerðum eins og Síldarvinnslunni, auk minni útgerða, sem gerir það að verkum að óbeint eignarhald fyrirtækisins á kvóta við Íslandsstrendur verður miklu meira. Samþjöppun aflaheimilda á Íslandi hefur leitt til þess að rúmlega 50 prósent kvótans eru nú á hendi 10 stærstu útgerðarfyrirtækjanna en var rúmlega 22 prósent árið 1990.
Eitt af því sem helst hefur verið gagnrýnt við upptöku uppboðsleiðarinnar á Íslandi er að sjávarútvegsfyrirtæki munu ekki geta gert langtímasamninga um sölu á fiski. Í viðtali við Stundina í byrjun árs sagði Þorsteinn Már Baldvinsson hjá Samherja til dæmis að sambærilegt markaðsstarf og nú er stundað yrði erfiðara í uppboðskerfinu. „Það verður aldrei stundað markaðsstarf eins og gert er í dag. Eitt er að veiða fisk, annað að framleiða fisk og þriðja er að selja fisk.“ Tillögur Færeyinganna fela það hins vegar í sér að helmingur kvótans verði leigður út til 10 ára í senn, 40 prósent til 5 ára og einungis tíu prósent til eins árs. Ef Ísland fetar uppboðsleiðina á svipuðum forsendum og Færeyingar hyggjast gera þá gætu fyrirtæki eins og Samherji gert markaðsáætlanir og samninga sem ná yfir 5 til 10 ár í senn út frá því hvort þeir fá afnotarétt af kvótanum.
Í tillögum færeysku nefndarinnar er einnig fjallað um möguleika sjávarútvegsfyrirtækja sem fá aflaheimildir leigðar hjá ríkinu til að veðsetja kvótann hjá fjármálafyrirtækjum. Ein af ástæðunum fyrir því að Færeyingar ætla að fara uppboðsleiðina er að sjávarútvegsfyrirtæki voru yfirveðsett út af viðskiptum með aflaheimildir. Í nýja uppboðskerfinu eiga fyrirtæki hins vegar að geta veðsett aflaheimildir en einungis innan þess tímaramma sem þau hafa kvótann til leigu og þurfa því að hafa gert lánin upp á leigutímanum. Þetta þarf að vera hægt, segir færeyska nefndin, til að ýta undir nýliðun í sjávarútvegi.