Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Þrældómur eykst í uppsveiflunni

$
0
0

Í þessari grein er fjallað um nauðungarvinnu sem útlendingar inna afhendi í veitingageiranum, ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Aðstæður fólksins og ástæður þess að atvinnurekendur komast upp með að fara illa með það. Fjallað er um aðgerðir gegn nauðgunavinnu og brotalamir sem gera það að verkum að lögin ná ekki yfir verknaðinn. Lögregla, héraðssaksóknari og framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins lýsa mynstrinu sem þrældómurinn þrífst í og hvaða breytingar þurfi að gera til að ná betur utanum málin.

Vinnumansalið lýsir sér svona

„Stærsti þátturinn í nauðunginni er blekkingin. Algengt er að einstaklingur sæki um vinnu eða sé ráðinn til starfa á vinnustað í gegnum starfsmannaleigu, undir þeim formerkjum að vinna venjulegan vinnudag fyrir umsamin laun. Einstaklingurinn býr kannski í landi þar sem launin eru miklu lægri en hér. Sem dæmi er launataxtinn í Póllandi mjög lágur og því geta kjörin hljómað vel. Þegar viðkomandi kemur til Íslands getur vinnudagurinn hinsvegar reynst vera 14 til 16 klukkutímar á dag og launin í engu samræmi við það sem um var samið. Þau geta jafnvel verið borguð í svörtu og starfsmaðurinn ekki skráður sem launþegi hjá fyrirtækinu. Við þetta getur bæst að yfirmenn eða eigendur fyrirtækisins hóti einstaklingnum með því að ef hann klagi eða fari til yfirvalda þá munu þeir gera honum, og eftir atvikum fjölskyldu hans, lífið leitt. Vinnuveitandinn gerir honum ljóst að hann sé í landi þar sem hann þekki ekki réttindi sín eða skyldur en vinnuveitandinn þykist sjálfur hafa mikil ítök í samfélaginu. Það undirstrikar að einstaklingurinn á ekki að leita sér aðstoðar.

Nærtækt dæmi úr raunveruleikanum er af manni sem leitaði til yfirvalda. Hann var með glóðarauga og sagðist hafa hlotið áverkann við það að detta í stiga og í sömu andrá týna vegabréfi sínu. Hann vildi því ekkert gefa upp um fyrir hvern hann væri að vinna. Hljómar þetta trúverðugt?

Algengt er að fólki sé refsað fyrir að sinna ekki vinnunni nógu vel og fái þá minni laun.
Fólk í nauðungarvinnu á oft óeðlilega mikið undir vinnuveitendum sínum, svo sem húsnæði, uppihald, flugmiða til og frá landinu og auðvitað laun fyrir vinnuna. Þannig verður fólk háð vinnuveitanda sínum og getur átt erfitt með að stíga út úr aðstæðunum. Algengt er að þeir sem koma hingað til lands sem sjálfboðaliðar eða au pair eigi einmitt alltof mikið undir vinnuveitandanum.

Mjög oft eru tengsl milli vinnuveitenda og þeirra sem útvega starfsfólk og algengt er að fólk misnoti samlanda sína í nauðungarvinnu. Það gerir þetta að skipulagðri brotastarfsemi, en ein af alþjóðlegu skilgreiningunum á henni er að tveir eða fleiri fremja saman refsivert athæfi. Við höfum ótal frásagnir af svona dæmum og sjáum þau í byggingaverktöku, veitinga- og hótelgeiranum. Alltaf er um að ræða erlent vinnuafl,“segir Snorri Birgisson lögreglufulltrúi og yfirmaður  mansalsteymis lögreglunnar.

brotafl

Drífa Snædal er framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.  „Fólk kemur hingað á allskonar forsendum. Það getur verið að það komi til að vinna og fái svo alltof lítil eða bara alls engin laun. Þetta getur verið fólk með ólíkan bakgrunn, líka velmenntað fólk sem vill fara á vit nýrra ævintýra. Mikil eftirspurn eftir vinnuafli hér á landi og gríðarlegt atvinnuleysi sem ríkir meðal ungs fólks í Evrópu, veldur því að fólk leitar hingað eftir vinnu. Sumir koma sem sjálfboðaliðar, hreinlega til að öðlast starfsreynslu og auka atvinnumöguleika sína í framtíðinni.
Fólk sem ekki er upplýst um réttindi sín og skyldur, sem er háð atvinnurekanda með fæði og húsnæði, er í landfræðilegri einangrun, jafnvel ekki með atvinnuleyfi og einhver misnotar aðstæður þess, það geta verið þolendur mansals. Einnig eru dæmi um að launin fari ekki til þess sem vinnur heldur til þriðja aðila.

21159-drifa-6209
Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins

Við sjáum það í ferðaþjónustunni, þar sem við hjá Starfsgreinasambandinu þekkjum best til, að fólk kemur gjarnan hingað í góðri trú um að það sé að fara að vinna í lögregri starfsemi við hóflegan vinnutíma og góðar aðstæður. Svo endar það með allt í fangi sér, jafnvel gert ábyrgt fyrir rekstri heilu eininganna og undir hælinn lagt hvort það fái greitt.
Aðbúnaður starfsfólks í hótelbransanum fer ekki endilega eftir verðmiðanum á hótelherberginu. Við sjáum til dæmis erlendar keðjur nýta sér verkata í þrifum á hótelum, þar eru verkin eru boðin út. Aðbúnaður herbergisþernanna þarf ekki haldast í hendur við gæði á hótelinu.
Brotavilji atvinnurekandans er þó ekki alltaf einbeittur. Í þessum málum er ekki allt svart eða hvítt, heldur geta málin verið flókin,“ segir Drífa.

mannsal_5

Hvað þarf að breytast til að stöðva málin?

Þó að sérstakt mansalsteymi sé starfandi innan lögreglunnar þá hefur ekki ein ákæra verið gefin út í öllum þeim fjölda mála þar sem grunur um mansal hefur vaknað. Því er ljóst að engum verður refsað fyrir brotin sem framin hafa verið á þessum einstaklingum.
Snorri Birgisson segir það þekkt fyrirbæri. „Það er alþekkt alþjóðlegt vandamál að ákærur í þessum málum eru fáar. Málin eru flókin viðureignar og þolendur í þessum málum koma ekki til okkar að fyrrabragði eins og í öðrum málaflokkum. Við megum ekki eingöngu horfa á hve mörgum einstaklingum við náum þó að við vildum koma fleiri málum fyrir dóm. Vinnan okkar snýst líka um að stöðva brotastarfsemina. Stundum tekst okkur að rjúfa vítahringinn og aðstoða þá sem vilja þiggja aðstoð, þó að við komum ekki málunum fyrir dóm. Við getum aðstoðað fólk við að komast úr aðstæðum sem það er í.”

Hann segir að bara í fyrra hafi lögreglan skilgreint 19 einstaklinga sem þolendur mansals í tíu mismunandi málum. „Málin tíu voru að öllu leyti frumkvæðisrannsóknir lögreglu en sum bárust til okkar í gegnum aðrar stofnanir.“

29526-snorri-01927
Snorri Birgisson lögreglufulltrúi

Snorri segir eina helstu ástæðu fyrir því að ekki sé ákært og dæmt í mansalsmálum, vera hin ríka krafa um sönnunarbyrði sem hvíli á mansalsákvæðinu nr. 227 í almenningum hegningarlögum.
„Samkvæmt mansalsákvæðinu þurfum við að sýna fram á verknað, aðferð og hagnýtingu fólks sem getur reynst erfitt. Það er nánast krafa að þolandinn óski eftir aðstoðinni og beri kennsl á vandamálið. En eðli málanna er ekki endilega þannig háttað. Þolandinn getur verið að koma úr enn verri aðstæðum og sættir sig því við aðstæðurnar sem hann er í. Það þýðir ekki að við eigum að nota það sem viðmið. Brotin verða ekkert skárri þótt einstaklingurinn komi úr enn verri aðstæðum. Að mínu mati þarf að skilgreina nauðungarvinnuna betur í lögum. Sambærileg ríki í kringum okkur hafa innleitt ákvæði um að það sé bannað að misnota starfsfólk. Sú skilgreining gæti til dæmis komið inn í íslenska vinnulöggjöf og þá með refsiheimild. Það gæti gert okkur auðveldara að ná utanum málin. Við viljum sjá skilgreiningu Alþjóða vinnumálastofnunar lögfesta á Íslandi um að það sé bannað að misnota starfsmenn. Hún hefur aldrei verið íslenskuð en fjallar um það sem kallast Forced Labor. Norðmenn hafa sem dæmi lögfest skilgreiningu Alþjóða vinnumálastofnunarinnar. Einnig þarf að lögfesta keðjuábyrgðina þannig að aðalverktakinn beri ábyrgð á öllum verkhlutum, líka þeim sem undirverktar sinna.“
Snorri segir kennitöluflakk einnig áberandi meðal þeirra fyrirtækja sem misnota fólk.

mannsal_4
„Það þarf að virkja aðgerðaáætlun gegn mansali og setja peninga í það. Við erum einnig spennt fyrir að ydda löggjöfina betur og það þarf að vera refsiákvæði við brotunum,“ segir Drífa Snædal.
„Mörg Evrópulönd hafa tekið upp hegingarlagaákvæði gegn því þegar fólk er ábyrgt fyrir vinnu sem samræmist ekki mannlegri reisn eða virðingu, en á ensku er hugtakið human dignity. Holland hefur til dæmis lög um þetta. Slík löggjöf myndi ná yfir slæman aðbúnað fólks líka, ekki bara launakjör. Það þarf einnig að virkja keðjuábyrgðina í lögum svo yfirverktaki beri ábyrgð á undirverktakanum. Og girða fyrir kennitöluflakk með því að takmarka með lögum hvað ein og sama manneskjan getur stofnað fyrirtæki oft og keyrt það í þrot.”

mannsal_7

Hvert er eðli fyrirtækjanna sem brjóta á fólki?

25941-olafur-thor-hauksson
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari

„Við hjá embætti Héraðssaksóknara eigum aðeins öðruvísi aðkomu að þessum málum en að vera beinlínis að skoða vinnumansal,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðsaksóknari. „Þau mál hafa þó vissulega komið upp í tengslum við aðrar rannsóknir hjá okkur. Til dæmis í rannsóknum á hegningarlaga- og skattalagabrotum sem tengjast atvinnustarfsemi. Þá rannsökum við hvort um skattsvik eða vanskil á opinberum gjöldum er að ræða. Fyrirtækin sem hlut eiga að máli, koma sér hjá því að borga opinber gjöld og borga ekki laun í samræmi við kjarasamninga. Við sjáum þetta nokkuð í verktakabransanum og höfum vaxandi áhyggjur af þessari háttsemi. Þessu fylgir gjarnan kennitöluflakk sem kemur upp þegar farið er að sverfa að fyrirtækjum sem komin eru í verulegar skuldir og er af þeim sökum lokað af skattayfirvöldum. Kennitöluflakkið lýsir sér þannig að eignirnar eru færðar úr eldra félaginu og yfir í nýtt. Skuldirnar eru hinsvegar skildar eftir. Starfsemin heldur svo áfram á annarri kennitölu og þetta mynstur getur endurtekið sig nokkuð oft þótt skiptastjórar reyni auðvitað að endurheimta sem mest inn í þrotabú eldri félaga.
Vanhöld á lífeyrissjóðsgreiðslum fylgja þessu einnig. Yfirleitt eru þetta samhangandi brot sem hafa það leiðarljósi að hámarka verðmæti sem tekin eru út úr fyrirtækjunum af þeim sem að þessu standa. Ef við höfum grun um mansal í þessum málum þá hnippum við í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu þar sem er sérþekking á þessum tilteknu málum.“

mannsal_

mannsal_6

Hvað hefur verið gert til að stöðva þetta?
„Það er óhætt að segja að þrældómur hafi aukist í uppsveiflunni,“ segir Snorri Birgisson. „Við munum sjá fleiri svona mál en með áframhaldandi vinnu í þessum málaflokki þá munum við nálgast þau betur en áður. Upplýsingarnar sem okkur berast nú eru upplýsingar sem við höfum aldrei séð áður. Fólk tilkynnir um aðstæður erlends vinnufólks, því fólk er orðið upplýstara um þetta og farið að tengja þetta meira við mansal en áður. Það er mikil aukning á tilkynningum sem skýrist aðallega með vitundarvakningu almennings.
Ýmislegt hefur áunnist svo sem að Reykjavíkurborg hefur sett upp keðjuábyrgð í verktöku í sínum útboðsskilmálum. Þannig er ábyrgð yfirverktaka á undirverktaka er staðfest. Landsvirkjun hefur sett reglur um hið sama og gerir kröfu um keðjuábyrgð yfirverktaka. Hafnarfjarðarbær hefur, eftir að hafa fengið fræðslu um mansal, ályktað og tekið ákvörðun um að fylgja vinnumansalsmálum fast eftir.“

mannsal_2

Hverjar eru afleiðingarnar af vinnumansali?
„Fyrirtækin sem starfa eins og ég lýsti áðan geta valdið tvennskonar tjóni. Ríkissjóður og þar með samfélagið allt verður af tekjum þegar fyrirtækin borga ekki skatta eða lífeyrissjóði og kennitöluflakka með ofangreindum hætti. Einnig skekkist samkeppnisstaðan og gerir lögmætum fyrirtækjum erfiðara uppdráttar. Þjóðfélagslega er þessi starfsemi því mjög skaðleg,“ segir Ólafur Þór Hauksson.
„Fyrir utan persónulegu afleiðingarnar og þær að fólk vinnur sér ekki inn margskonar réttindi eins og ellilífeyri, veikindarétt og slysatryggingar, eru samfélagslegu afleiðingarnar þær að fólk vinnur við aðstæður sem við viljum ekki að viðgangist. Flestir í samfélaginu eru sammála um að virðing okkar felist í því að vera með sæmilegar aðstæður á vinnumarkaði. Einnig snúa ferðamenn heim með slæma upplifun af Íslandi,“ segir Drífa Snædal.

mannsal_3
26034_funahofdi_kraftbindingar-17
Híbýli starfsmanna Brotafls í iðnaðarhúsnæði á Höfða

Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652