Frá og með fimmtudeginum 20. október mun Fréttatíminn koma út þrisvar í viku, á fimmtudegi, föstudegi og laugardegi. Þetta er í annað sinn á árinu sem Morgundagur, útgáfufélag Fréttatímans, fjölgar útgáfudögum en útgáfa laugardagsblaðs hófst 7. maí síðastliðinn.
Mikill meðbyr hefur verið með Fréttatímanum það sem af er ári. Efnistök blaðamanna hafa vakið mikla athygli og auglýsendur hafa brugðist mjög vel við auknu framboði á auglýsingaplássi. Auk þess hefur vefsvæðinu frettatiminn.is vaxið fiskur um hrygg á árinu. Virkni lesenda á vefnum hefur fimmfaldast frá áramótum og þúsundir Íslendinga deila efni Fréttatímans á samfélagsmiðlum.