„Þetta er auðvitað skáldað en aðalpersónan var leikmaður í sigurliði Íslands á B-keppninni í Frakklandi árið 1989,“ segir Halldór Halldórsson, Dóri DNA, um sjónvarpsþætti sem hann er að skrifa í félagi við Hafstein Gunnar Sigurðsson, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og Jörund Ragnarsson.
Þættirnir kallast Afturelding og sögusviðið er Mosfellsbær og handboltaheimurinn. „Þetta er dramasería með glettnu ívafi sem gerist í heimi kvennahandbolta. Hún fjallar um gamla þjóðhetju, Skarphéðinn, sem er að snúa heim eftir óblíð ár og óreglu. Gamlir félagar hans úr íþróttahreyfingunni gefa honum séns og hann fær að þjálfa kvennalið Aftureldingar, sem hann telur auðvitað langt fyrir neðan sína virðingu. Þar hittir hann fyrir Brynju sem er gömul landsliðskempa á lokametrum ferilsins og unga stúlku sem heitir Hekla. Þetta er samt mannlegt drama, ekki íþróttaþættir.“
Dóri og Hafsteinn Gunnar, sem mun leikstýra þáttunum, hafa lengi unnið að undirbúningi Aftureldingar. Á þessu ári var handritsgerðin tekin föstum tökum og þau Jóhanna og Jörundur bættust í hópinn. Nýlega fékkst grænt ljós á þáttaröðina frá RÚV og segir Dóri að næsta ár fari í fjármögnun en stefnt sé að tökum árið 2018. Alls verða þættirnir níu talsins. Zik Zak framleiðir.
Ekki hefur verið gengið frá því hverjir muni leika í Aftureldingu en Dóri viðurkennir að handritshöfundarnir hafi mann í huga fyrir aðalhlutverkið. „Við höfum rætt við mann, já.“

Dóri segir að mikil rannsóknarvinna liggi að baki handritsgerðinni. „Við höfum mikið verið að skoða gömlu íþróttahetjurnar og byrjum alla daga á því að horfa á viðtöl úr gömlum Hemma Gunn-þáttum. Svo höfum við rætt við handboltamenn og -konur og farið á kvennaleiki. Það varð að kafa djúpt í þetta enda er ætlunin að draga upp mynd af þessum heimi kvennaíþrótta sem stýrt er af eldri karlmönnum. Það er nú stóra metafóran í þessu, þetta fjallar mikið um samskipti kynjanna. Þetta kann að hljóma grand en við erum samt að upphefja íslenskan hversdagsleika í öllum íþróttahúsum landsins – þar sem tíminn virðist ekki líða. Svo fannst okkur smákóngahátturinn í íþróttahreyfingunni góð samlíking fyrir samfélagið.“
Af hverju handbolti?
„Handbolti er svo geggjuð íþrótt að því leyti að það eru ekki miklir peningar þarna. Það er bara nýlega að einstaka leikmenn fóru að komast í álnir en ástríðan í sportinu er alveg einstök. Handboltamenn og -konur eru algjör hörkutól. Þetta er þjóðaríþróttin en eftir að fótboltaliðunum fór að ganga vel sést vel hvað handboltinn á erfitt uppdráttar.“