Ungur og efnaður maður kemur á rússneskan herragarð. Það er vor og blómin spretta í sólinni en samt liggur leiðinn í loftinu. Unga fólkinu á staðnum leiðist í áhyggjuleysinu. Brátt kviknar samt ástin með bréfaskriftum og hjartasorg, ástar-þríhyrningum og misskilningi sem gerir drauma að engu.
Þetta er upphafið að óperunni Evgení Onegin eftir rússneska tónskáldið Pjotr Tchaikovsky sem Íslenska óperan frumsýnir um næstu helgi, 22. október. Tónlistin er hárómantísk en snúin í flutningi, bæði fyrir söngvara og hljómsveit. Himneskar laglínurnar koma í bunkum enda var náðargáfa tónskáldsins ótrúleg þegar kom að þeim. Tónlistin var Tchaikovsky nauðsynleg til að lifa af og hann setti hjarta sitt og tilfinningar í hvern tón.
„Umfjöllunarefni óperunnar er eilíft,“ segir leikstjórinn Anthony Pilavachi fullviss um erindi óperunnar á okkar tímum. Óperan er byggð á sögu Alexanders Pushkin sem hann skrifaði í bundnu máli á síðari hluta þriðja áratugar 19. aldar. Sagan var í raun undanfari stórvirkjanna sem verða rússneskar bókmenntir síðar á öldinni. „Þetta er það sama og á við um Shakespeare, erindið er alltaf til staðar. Ástin er eilíf og sagan er í grunninn einföld. Ung stúlka verður ástfangin af ókunnugum manni. Hún skrifar honum bréf en hann vill ekkert með hana hafa, ekki fyrr en löngu löngu seinna þegar allt er breytt og sérstaklega þau bæði.
Þarna er því meira en bara ástin til umfjöllunar heldur líka það hvernig við mannfólkið förumst á mis í lífinu, hvað það þýðir fyrir okkur að missa af og glata tækifærum í hamingjuleit okkar. Þetta snýst um ranga tímasetningu og það getum við öll tengt við, jafnvel í dag í heimi allra okkar skilaboða í gegnum tölvur og síma, þar sem tilhugalífið fer nú fram að stórum hluta. Það er þetta með rangar tímasetningar í lífinu, sem Tchaikovsky leggur áherslu á í sögunni, sem mun gera það að verkum að þessi ópera mun lifa. Hamingjuleitin er stórt þema verksins sem allir geta tengt við,“ segir Pilavachi.

Lífið líkir eftir listinni
Bréfið skiptir öllu máli, ástarbréfið sem Tatjana skrifar Onegin til að tjá honum ást sína eftir stutt kynni. Hann er draumaprinsinn hennar, glæsilegur og veraldarvanur og virðist vera beint úr skáldsögunum sem hún les í sveitinni.
Það var líka þetta bréf í sögu Pushkins sem að kveikti í tónskáldinu um að endursegja þessa sögu sem þá var fimmtíu ára gömul. Eftir að hafa lesið söguna byrjaði hann á „bréfa-senunni“ frægu og skrifaði síðan tónlistina í kringum hana, upphaf og lok óperunnar.
Einn daginn líkti lífið eftir listinni. Tónskáldið fékk sjálfur bréf, frá ungri stúlku, nemenda sínum í Tónlistarháskólanum í Moskvu. Unga stúlkan játaði honum ást sína og tónskáldið giftist henni að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Tchaikovsky var nefnilega samkynhneigður og samþykkti þetta málamyndahjónaband sem dæmt var til að valda þeim báðum óhamingju. Hjónabandið var skammvinnt, eintóm leiktjöld fyrir umheiminn sem engan veginn samþykkti kynhneigð tónskáldsins. Sársaukinn sem þessu fylgdi hafði án efa áhrif á tilfinningaríka tónlistina í óperunni um Onegin sem Tchaikovsky var að semja á þessum árum.
Heimsmynd líður undir lok
Þegar kemur að því að færa sígildar óperur á svið þá er allt leyfilegt í samtímanum. Þannig væri auðveldlega hægt að færa söguna um ástir og örlög rússnesku ungmennanna upp í Grafarvog eða út í geim ef áhugi væri fyrir því.
Anthony Pilavachi bregður á það ráð að hliðra sögunni í tíma og færir hana að tímanum rétt fyrir rússnesku byltinguna 1917. Þannig segir hann að þau hugsjónafræ sem leynist í texta Pushkins njóti sín betur, en hann var á sínum tíma andsnúinn keisaraveldinu og skaut á yfirstéttir Rússlands að þær væru skeytingarlausar gangvart aðstöðu alþýðunnar.
„Þetta er áhyggjulaus heimur sem er að líða undir lok og hverfa. Persónurnar eru að reyna að hverfa út úr eigin veruleika, gleyma sér í veisluhöldum og paradísin í sveitinni er tálsýn, þetta er deyjandi samfélag. Svo kom byltingin og á örfáum dögum breyttist allt. Það eru alltaf pólitík og samtímaviðburðir í baksviði í lífi okkar allra og við það að flytja söguna nær byltingunni þá lifnar hún við og verður dramatískari, nánast eins og bíó. Tilfærslan styrkir söguna og undirstrikar breytingarnar sem liggja í loftinu, órétturinn og stéttskiptingin ganga ekki lengur upp, þó að forréttindastéttirnar átti sig ekki á því. Eitthvað verður að breytast.“

Yngra fólkið íhaldsamara
Anthony Pilavachi hefur mikla reynslu úr óperuheiminum, hefur leikstýrt yfir 80 óperuuppfærslum víða um heim. Hann er fæddur á Kýpur, er flóttamaður sem flúði heimaland sitt í innrás Tyrkja árið 1974, þá tíu ára gamall. Fyrstu reynslu af leikhúsi upplifði hann þremur árum áður og var þá strax harðákveðinn að vinna við leikhús í framtíðinni. Eftir innrásina ólst Pilavachi upp í Frakklandi en hann rekur ættir sínar í ýmsar áttir, til Írlands (en hann er með írskt vegabréf) og annar afa hans var rússneskur, upplifði ólguna fyrir byltinguna þar í landi.
Pilavachi er búsettur í Þýskalandi þar sem óperuhefðin er sprelllifandi. Óperuhúsin eru fjöldamörg og á hverju ári getur áhugafólk farið á milli borganna til að sjá jafnvel mismunandi útgáfur af sömu verkunum. „Á þýska málsvæðinu skipta óperuhúsin tugum, sýningarnar þúsundum. Það getur verið erfitt að átta sig á þessu héðan frá Íslandi. Óperan er þannig stór þáttur í menningarlífinu í Þýskalandi og listformið er hvergi stærra. Óperan talar til breiðs hóps og hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum, ekki síst vegna aukinna krafa um betri leik söngvaranna og samspilsins við kvikmyndalistina, því að fleiri og fleiri kvikmyndaupptökur eru gerðar af óperuuppfærslum. Áhuginn er virkur, listin er lifandi og kannski virkar það furðulegt en oft eru það yngri áhorfendur sem eru íhaldsamari og vilja síður tilraunamennsku í nálgun okkar leikstjóranna,“ segir Pilavachi.
Leikstjórinn segir það alltaf mikilvægast að finna hverri sögu sinn hentuga farveg og vera sannur tónskáldinu og tónlistinni. Sem leikstjóri beiti hann alltaf nýrri nálgun á þær óperur sem hann kemur að á nýjan leik. „Það er nauðsynlegt að vera frumlegur í hugsun, en samt þannig að „effektar“ og stælar taki ekki yfir. Það er auðvelt að finna upp á slíku en þá missir maður áhuga áhorfendanna því að það getur aldrei hreyft við þeim eins og kjarninn í þeim miklu sögum sem óperur heimsins snúast um. Þetta er lifandi listform sem maður verður að vanda sig við eins og annað. Þetta er eins og gott spaghetti sem snýst allt um bragðgóðu sósuna. Hana þarf maður að búa til að kostgæfni,“ segir Pilavachi brosandi.
Undirbúningur fyrir veisluna er í fullum gangi, Evgení Onegin eftir Tchaikovsky verður frumsýnd í Hörpu 22. október.

Fjölþjóðlegur hópur listamanna
Í uppfærslu íslensku óperunnar á Evgení Onegin eru söngvararnir íslenskir, rússneskir og færeyskir. Titilhlutverkið er í höndum rússnesks baritónsöngvara, Andrey Zhilikhovsky en það er Þóra Einarsdóttir sem syngur hlutverk Tatjönu sem fellur fyrir Evgení. Lenskí, vinur Evgení og síðar óvinur, er sunginn af Elmari Gilbertssyni. Færeyingurinn Rúní Brattaberg bregður sér í hlutverk Germín fursta en í öðrum hlutverkum eru íslensku söngvararnir Nathalía Druzin Halldórsdóttir, Alina Dubik, Hanna Dóra Sturludóttir og Hlöðver Sigurðsson, auk þess sem kór íslensku óperunnar syngur og leikur í uppfærslunni.
Hljómsveitarstjóri er Benjamin Levy sem einnig stjórnaði tónlistinni í uppfærslu á Don Giovanni fyrr á árinu. Leikmynd er í höndum Eva Signý Berger, búninga hannar María Th. Ólafsdóttir og Björn Bergsteinn Guðmundsson hannar ljós.
