Ég horfi töluvert á sjónvarp en mjög sjaldan til þess eins að horfa á sjónvarp. Ég er yfirleitt með það í gangi þegar ég er heima hjá mér hvort sem ég er að þrífa, taka til eða lesa. Sjónvarpsseríur krefjast mismikillar athygli að sjálfsögðu og því er tilvalið að gera eitthvað sniðugt á meðan. Ég vinn á auglýsingastofu þar sem vinnutíminn getur oft verið lengri en 9-5 svo það gefst ekki alltaf mikill tími til að horfa á sjónvarpið. En þegar tími gefst finnst mér mjög gaman að hámhorfa á heilu seríurnar.
Ég er mest fyrir krimma og hrollvekjur – það á bæði við um sjónvarpsþætti og bíómyndir. Ásamt því er ég mikið fyrir góðar heimildarmyndir, Making a Murderer, Amanda Knox og Bottled Life til að nefna nokkrar.
Í uppáhaldi eru Sherlock Homes, Criminal Minds, Game of Thrones og House of Cards. Ásamt því er ég sjúk í góða grínþætti svo sem Brooklyn Nine-Nine, Modern Family og Family Guy. En svo get ég alveg misst mig í einhverju allt öðru, t.d. raunveruleikaþáttum á borð við Ink master, X factor, Masterchef og Survivor. Já, ennþá.
Að undanförnu hef ég verið að klára síðustu seríu af House of Cards og horft á nokkrar góðar heimildarmyndir, þá ber helst að nefna Amöndu Knox heimildarmyndina, sem er rosalega vel gerð og skilur mann eftir sem eitt spurningamerki. Heimildarmyndin um Marinu Abramovic og Ulay sem heitir The Lovers er líka dásamleg.
Ég á Narcos alveg eftir og svo var verið að benda mér á heimildamyndina „When Louis met Jimmy“ sem er seinni heimildarmyndin sem Louis Theroux gerir um Jimmy Savile. Hlakka mikið til að tékka á henni. Takk Aron.