Það er mikilvægt að ná að slaka á af og til, hreinsa áhyggjurnar út úr vitundinni og kúpla sig rækilega út. Og hvað er betra til þess en hágæða djúpslökunartankur sem nú fæst keyptur á bland.is? Þar er hægt að láta sig fljóta í rólegheitum og láta allar áhyggjur heimsins líða úr sér.
Tankurinn er úr áli en hann er klæddur að innan með einangrunarefni. Upphitun er í gegnum heitt vatn undir botni en tvær hljóðlausar viftur sjá um loftræstingu. Með fylgja 125 kíló af Epsom salti út í flotvatnið sem er víst allra meina bót, gott fyrir húðina og gefur hraustlegt og gott útlit.
Einhver kann að halda að slíkir einangrunartankar séu nýir af nálinni, en svo er aldeilis ekki. Það var Bandaríkjamaðurinn John C. Lilly sem þróaði tæknina árið 1954, fyrir meira en 60 árum. Hann fór hins vegar flatt á því að blanda flotinu við neyslu ofskynjunarlyfsins LSD, sem þá var reyndar löglegt í Bandaríkjunum. Fréttatíminn mælir ekki með neinum slíkum viðbótum við hina fljótandi slökunarveröld tanksins.
Af myndinni á bland.is að dæma er líklegt að núverandi eigandi tanksins hafi ekki nýtt hann mikið að undanförnu og kannski má bjóða í gripinn. Uppsett verð er litlar 700 þúsund krónur, sem einhverjum kann að þykja vera slatti af peningum. Fyrir þá aura má til dæmis kaupa sér BMW 320 stationbíl árgerð 2002, en hann er þó líklega töluvert meira stressandi eign.