Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Lífeyrissjóðirnir hættu við að kaupa lyfjaverksmiðju Róberts

$
0
0
Fjárfestirinn Róbert Wessmann ætlaði að selja 51 prósenta hlut í fasteigninni sem hýsir lyfjaverksmiðju Alvogen á háskólavæðinu í Vatnsmýrinni til lífeyrissjóða og tryggingarfélaga fyrir 857 milljónir króna í fyrra en sjóðirnir hættu við kaupin. Sagt var frá því í fjölmiðlum að viðskiptin hefðu átt sér stað.
Upplýsingarnar um ætlað kaupverð í viðskiptunum koma fram í ársreikningi sjóðsins sem ætlaði að kaupa húsið, SR II slhf. Stærstu hluthafar sjóðsins eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Stapi lífeyrissjóður og Frjálsi lífeyrissjóðurinn og er það sjóðsstýringarfyrirtæki Arion banka, Stefnir, sem stýrir honum.
Halldór Kristmannsson, upplýsingafulltrúi Alvogen, segir hins vegar að viðskipti Stefnis með húsið hafi komist í uppnám út af kaupum fasteignafélagsins Reita á honum í fyrra. „Þeir óskuðu eftir því að viðskiptin myndu ganga til baka. Engin viðskipti hafa átt sér stað og eignarhald hússins er óbreytt. Við leitum áfram að áhugasömum kaupendum,“ og nefnir Halldór fagfjárfesta eins og lífeyrissjóði sérstaklega í því samhengi. Sænskt félag, Alvogen Aztiq AB, á lyfjaverksmiðjuna því ennþá í gegnum íslenska fyrirtækið Fasteignafélagið Sæmund ehf.
Róbert, sem er forstjóri Alvogen, gerði samninga um úthlutun lóðarinnar undir lyfjaverksmiðjuna við Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands árið 2013 og um mitt ár 2015 var gerður annar samningur við Vísindagarða Háskóla Íslands um byggingu annarrar verksmiðju á svæðinu. Þegar samningur Reykjavíkur og Alvotech var gerður lá ekki fyrir að Róbert Wessmann myndi sjálfur eignast húsið. Þetta gerðist hins vegar í kjölfar þess að samningarnir voru gerðir og er Róbert eigandi hússins í gegnum umrætt sænskt félag. Í ársreikningi Fasteignafélagsins Sæmundar kemur fram að félagið hafi gert leigusamninga til 22 ára sem hægt er að meta til fjár.
Þannig hefur Róbert, í krafti stöðu sinnar hjá Alvogen, búið til viðskipti fyrir sig persónulega með samningum lyfjafyrirtækisins sem hann stýrir.
Þegar samningur Reykjavíkur og Alvogen var gerður lá ekki fyrir að Róbert Wessmann myndi sjálfur eignast húsið samkvæmt svari frá Degi B Eggertssyni, þáverandi formanni borgarráðs í Reykjavík og núverandi borgarstjóra, í Stundinni í fyrra: „Það lá fyrir að þetta yrði í eigu annars félags en það hafði ekki verið valið. […] Við vissum að það var ófrágengið og að verið væri að kanna hagkvæmustu leiðir.“ Alvogen fékk meðal annars lán frá Reykjavíkurborg upp á 200 milljónir fyrir gatnagerðargjöldunum vegna hússins og þurfti ekki að greiða afborganir af því í þrjú ár.
Frekar lítil umræða var um úthlutun lóðarinnar til Alvogen árið 2013 en Líf Magneudóttur, þáverandi varaborgarfulltrúi VG, sagði að úthlutunin hefði verið „ógagnsæ“ og að „setja mætti spurningamerki við þær flestar“. Benti Líf meðal annars á að Reykjavíkurborg hefði boðið Alvogen að „velja“ sér stað í borginni undir verksmiðjuna.

Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652