„Þetta er nokkuð einstakt dæmi og ber að varast að draga þá ályktun að fermetraverðið sé orðið svona hátt í Vesturbænum,“ segir Jón Rafn Valdimarsson, fasteignasali hjá Mikluborg.
Hingað til hefur fermetraverðið verið um hálf milljón í hverfinu, sem er það dýrasta á landinu, en Jón Rafn segir verðið á svona eignum þó spanna allt frá 400 þúsund krónum á fermetrann og upp úr.
„Reglan nú er raunar sú að því minni sem íbúðin er, því meira hækkar fermetraverðið,“ útskýrir Jón Rafn en gríðarleg eftirspurn er eftir minni íbúðum, framboðið er þó ekki nægilega mikið, að mati Jóns.
Og til þess að lýsa eftirspurninni þá segir Jón að þremur mínútum eftir að hann birti fasteignaauglýsinguna á netinu, sem var á fimmtudaginn, fékk hann símtal þar sem einstaklingur vildi forvitnast um eignina. Degi síðar höfðu um þúsund manns skoðað auglýsinguna.
Hægt verður að skoða eignina á mánudaginn, en þá verður opið hús. Jón Rafn segir allan gang á því hversu margir mæti til þess að skoða, „en ég held að þeir verði ansi margir núna,“ segir hann.
Fasteignamat íbúðarinnar eru 22,5 milljónir en brunabótamatið er 11,5 milljónir. Jón Rafn segir það skipta miklu máli að íbúðin er með sérinngangi og nánast einbýli. Þegar fasteignaauglýsingar eru skoðaðar, má finna ögn stærri íbúð steinsnar frá, eða á Bræðraborgarstígnum. Íbúðin er 57 fermetrar, en verðið eru rétt tæpar 30 milljónir. Sá munur er þó á að sú íbúð er í fjölbýli. -vg