Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Dularfull auglýsing nátengd Repúblikönum og teboðshreyfingunni

$
0
0

Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu á fimmtudaginn og í gær og var lögð heil síða undir. Mynd af Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, prýddi auglýsinguna en í textanum er vikið að Sturlu Pálssyni, starfsmanni seðlabankans, vegna umfjöllunar um hann í Kastljósi. Undir auglýsinguna skrifar svo Andrew Langer, formaður bandarísku hugveitunnar, Institute for Liberty (IFL).

Hugveitan stofnaði nokkuð sem heitir Iceland Watch, þann 9. ágúst síðastliðinn, og virðist tilgangurinn vera sá að fylgjast með afléttingu hafta til hagsbóta fyrir vogunarsjóði.

Fréttatíminn hefur heimildir fyrir því að starfsmaður fjölmiðlafyrirtækisins Mentzer Media Services hafi keypt auglýsinguna í Morgunblaðinu. Fyrirtækið er eitt stærsta fjölmiðlafyrirtækið þegar kemur að pólitískum áróðri fyrir frambjóðendur Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, en fyrirtækið starfaði fyrir Mitt Romney í forsetakosningunum árið 2012 og vakti landsathygli fyrir. Síðast starfaði fyrirtækið fyrir Jeb Bush í forvals-kosningabaráttu Repúblikanaflokksins.

Andrew Langer varð áberandi í bandarískum stjórnmálum upp úr 2010 en hann var virkur í Teboðshreyfingunni þar í landi. Hans helsta baráttumál var aftur á móti að berjast gegn hlutleysi á internetinu, það er, hann vildi að fjar­skipta­fyr­ir­tæki mættu hægja á interneti þeirra sem borguðu ekki hærra verð fyrir. Andrew hefur svo verið fastagestur í fréttaveitu landssamtaka skotvopnaeiganda í Bandaríkjunum, NRA News.

Ekki fer þó mikið fyrir þeirri hugmyndafræði er varðar net-hlutleysi, þegar farið er á Twitter-síðu Iceland-watch, sem virðist styðja Pírata hvað mest. Í raun er varla fjallað um annað á Twitter-síðunni en Pírata og Framsóknarflokkinn.

„Það þjónar ekki hagsmunum eins eða neins að reka svona mál í fjölmiðlum. Ég þekki ekki ástæðuna, eða tilganginn né skil ég hagsmunina sem liggja að baki þessu. En við tengjumst þessu ekki með neinum hætti,“ segir lögmaðurinn Pétur Örn Sverrisson, sem gætir hagsmuna tveggja vogunarsjóða hér á landi.

Sömu sögu segja ráðgjafar sem Fréttatíminn ræddi við. Einn sagði vogunarsjóði ekki hagnast á svona umræðu. Það gerðu stjórnmálamenn aftur á móti. Benti hann þá á að þeir einu sem virtust vekja athygli á auglýsingunni, væru ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokksins. Svo virðist sem IFL hafi engar tengingar við vogunarsjóði, en heilmikil tengsl við bandarísk stjórnmál á hægri vængnum. Seðlabankastjórinn fundaði um málið í gærmorgun í Stjórnarráðshúsinu. Sagði hann í viðtali við RÚV á eftir að auglýsingin stæðist enga skoðun.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652