Þriggja ára risastóru samnorrænu tilraunaverkefni um kennslufræði Bjarkar Guðmundsdóttur, tónlistarmanns, náttúuunnanda og frumkvöðuls, Biophilia, er lokið. Alls tóku 77 skólar á öllum Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðum þeirra, Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum, þátt og var afrakstur vinnu þátttakenda gerður upp á stórum fundi hér í Reykjavík fyrr í vikunni. Biophilia menntaverkefnið snýst um að kenna börnum um tónlist, náttúrufræði og vísindi á framúrstefnulegan hátt með aðstoð tækni og að veita þeim innblástur við að vera skapandi í námi sínu í gegnum hina ólíku miðla. Þá var markmiðið að stuðla að þverfaglegri samvinnu kennara og brjóta upp hefðbundnar kennsluaðferðir og var því lagt upp með í verkefninu að tónlistarkennari og raungreinakennari kenndu Biophiliu í sameiningu sem eitt teymi. Einnig var verkefnið, sem var á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins og norrænu ráðherranefndarinnar, tilraun til þess að koma á norrænu samstarfi á sviði menntamála.
Árangur fram úr vonum
Allir þeir þátttakendur sem Fréttatíminn ræddi við voru sammála um að árangur verkefnisins hafi farið fram úr björtustu vonum, bæði hvað varðar áhuga nemenda og kennara sem og afrakstur vinnunnar, jafnt tónlistarlega sem raunvísindalega séð. Auk þess hafi það nánast þvingað kennara til að hugsa út fyrir rammann og endurskilgreina hvað kennsla felur í sér, hvernig kennslufyrirkomulagi geti verið háttað og hvernig hægt sé að tvinna saman ólíkar námsgreinar á áhugaverðan og árangursríkan hátt.

Biophilia Bjarkar kom út árið 2011 og er margslungið margmiðlunarverk. Það samanstendur meðal annars af hefðbundinni breiðskífu, öppum með gagnvirku kennsluefni tengdum lögunum, sérsmíðuðum hljóðfærum og sérstökum vef (biophiliaeducational.org). Menntaverkefnið vann Björk í samstarfi við Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg. Umfjöllunarefni laganna er náttúran og vísindi, allt frá vírusum yfir í himingeiminn, en tónsmíðarnar sjálfar hafa það að markmiði að kenna börnum um tónlist, tónsmíðar, tónfræði og hljóð. Björk hefur sjálf útskýrt hugsunina á bak við sköpunina þannig að hún sjái oft samhljóm í náttúrunni og tónlistinni enda byggjast lögin oft á tengslum milli tónlistarlegra og náttúrulegra hugmynda.
Auður Rán Þorgeirsdóttir og Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir eru verkefnisstjórar Biophilia verkefnisins. „Niðurstöðurnar sýndu heilt yfir að kennsluverkefnið hefur jákvæð áhrif á kennsluaðferðirnar,“ segir Auður. „Stór hluti af verkefninu er að vinna þvert á námsgreinar og með kennurum í ólíkum fögum og það tókst vel,“ segir hún. „Kennarar voru að vinna saman þvert á námsgreinar sem hópur í fyrsta sinn og það var stórkostlegt að sjá hverju samvinnan skilaði,“ segir Arnfríður. Nýjungin hafi meðal annars falist í því að nú taki 3-4 kennarar þátt í kennslustundinni og njóta stuðnings hver af öðrum. Arnfríður bendir jafnframt á að áhugavert hafi verið að fylgjast með því hversu ólíkt kennarar nálguðust viðfangsefnið. „Sumir vildu mjög skýran ramma en aðrir þorðu að hugsa út fyrir boxið og þorðu að taka eitthvað sem var frekar óljóst í upphafi og gera að sínu, að taka þátt í sköpuninni,“ segir hún.

Kominn tími til að endurskoða kennsluhætti
Arnfríður segir að kominn sé tími á að endurhugsa miðlun og kennsluhætti ef ætlunin sé að fylgja þróuninni í samfélaginu. „Heimurinn er að breytast svo mikið og tæknin er komin til að vera. Við þurfum að gefa börnum tæki og tól svo þau geti aðlagast breyttu samfélagi. Það þýðir ekki að nota sömu aðferðir og fyrir 100 árum heldur þurfum við að aðlaga skólakerfið að nútímanum,“ segir hún. Auður bendir á að í aðalnámskrá sé meðal annars lögð áhersla á framsækni og nýsköpun og að mörg áhugaverð verkefni séu í gangi í mörgum skólum. „Biophilia er tæki sem kennarar geta notað til þess að kenna á skapandi hátt,“ segir hún.

Flestir þeirra sem rætt var við sögðust hafa verið eitt stórt spurningamerki eftir að hafa fengið kynningu á verkefninu fyrir tveimur árum. „Kynningin veitti mér innblástur en skildi samt fyrst og fremst eftir fullt af spurningum,“ segir Johannes Iihle, kennari í Strand Kommune í Noregi. „Hvernig bjóðum við öðrum kennurum inn í þessa hugsun? Hvað er leyfilegt? Hvað er ekki leyfilegt? Okkur var sagt í upphafi að í verkefninu væri mikið pláss fyrir alls kyns hugmyndir. Verkefnið sjálft væri bara upphafsreitur. Meginverkefnið var að gefa nemendum pláss – og leyfa þeim að læra á þann hátt sem þeim hentar sjálfum best. Biophilia hjálpar okkur að nálgast nemendur á mismunandi hátt vegna þess að þegar okkur er gefið pláss til að prófa okkur áfram, að takast á við nýja hugsun, verðum við fyrir innblæstri og finnum að það er mögulegt að gera hvað sem er fyrir utan rammann,“ segir Johannes. „Aðalatriðið er að Biofilia er ekki kennsluaðferð heldur leið til þess að hugsa á skapandi hátt þar sem tónlist og þekking koma saman,“ segir hann. „Biophilia opnar fyrir þessa sköpunargáfu, opnar nýjar víddir og nýjar leiðir,“ segir hann.
Að sögn Auðar hafði verkefnið jákvæð áhrif á sjálfsmynd margra nemenda. „Kennarar fundu fyrir því að sjálfsmynd nemenda styrktist því sjálfstraust þeirra jókst við að gera hluti sem þeir héldu að þeir gætu ekki gert, til dæmis að semja tónlist. Einnig var mikilvægt að allir nemendur byrja sem jafningjar, eru á sama grunni að taka þátt í verkefninu,“ bætir Auður við.
Krefjandi að hugsa út fyrir rammann

Fossvogsskóli í Reykjavík er einn tilraunaskólanna sem tók þátt. Ragna Skinner tónlistarkennari segir að einna áhugaverðast við verkefnið hafi verið að kennarar og nemendur þurftu að fara að hugsa út fyrir rammann. „Það var áhugavert hve misvel kennarar og nemendur tóku í það að breyta til en það þarf mikla uppstokkun á hefðbundnu skólastarfi til þess að svona verkefni gangi upp,“ segir Ragna. Hún segir að nemendurnir hafi margir hverjir fyrst í stað ekki verið tilbúnir til þess að brjóta upp kennslustofufyrirkomulagið. Fossvogsskóli hafi ákveðið að fjarlægja borð og stóla úr skólastofunni sem nýtt var í verkefninu og þess í stað settar inn jógadýnur og púðar þar sem setið var við kertaljós.
Ragna segir að börnunum hafi þótt þetta allt saman frekar skrýtið en eftir því sem á leið hafi þau verið komin inn í hugarheim Bjarkar og fóru að tengja betur við tónlistina og skilja samhengið allt miklu betur. „Helsti lærdómurinn var að við kennararnir þurftum að fara út fyrir rammann og hugsuðum verkefnið út frá nemendunum strax frá upphafi. Það er svo auðveldlega hægt að sækja sér þekkingu, við erum ekki að miðla þekkingu heldur eru kennarar og nemendur saman í ferðalagi. Í þessu verkefni var það sem kom frá nemendunum og það sem kom frá kennurunum alveg jafnmikilvægt. Við vorum saman að læra,“ segir hún.
Margar námsgreinar voru þættaðar saman í Biophiliu verkefninu í Fossvogsskóla. „Nemendur voru ánægðir að fá aftur tónlistarkennslu sem þeir höfðu ekki fengið í 2-3 ár, þau gerðu sínar eigin plánetur og við lærðum um jarðfræðina og líffræðina á þeirri plánetu og einnig sköpuðust miklar pælingar um hljóð. Við tókum upp alls konar hljóð og lékum okkur með þau og fórum út í hljóðeðlisfræði í tengslum við þau,“ segir Ragna. Hún segir að það hafi verið áhugavert að fylgjast með því hvernig börnin breyttust eftir því sem leið á verkefnið. „Þau spurðu mikið í byrjun um hvað þau ættu nákvæmlega að gera og hvernig. Við gáfum þeim algjörlega frjálsar hendur og urðu svo sífellt meira skapandi, hættu að spyrja og fóru að gera. Mörg gerðu stuttmynd, aðrir skúlptúra, enn aðrir hljóðverk,“ segir Ragna. „Með því að vinna viðfangsefnin á svona skapandi hátt urðu til heilmiklar pælingar,“ segir hún.
Biophilia í anda nýrrar, finnskrar skólanámskrár

Satu Roberg er verkefnisstjóri Biophilia menntaverkefnisins í Finnlandi. Þar í landi tóku alls 9 skólar á mismunandi skólastigum þátt og var hún mjög ánægð með útkomuna. „Börnin voru ánægð og full innblásturs yfir því hvað þau gátu skapað sjálf og yfir vísindunum því list er skapandi en vísindi geta verið það líka,“ segir hún. „Þeim líkaði einnig vel að nýta sér tæknina því börnin lifa í þeim heimi núna og það var mjög áhugavert að sjá hvernig tækninni var blandað saman inn í kennsluna,“ segir hún. Verkefnið fór fram að hausti og að vori fóru fram mælingar á því hversu mikið af þekkingunni enn var til staðar hjá börnunum. „Það var ótrúlegt að sjá að þau mundu nánast allt af því sem við höfðum unnið með í Biophiliu haustið áður,“ segir Satu.
Finnar hafa nýverið endurskoðað aðalnámskrá sína og var endurskoðunin í vinnslu þegar Biophiliu verkefnið hófst. „Í Biophiliu er lögð áhersla á fjöllæsi (e. multiliteracy), kennslu þvert á námsgreinar (e. multidiciplinary) og að kennarar vinni í teymum og pörum. Einnig er áhersla á að kenna börnum þvert á árganga. Allt þetta var einmitt tekið upp í nýju námskránni sem við erum að vinna eftir núna og er því Biophilia algjörlega í anda hennar,“ segir Satu. Hún segir að þó svo að tilraunaverkefninu sé formlega lokið muni verkefnið halda áfram í Finnlandi og fleiri skólar munu taka þátt í haust.
Satu segir að eitt af því áhugaverðasta sem kom út úr verkefninu hafi verið norræna samstarfið. „Við höfum aldrei gert neitt af þessari stærðargráðu í Finnlandi og það var magnað að upplifa þessa samkennd og samvinnu. Ef við höldum áfram þessu verkefni getum við breytt ýmsu í skólakerfinu og komið inn nýjum áherslum. Við erum á þessari vegferð í Finnlandi þar sem ríkir mikil ánægja með nýja skólanámskrá. Biophilia var eins konar punkturinn yfir i-ið, fullkomið verkfæri til að innleiða þessa nýju námskrá,“ segir Satu.
Aðspurð segir hún helstu breytingar í aðalnámskránni felast í því að áherslan sé nú fyrst og fremst á það hvernig hjálpa megi börnum að fullorðnast og þroskast og verða gildur þegn samfélagsins. „Við vitum ekki hvernig samfélagið verður eftir 30 ár. Við þurfum að kenna börnum að læra og nýta sér upplýsingar. Þau verða að geta hugsað á nýjan hátt, vera skapandi og geta fundið nýjar lausnir. Upplýsingarnar eru til staðar en börn þurfa að vita hvernig þau eigi að nota þær og nýta þær og skapa út frá þeim. Þau þurfa þá hæfileika til að geta spjarað sig í framtíðinni. Biophilia gerir allt þetta.“

Aðferðir við kennslu Biophiliu
Hér kemur listi yfir aðferðir við kennslu Biophiliu. Athugið að ekki eru alltaf allar þessar aðferðir notaðar saman, sumar henta kannski ekki og mikilvægt er að það er engin regla sem segir til um í hvaða röð á að nota þær; það fer eftir eðli viðkomandi lagaapps.
Samkennsla: Best er að allir kennararnir vinni saman að þeim verkefnum sem leysa þarf.
Kynning á tónlistarlegum, náttúrufræðilegum og mannlegum þemum. Þetta mætti gera með stuttum fyrirlestri sem kennarahópurinn flytur saman, með myndbandi um efnið, þankahríð, rituðu efni eða á annan hátt. Ef ætlunin er að nemendur uppgötvi sjálfir hugmyndirnar gæti þessi liður komið síðar í ferlinu eða orðið ónauðsynlegur. Hugmyndirnar í TH-/N-/M-/T-/BT-textunum geta gagnast hér og einnig mörg myndböndin sem fylgja. Þetta er mjög hentugur staður til að opna augu nemenda fyrir tengslum tónlistarlegra og vísindalegra hugmynda.
Einbeitt hlustun á lögin eða áhorf á myndbönd. Sitjið kyrr, beinið athyglinni að önduninni og reynslunni sem í vændum er – annaðhvort beint án nokkurs undirbúnings eða hugsanlega með upphafsspurninguna um lagaappið í huga. Þegar fengist er við aðgengileg lög gæti verið gott að byrja á þessu en hvað þau flóknari snertir kann að vera rétt að geyma þennan þátt þar til síðar.
Krakki í eigin rými. Talsverðum tíma ætti að verja til þess að leyfa börnunum að gera sjálf tilraunir með lagaöppin með heyrnartól á höfði, svo að sköpunargáfa einstaklingsins fái að njóta sín.
Afurðir. Tryggið að hópurinn deili afurðum eða árangri af vinnunni. Byggja ætti upp vettvang til að deila á netinu listaverkum, ritverkum eða lögum sem verða til í starfinu.
Umræðuhópar. Til að gera upp vinnuna og það sem hún hefur skilað getur verið dýrmætt að gefa sér tíma til að ræða, deila hvert með öðru, hlusta og melta það sem gert hefur verið. Besta leiðin er að sitja einfaldlega í hring og gefa sér tíma til að hlusta á hvern og einn, heyra upplifun hans, sjónarmið og hugsanir. Stundum geta komið fram spurningar sem krefjast svara eða lausnar, stundum verða þetta frjálsari skoðanaskipti.
Leiðbeiningar
„Velkomin í Biophiliu, sem er ást á náttúrunni í öllum sínum myndum, frá smæstu lífverum til stærstu risastjarna sem svífa um fjarlægustu víddir alheimsins. Biophiliu fylgir óslökkvandi forvitni, áköf löngun til að rannsaka og uppgötva þá tálfögru staði þar sem við komumst í tæri við náttúruna; þar sem hún leikur á skynjun okkar með litum og formum; ilmefnum og lykt.“
Dæmi um lagaapp og kennsluleiðbeininar
- Hvaðan kemur þetta allt? Hvernig varð alheimurinn til?
- Textinn er í brennidepli hér. Uppsetning textans við Cosmogony er hefðbundin, þar skiptast á vers og viðlag og í hverri vísu er fjallað um eina goðsögn tengda sköpun heimsins.
- Kannið hvaðan goðsagnirnar í textanum koma. Bætið við vísum með öðrum goðsögnum sem þið þekkið eða uppgötvið.
- Kenningin um miklahvell. Ræðið og útskýrið hvernig alheimurinn þenst út og hvers vegna vísindamenn telja líklegast að þessi kenning sé rétt. Ræðið þann vanda að það er engin leið til þess að við getum sagt neitt um hvað var „fyrir miklahvell“.
- Sköpunarsaga skiptir iðulega miklu máli í trúarbrögðum og hugmyndakerfum. Í sumum kerfum er engin sköpunarsaga heldur einfaldlega gert ráð fyrir því að raunveruleikinn hafi alltaf verið til staðar og verði það um alla tíð. Skiptir þetta máli, til dæmis varðandi það hvernig við skynjum tímann?
- Söngtextar eru samdir eða verða einhvern veginn til. Ræðið hvernig textar verða til og hvernig þeir eru upp byggðir. Ræðið persónulega reynslu, vísindi og líka „fundna“ texta eins og til dæmis „Being for the benefit of Mr. Kite?“ hjá Bítlunum.
- Það eru tengsl við Dark matter þar sem fjallað er um að megnið af því sem varð til í miklahvelli er hulduefni. Formgerð Cosmogony er athyglisverð, viðlagið lyftir verkinu svo að hægt er að taka það sem dæmi þegar fjallað er um formgerðina í Crystalline.
- Kannið nánar flókin vísindi í tengslum við miklahvell, afstæði, skammtakenninguna, strengjafræðina og þess háttar.
- Vinnustofa í að semja söngtexta/ljóð/stutt leikrit með mismunandi aðferðum.
- Kennsluapp: https://www.youtube.com/watch?v=3dlRg6lM4mQ C