Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fátækt er pólitísk ákvörðun

$
0
0

„Ég man vel eftir fyrsta skiptinu sem ég þurfti að biðja um mataraðstoð. Ég var komin í þá stöðu að eiga ekki fyrir mat handa börnunum mínum og fór í Hjálparstofnun kirkjunnar sem var þá staðsett í miðbænum. Ég man hvað það fylgdi því ónotaleg tilfinning. En þó það hafi verið erfitt að stíga þetta skref þá er maður auðvitað afskaplega þakklátur fyrir að þessi aðstoð sé til staðar,“ segir Hildur Oddsdóttir.
Rúm tíu ár eru liðin frá því að Hildur steig þetta skref í fyrsta sinn en hún er ein þeirra nokkur þúsund Íslendinga sem nær ekki endum saman um hver mánaðarmót og neyðist því til að þiggja mataraðstoð. Hildur glímir við andleg og líkamleg veikindi og fær örorkubætur frá Tryggingastofnun.

Auðvelt að útrýma fátækt á Íslandi

„Bæturnar dugðu ekki út mánuðinn þá og gera það ekki enn. En það er allt annað að þiggja aðstoð í dag en þá. Áður fyrr fór maður og fékk úthlutað af þeim mat sem var til en í dag er hægt að fá kort sem Hjálparstofnun gefur út og getur valið sér hvað maður kaupir, sem er miklu betra því það er misjafnt hvað mann vantar. Ef maður er með börn skiptar það miklu máli,“ segir Hildur.
Til að geta fengið mataraðstoð þarf í sumum tilfellum að framvísa skattskýrslu einu einni á ári en öðrum þarf að sýna fram á hversu mikið af launum eða bótum einstaklingurinn hefur á milli handanna eftir að öll útgjöld hafa verið greidd. Hjálparstarf Kirkjunnar er með samning við apótek og hefur aðstoðað fjölmarga sem geta ekki leyst út lyfin sín. „Maður reynir að úthluta sér þessu jafnt svo þetta nýtist sem best. Það má til dæmis koma tvisvar í mánuði í Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og ég nýti það oftast síðustu tvær vikurnar í mánuðinum.“
Hildur kynntist Pepp á Íslandi, samtökum sem berjast gegn fátækt og fyrir valdeflingu fátækra, í vetur og segir það hafa hjálpað sér mikið að kynnast fólki í sömu stöðu. „Ég mæti á alla fundi og það góða er að við setjum mikla áherslu á að finna lausnir og vera jákvæð. Við komum mörg úr erfiðum aðstæðum en þegar við hittumst þá gleðjumst við. En við ræðum líka það sem betur mætti gera, sérstaklega fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega. Við erum það lítið samfélag að við ættum auðveldlega að geta útrýmt fátækt.“

6,7% Íslendinga búa við skort á efnislegum gæðum.
1,3% Íslendinga búa við verulegan skort.

Fátækt er ekki aumingjaskapur

„Ég man eftir einu skipti þar sem ég hafði ekki fengið launin mín á réttum tíma. Ég átti tveggja ára barn og ekkert í pelann svo ég tappaði safanum af kokteilávaxtadós, blandaði með vatni og setti í pela. Ég hafði ekkert stuðningsnet og það kom ekkert annað til greina. Þegar maður biður um aðstoð í fyrsta skiptið þarf maður að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður sé ekki sjálfum sér nægur. Það er niðurlægjandi og rosalega stórt skref að taka,“ segir Ásta Dís Guðmundsdóttir, formaður Pepp á Íslandi, og ein skipuleggjanda málþings um mataraðstoð.
„Það sem við viljum fyrst og fremst koma á framfæri með þessum samtökum er að fátækt er ekki aumingjaskapur. Fólk á það til að halda að sumir bara nenni ekki að vinna en það vilja allir vinna. Fátækt er pólitísk ákvörðun, hún er afleiðing af ákvörðunum og þeim getum við breytt. Við erum með innbyggðar fátækrargildrur í kerfinu okkar sem sumir komast ekki úr. Þegar fólk er komið í gildrurnar þá kemst það ekki eitt og sjálft upp úr þeim.“

 

Málþing um mataraðstoð
People experiencing Poverty eða PeP eru samtök sem berjast gegn fátækt í 32 löndum í Evrópu og hefur íslenski anginn fengið nafnið Pepp. Þátttakendur hennar kalla sig Peppera enda er valdefling fátækra stór hluti starfsins. Pepperar telja að með jákvæðni, virðingu og samkennd sé hægt að hjálpa hvert öðru að finna þá mannlegu reisn sem glataðist í lífskjarabaráttunni. Pepperar blása til umræðna um mataraðstoð ásamt fólki úr fátækt, Velferðarvaktinni og helstu hjálparsamtökum landsins á Grand Hóteli 21. október kl. 8.30 – 11.30. Almennur aðgangseyrir 1.000. – Frítt fyrir fólk í fátækt.

29628-teikning

11,4% barna búa við fátækt
Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá árinu 2015 búa 11,4% íslenskra barna á heimilum sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman, 10% á heimilum undir lágtekjumörkum og 7,7% á heimilum sem skorti efnisleg gæði. Pepp-samtökin fengu börn úr 3.bekk í grunnskólum til að teikna fátækt og afhentu samtökin forseta Íslands innrammaða mynd í vikunni.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652