Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Íslenskir ofsamenn og einmana nóbelsskáld

$
0
0

„Ég var voða hrifinn af Íslandi, ferðaðist mikið og vann, í frystihúsi og á mörgum sveitabæjum. Mér fannst mjög gaman að kynnast fólkinu. Þetta var bara draumalandið, þegar ég fór heim fór ég alltaf að gráta. Heim til Prag, sem ég elska líka,“ segir Helena Kadečková um meira en hálfrar aldar gömul Íslandsævintýri.

Haustið er á næstu grösum en það er enn steikjandi sumarhiti þegar ég geng upp að fjölbýlishúsi í einkar rólegum hluta Prag, finn „Kadečková“ á dyrabjöllunni og hringi. Helena tekur á móti mér og segir mér, á leiðinni upp í lyftunni, að hún hafi búið þarna frá því 1965. „Ég hef bara aldrei haft tíma til að flytja.“

Það er tvöfalt tímaferðalag til fortíðarinnar að koma í heimsókn til Helenu, ekki bara að koma í íbúð sem hefur hýst sama íbúann í meira en 50 ár (sem verður sífellt sjaldgæfara í þessari miklu ferðamannaborg), heldur geng ég líka inn í gamla Ísland; þar sem manni er boðið sæti og kaffi og rukkaður um ítarlega kynningu, áður en lengra er haldið, allt á gullaldaríslensku. „Hverra manna ertu?“ fylgir vitaskuld. En nútíminn tekur samt á móti manni líka, fyrsta bókin sem ég rek augun í er „Planina“ eftir Steinar Braga. Hálendið. Það var nemandi Helenu sem þýddi hana, Lucie Korecká, en hún hefur alið upp heila kynslóð af íslenskuþýðendum.

Við eigum merkilega margt sameiginlegt – bjuggum bæði á sömu hæð á stúdentagarðinum Gamla garði við Hringbraut, skrifuðum bæði lokaritgerð um Vefarann mikla frá Kasmír (hennar var doktorsritgerð og var líka um Bréf til Láru og Hel eftir Sigurð Nordal) og mögulega var hún í sveit á sama bæ og pabbi, það er enn óstaðfest. En sérstaklega þó að vera endalaust forvitin um heimaland hvors annars, þótt hún hafi verið ólíkt duglegri í tungumálanáminu.

Aðventa Gunnars Gunnarssonar liggur á borðinu undir kaffibolla og það er viðeigandi, því þetta byrjaði allt með Aðventu og núna erum við aftur komin þangað. Þetta var bókin sem kom Helenu á sporið, síðan las hún allt sem hún gat eftir Laxness og Þórberg og um leið og námsstyrkur til Íslands bauðst tékkneskum námsmönnum haustið 1957 varð hún fyrir valinu. „Þetta var fyrsti háskólastyrkurinn til Vestur-Evrópu, því Ísland þótti meinlaust, engin ídeólógísk hætta,“ segir hún mér. Hún átti eftir að eyða drjúgum hluta næstu átta ára á Íslandi, stundum veturlangt, stundum yfir sumar – og einum jólunum eyddi hún á litlum sveitabæ. „Það voru systkini sem bjuggu þar og ég upplifði þar fyrstu jólin, það var eins og í Aðventu. Snjókoma og stormur. Voðalega spennandi.“
Svo fór hún aftur heim og fór að þýða, beint af íslensku, ólíkt flestum þeim bókum Laxness og Gunnars sem höfðu komið út á tékknesku áður en hún hélt til Íslands. Og eftir að hafa þýtt í hálfa öld hefur hún svo loks verið beðin um að þýða Aðventu á nýjan leik.

Þorláksdropar og grásleppa

„Ég kynntist mörgu fólki í Reykjavík – bæði leikhúsfólki og rithöfundum, ég þekkti flesta lifandi höfunda þá, sem var ekki erfitt,“ segir hún og ég kinka kolli, það hefur greinilega fátt breyst. „Aðalvinur minn var Þórbergur Þórðarson sem bjó skammt frá Gamla garði á Hringbraut. Hann gaf mér Þorláksdropa, heimabruggaða vínið hans. Svo komu oft svo margir aðrir gestir, mjög merkilegt fólk sem ég kynntist eiginlega hjá honum. Svo fór Þórbergur að kenna mér og ég kom til hans reglulega, einu sinni þegar Margrét, konan hans, var á sjúkrahúsi. Þá fór ég að elda fyrir hann, hann Þórberg langaði í grásleppu og ég fór að kaupa grásleppu fyrir hann. Svo fór ég, með hans hjálp, á Hala í Suðursveit, fólkið á Hala var alveg sérstakt,“ segir hún með dreymandi röddu.

En lá þá ekki beinast við að þýða Þórberg þegar hún kom til baka til Tékklands? Já og nei, hún reyndi; „en hann er svo rammíslenskur að það er næstum því ekki hægt að þýða hann, ég byrjaði á að þýða smásögur eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. En svo þýddi ég Steinarnir tala.“

Sú bók gerði mikla lukku, þótt aldrei hafi þau vitað hvað upplagið var mikið – þeim upplýsingum hélt ríkisrekna bókaforlagið fyrir sjálft sig. „En svo var kona sem las bókina, Zuzana Kočová, leikkona og rithöfundur, og var svo hrifin að hún ætlaði líka að fara til Íslands og tala við steinana, sem hún og gerði, áttatíu og eitthvað, löngu seinna. Hún skrifaði svo bók um sjálfa sig á Íslandi, sem var bland af fantasíu og raunveruleika, Chvála putování – sem þýðir Lofgjörð um flakk.“

Þessi Íslandsáhugi gekk í ættir. „Sonur hennar, Jan Burian, sem var orðinn frægur poppsöngvari, rithöfundur og þulur í sjónvarpi, hann erfði áhugann á Íslandi frá mömmu sinni og eftir byltinguna 1989 stofnaði hann félag tékkneskra Íslandsvina, sem kallaðist „Íslenskir ofsamenn.“ Þeir gerðu Steinarnir tala að sinni biblíu og gáfu bókina út aftur,“ segir Helena og biðst afsökunar á tímaflakkinu: „Nú kem ég aftur til baka, má ég hoppa svona á milli?“

Mánasteinn  Nýjasta þýðing Helenu var þessi verðlaunabók Sjóns. Lofgjörð steinanna  Steinarnir tala eftir Þórberg voru kveikjan af þessari lofgjörð, Lofgjörð um flakk. Planina  Hálendið er fyrsta bókin sem mætir blaðamanni – þýdd af fyrrum nemanda Helenu.

Hanastél og Kundera í felum

Helena hefur þýtt fjölda íslenskra höfunda í gegnum árin. En hvað var erfiðast? „Auðvitað er Laxness erfiðastur. Það er svo margt á milli línanna og málið er svo skrítið. Það er svo skemmtilegt með íslensku að það er svo mikill munur á málskilningi Tékka og Íslendinga. Hvernig Íslendingar búa til ný orð … en ég tel Laxness vera besta Norðurlandahöfundinn á 20. öld. Ég man þegar ég var að þýða eitthvað eftir Laxness, það er svo margt skemmtilegt hjá honum sem er ekki hægt að skilja þegar maður er bara að lesa, en þegar þú þýðir þá færðu svo miklu meira. Til dæmis var setning þar sem orðið hanastél var í skrítnu samhengi og ég bara …“ segir hún og fórnar höndum. „Þrátt fyrir að ég viti hvað cocktail er á ensku, aldrei datt mér þetta í hug, svona getur málskilningurinn verið ólíkur.“

Hún þekkti Halldór Laxness líka ágætlega. „Mér fannst alltaf pínulítið leiðinlegt hvernig Íslendingar töluðu um hann. Einu sinni fór ég heim með skipi, með Gullfossi, hann var samferða, sem ég vissi ekki. Hann fór að leita að mér á skipinu og fann mig og kom með bók handa mér sem mér fannst voðalega elskulegt. Við sátum þarna, svo kom fólk, Íslendingar, spásséraði í kring og allir heilsuðu Halldóri, en mér fannst hann vera samt svo einmana. Hann var eiginlega þakklátur að við værum tvö saman – þetta var svo sterk tilfinning, hann virtist vera dálítið einmana á Íslandi.“

Sú þýðing Helenu sem fór víðast, þótt óbeint væri, var þó líklega þýðing hennar á Svaninum. „Guðbergur var góður vinur minn, en það var næstum ómögulegt að þýða hann. Ég þýddi nokkrar smásögur eftir hann í tímaritum, en svo reyndi ég einu sinni að þýða Tómas Jónsson – Metsölubók, það var alveg ómögulegt. En svo loksins þegar Svanurinn kom, þá þýddi ég hana – og hún kom á tékknesku fyrst, það voru engin önnur erlend mál sem hún kom á áður – og það var á þeim tíma sem Kundera kom oft til Íslands. Hann vildi ekki tala við blaðamenn og kom því til Íslands til að fela sig. Þýðandi Kundera á Íslandi gaf honum Svaninn á tékknesku og hann lét alltaf konuna sína lesa það sem hann nennti ekki að lesa sjálfur. En konan var mjög hrifin, þannig að svo las Kundera Svaninn sjálfur og hann varð líka hrifinn og útvegaði þýðingu á frönsku, hjá Galimard, svo Svanurinn kom út á frönsku – og svo fleiri og fleiri málum. Þetta getur gerst svona, bara einn lesandi …“

Vorið og Brekkukotsannáll

Eftir Íslandsárin fór Helena að vinna sem kennari í norrænudeild Karlsháskóla, elsta háskóla Mið-Evrópu. Þetta var í aðdraganda vorsins í Prag, það var aukið frjálsræði í skólanum, „áður var voðalega stíft og bara fengin fyrirskipun frá ráðuneytinu um hvað var leyft að kenna,“ segir hún. „En ég var svo upptekin að ég gat ekki þýtt mikið, bara í sumarleyfum og um helgar.“ Bæði þýðingarnar og kennslan voru gefandi til að byrja með – en svo rúlluðu skriðdrekarnir inn í Prag og allt breyttist.

Þýðingarnar hjálpuðu henni að lifa af, segir hún. „Ég mátti ekki ferðast, ég mátti ekki neitt, bara kenna og svo þýða.“ En þá kom Laxness til bjargar á ný eins og hún greindi frá í grein í Ritmennt árið 2002:

„Hinir nýju stjórnarherrar hertu tökin á öllum sviðum mannlífsins, og ástandið í háskólanum þar sem ég kenndi Norðurlandabókmenntir varð óbærilegt. Nýir yfirmenn, strangt eftirlit. Aldrei hafa vonbrigði þjóðarinnar orðið sárari og siðleysið meira í þjóðfélaginu. Nú var ekki til umræðu að fara til Íslands né neitt annað.

Um þetta leyti hóf ég að þýða Brekkukotsannál. Efni bókarinnar var eins og smyrsl á opin sárin, og þýðingarstarfið stóð eins og bjarg upp úr gráum veruleikanum. Sambúð mín við þessa skáldsögu var hjákátleg samkvæmt þeim kenningum sem þá voru í tísku hjá bókmenntafræðingum í hinum svokallaða frjálsa heimi. Þeir héldu því fram að ekkert nema textinn sjálfur hefði gildi við faglegan lestur bókmenntaverka, en hérumbil allt sem ég las í skáldsögunni vakti hins vegar með mér hugmyndir, ótengdar bókmenntunum, og þær voru fullkomlega persónulegar.“

Eftir flauelsbyltinguna 1989 fóru hlutirnir þó að glæðast. „Þá var gaman, þá gat ég ferðast og ég fór til Íslands á hverju ári og fékk styrki og var í lengri tíma þar og gat lesið. En samt, á verri árunum hafði ég allan tímann samband við Ísland, allir Íslendingar voru svo voðalega góðir við mig og sendu mér bækur og af og til kom einhver í heimsókn og kom með bækur.“

Í viðtali sem Vilborg Harðardóttir tók við Helenu fyrir Morgunblaðið árið 1990 rifjar hún upp byltinguna með þessum orðum:

„Okkur fannst allt orðið svo vonlaust. Kynslóðin sem upplifði ’68 var yfir sig þreytt og búin að gefast upp. Ekki bara elsta kynslóðin, þeir sem þá voru fertugir eða fimmtugir, heldur líka fólk, sem þá var um tvítugt og er fertugt núna. Okkur fannst óhugsandi að krefjast neins af yngstu kynslóðinni, sem ekki hafði upplifað ’68 og ekki þessi tuttugu hörðu ár á eftir.
[…]
En við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur og það verður gaman að vinna með þessu unga fólki, sem hefur komið öllum á óvart. Áður vissu þau ekkert um pólitík, vildu ekkert um hana vita og voru óvirk í öllu. Síðan rísa þau upp og geta allt og gera það. Ég veit ekki hvaðan þeim kom krafturinn og kunnáttan. Þau voru svo dugleg og tilbúin að ræða hlutina, skipuleggja og framkvæma, og drífa okkur hin með. Þetta er það ótrúlegasta og stærsta sem gerðist, því þetta er fólkið sem tekur við og á framtíðina.“

En hvernig finnst Helenu þróunin hafa orðið síðan? „Allir verða fyrir vonbrigðum. Nú sér maður gallana á því sem stjórnin gerði. Auðvitað er frelsi, en maður veit ekki hvað á að gera með frelsi, engin skilur það, hvað frelsi er. Það er tilfinningin sem margir hafa, ekki bara í Tékklandi, alls staðar í heiminum.“

Börn og sendinefndir

Árið 1964 kom tékknesk sendinefnd til Íslands og Helena var með í för sem túlkur. Það voru ótal fréttir skrifaðar um þetta en þegar ég spyr Helenu út í þetta segist hún muna lítið eftir þessu. „Þarna komu saman íslenskir pólitíkusar, sem ég þekkti bara úr dagblöðum, ég fékk Þjóðviljann öll árin, sem var eiginlega and-kommúnískt blað í mínum augum, hér í Tékklandi. Þeir skömmuðu hver annan í blöðunum en komu svo saman og voru svona vinsamlegir við hvor annan.“

Hún man hins vegar miklu betur eftir börnunum. „Af því ég gat ekki ferðast var ég næstum því á hverju sumri túlkur hjá hópum íslenskra skólabarna sem komu hingað í alþjóðlegar æskubúðir. Það var mjög gaman. Það komu hingað íslenskir krakkar sem voru svo allt öðruvísi en tékkneskir. Svo komu fararstjórar, að mestu leyti konur. Við urðum alltaf miklar vinkonur, Vilborg Dagbjartsdóttir, Solla Jónsdóttir, merkilegar konur … en það var agi þarna, sem íslenskir krakkar þoldu ekki, svo voru fánar reistir og haldnar ræður, ríkisstjórnin stóð fyrir þessu. En í staðinn fyrir að þýða ræðurnar sagði ég bara skrítlur í staðinn.“

Vilborg Dagbjartsdóttir og Helena voru miklar vinkonur – og Vilborg hitti Þorgeir Þorgeirson, verðandi eiginmann, upphaflega með Helenu á einu frægasta kaffihúsi Prag.
Vilborg Dagbjartsdóttir og Helena voru miklar vinkonur – og Vilborg hitti Þorgeir Þorgeirson, verðandi eiginmann, upphaflega með Helenu á einu frægasta kaffihúsi Prag.

Vilborg Dagbjartsdóttir ljóðskáld bjó um skeið í Prag og þær urðu góðar vinkonur. Í borginni bjó þá líka verðandi eiginmaður Vilborgar, Þorgeir Þorgeirson, skáld og kvikmyndagerðarmaður, sem er einn af fáum sem hefur gefið sig að því að þýða úr tékknesku á íslensku. „Þau urðu ástfangin í Prag, í mínum skugga,“ segir Helena kímin. „Við Vilborg, tvær kellingarnar, vorum á National Cafe, Národní kavárna, spjöllum saman á íslensku þar, kemur þá maður á móti okkur, sem var Þorgeir, hann var við nám þá í kvikmyndafræði. Svo mæltu þau sér mót um kvöldið og þar byrjaði þetta.“

Ásgeir H. Ingólfsson
ritstjorn@frettatiminn.is


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652