Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Á bak við gardínurnar í Grímsey – skellir og bjargráð eyjarskeggja

$
0
0

Ómar Valdimarsson hefur langa reynslu sem blaðamaður og hefur unnið fyrir Rauða krossinn víða um heim. Þegar hann hóf meistaranám í mannfræði fyrir tveimur árum, kom hugtakið „félagsauður“ nokkrum sinnum upp í kennslustundum og vakti forvitni hans. Hann hafði séð það á ferðalögum sínum hve mikilvægur félagsauður er í örbyggðum og litlum viðkvæmum samfélögum.

30034-omar-03338
Ómar Valdimarsson Mynd: Hari

Hann ákvað því að velja sér afskekkta íslenska byggð til að stúdera í náminu og úr varð einstaklega áhugaverð athugun sem er öllum aðgengileg á Skemmunni. Ritgerðin heitir „Draumaland í Dumbshafi – félagsauður og bjargráð Grímseyinga“.
Við rannsóknina ræddi Ómar við flesta íbúa eyjunnar, auk brottfluttra og vinveittra. Hann greip í verkfæri blaðamennskunnar til að teikna upp lýsingu á brothættum aðstæðum þeirra rúmlega sextíu manna sem bjuggu í Grímsey á meðan hann var þar. Auk þess rifjar hann upp sögu Grímseyjar, þar sem róið var til fiskjar og hirtur fugl og reki á meðan heimsveldi risu og hnigu suður í Evrópu.30034

„Mér fannst forvitnilegt að vita hverskonar mannlíf þrifist á svona litlum stað, í tiltölulega mikilli einangrun. Ég hef aldrei búið til lengri tíma í litlum plássum og hafði áhuga á að vita hvernig þetta væri. Hvernig fólk byggi í samfélagi þar sem karlarnir eru alltaf á sjó, konurnar heima, og krakkarnir þurfa að fara úr eynni til að sækja framhaldsskóla. Ég velti því fyrir mér hvort þetta ætti einhverja framtíð fyrir sér. Hvort þessu væri viðbjargandi. Við höfum séð þróunina í dreifðu byggðunum um landið þaðan sem fólk streymir suður á mölina. Því þó fólk vilji gjarnan búa á svona stöðum, vildi ég vita hvort það væri í raun og veru hægt. Mér fannst þetta alveg einnar messu virði og þess vegna lagði ég af stað.“

Ómar segist hafa haft nokkrar áhyggjur af því hvort Grímseyingar vildu tala við sig. „En eftir nokkra daga í eynni áttaði ég mig á því að þetta væri raunhæft dæmi. Svo fór ég þangað aftur á öðrum árstímum og í millitíðinni talaði ég við fólk hér syðra sem þekkti til. Mig langaði að skoða hvað héldi fólki saman, því á svona stað er alltaf eitthvert lím. Ef það er ekki lím, þá fer fólkið eitthvert annað. Stundum er límið í samfélögum efnahagslegir hagsmunir, stundum er það félagsauðurinn. Ég reyndi að lýsa kúltúrnum í eynni og hvað heldur honum gangandi.“

Við lesninguna kynnumst við ekki bara einstöku samfélagi heldur líka nokkuð litríkum mannfræðingi. Höfundi ritgerðarinnar.

Hér á eftir birtast valin brot úr mannfræðirannsókn Ómars á bjargráðum Grímseyinga:

–„Nýju kennarahjónin í Grímsey, Dónald og Helga Mattína, áttuðu sig fljótlega á gildi gluggatjalda þegar þau komu til þangað út. Fyrstu dagana voru þau gardínulaus í raðhúsinu ofan við höfnina. Konurnar fóru að segja Helgu að þær sæju alveg í gegnum húsið svona gardínulaust. Já, já, hún vissi allt um það. „En maður sá alveg hvað þið voruð að gera!“ „Já,“ svaraði Helga. „Við vorum ekki að gera neitt sérstakt. En ef það er eitthvað sérstakt, þá drögum við fyrir.“

–„Um slíka hluti var ég að hugleiða á leiðinni til Grímseyjar í fyrsta sinn um Jónsmessuna 2014. Gæti ég búið á svona stað, þar sem íbúarnir væru fáeinir tugir og þriggja tíma sigling í næsta pláss? Eða yrði ég stjörnubrjálaður á fáeinum vikum? Þá hitti ég Harald Guðfinnsson, sölumann úr Hafnarfirði. Hann var alinn upp í Bolungarvík og þekkti því smáplássin. Þegar ég fór að spyrja hvort ekki væri hver maður með nefið ofan í annars koppi í svona fámenni kom hann mér á óvart: Það er ekkert öðruvísi en annars staðar, sagði hann. „Það vita kannski allir hvað allir hinir eru að gera en í fámennum samfélögum er það af hinu góða – það er frekar af umhyggju að menn fylgjast hver með öðrum. Ef fólk er að tala hvert um annað þá er það af þekkingu, öfugt við fjölmennið þar sem talað er um nágrannann og annað fólk án þess að vita í rauninni nokkuð.“ Haraldur átti erindi til Grímseyjar – erindi sem sýndi mér og sannaði að þótt Grímsey væri sker við heimsskautsbaug var hún hluti af umheiminum: fyrirtæki hans í Grindavík selur Grímseyingum nefnilega smokkfiskbeitu. Smokkfiskinn veiða kóreskir línuveiðimenn suður við Falklandseyjar. Aflanum er svo komið í stór verksmiðjuskip, hann frystur um borð og fluttur alla leið til Íslands. Frá Grindavík er hann svo sendur sem beita norður til Grímseyjar þar sem íslenskir línuveiðimenn eru á höttunum eftir þorski: þetta er hnattvæðingin í hnotskurn. Árlega selja Grindvíkingarnir um 40 tonn af beitusmokkfiski til Grímseyjar, það er beitan sem dugar þeim best.“

30034grimsey-3
Mynd: Cole Barash

Umhverfið býr í manneskjunni

–„Íbúum í Grímsey fækkar stöðugt. Í lok sumarsins 2014 var útlit fyrir að 63 myndu hafa vetrarsetu í eynni veturinn 2014-2015. Ári síðar var útlit fyrir að íbúarnir veturinn 2015-2016 yrðu innan við 50 og allt að þriðjungur þeirra ferðaðist reglulega á milli lands og eyju. Stórbættar samgöngur milli lands og eyju, og fiskveiðar utan heimaslóðar, valda svo því að talsverður hluti heimamanna er að heiman um lengri eða skemmri tíma, aðallega á sumrin en einnig á vetrarvertíð. Með hverjum eyjaskeggja sem fer í land fer einnig svolítið af félagsauðnum og eftir stuttan tíma hefur félagsauður hins brottflutta þornað upp í samfélaginu sem hann kvaddi. Það má því nota hugtak Gísla Pálssonar um heildstaklinga fremur en einstaklinga í Grímsey, því „umhverfið býr í manneskjunni, ekki síður en hún í umhverfinu, félagslegu og náttúrulegu.“
Þegar öllu er á botninn hvolft er félagsauðurinn nefnilega ekki aðeins hluti einstaklingsins heldur fremur heildstaklingsins.“

–„Í nær öllum samtölum við Grímseyinga leggja þeir áherslu á samheldnina í samfélaginu, segjast alla tíð hafa verið eins og ein fjölskylda. Áslaug og Garðar Ólason lögðu á þetta ríka áherslu þegar ég kom fyrst til Grímseyjar. Garðar hafði átt við langvarandi þunglyndi að stríða og þurfti meðal annars að leggjast inn á geðdeild í Reykjavík um tíma. Kiwanisklúbburinn í eyjunni sló þá saman 150 þúsund krónum og sendi geðdeildinni í þakkarskyni fyrir að taka vel á móti sínum manni. Jórunn í Miðgörðum fékk brjóstakrabba snemma árs 2014 „og þá studdu mig bæði kvenfélagið og Kiwanis.“ Fleiri sögðu svipaðar sögur. Dóttir Haraldar Jóhannessonar þurfti að gangast undir skurðaðgerð í Bandaríkjunum og þá var tvisvar sinnum efnt til samskota. „Það er allt svona í Grímsey – ef eitthvað kemur upp á eru allir boðnir og búnir að hjálpa til,“ sagði hann.”

30034-grimsey-2
Mynd: Cole Barash

Samhjálp íbúanna

–„Jóna Sigurborg Einarsdóttir, Bogga á Eiðum, er ágætt dæmi um gott „utanumhald“ og samhjálp eyjarskeggja. Hún kom til Grímseyjar frá Grindavík þar sem líf hennar virtist ekki stefna í réttan farveg, kynntist ágætum manni, sérvitrum og á stundum einkennilegum, og eignaðist fljótlega með honum soninn Einar Helga sem er sennilega bestur skákmanna í Grímsey nú um stundir. Bogga býr að vitsmunalegri fötlun og þarf því nokkra aðstoð við daglegan heimilisrekstur. Hún er vingjarnleg og glöð, settist andspænis mér á pallinum við Gallerí Gullsól, og sagðist í óspurðum fréttum ekki hafa áhuga á að búa í Reykjavík. Kvenfélagskonurnar veita Boggu alla þá aðstoð sem hún þarf á að halda. Þær koma til hennar í desember, þrífa allt hátt og lágt, skipta um gardínur, steikja laufabrauð, baka smákökur og gera allt klárt fyrir jólin. Í lok nóvember er haldið upp á afmælið hennar með tertuveislu – árlega, ekki á fimm ára fresti eins og venjan er, því Boggu þykir svo gaman að eiga afmæli. Sía og Gylfi á Sólbrekku tóku Einar litla í dagvist heim til sín fyrstu fimm árin hans og þar var hann rétt eins og hinir krakkarnir. “

–„Grímseyingar hafa á undanförnum áratug þurft að horfa á eftir drjúgum hluta síns sameiginlega félagsauðs við það að einstaka menn hafa tekið meira út en þeir hafa lagt inn. Í svo litlu samfélagi munar um hvern mann og hvers kyns áföll snerta ekki aðeins fjölskyldur þeirra sem í hlut eiga, heldur alla. Nú er svo komið að stærstu áföllin ógna byggðinni.
Áratugur er liðinn síðan feðgarnir Óli Hjálmar Ólason og Óli Bjarni Ólason seldu tvo báta sinna og um 1.600 tonna kvóta og fluttust á brott. Kvótinn nam um 40% af heildarkvóta Grímseyinga… Útgerðarmenn í Grímsey töldu sig ekki vera í aðstöðu til að kaupa kvóta feðganna þegar brottför þeirra var ákveðin en þeir hafa síðan keypt viðbótarkvóta í stað þess sem feðgarnir seldu burt af staðnum.“

30034_grimsey7Fjárdráttur sveitarstjórans

–„Næstu tvö ár á eftir dundu yfir tvö meiriháttar áföll sem enn setja mark sitt á samfélagið. Bæði má rekja til sama manns, Brynjólfs Árnasonar, sveitarstjóra og oddvita, sem kom fyrst til Grímseyjar 16 ára gamall til að vinna við að stokka línu og ílentist – aðallega vegna þess að hann náði sér í myndarlega Grímseyjarstúlku, Guðrúnu Sigfúsdóttur frá Vogi. Brynjólfur var duglegur og atorkumikill og þegar fram í sótti gerðist hann atkvæðamikill í lífi samfélagsins, varð oddviti og sveitarstjóri, sinnti flugumsjón og móttöku ferjunnar, var umboðsmaður
Olíudreifingar ehf., fjárhaldsmaður Kiwanisklúbbsins og kaupmaður (rak matvöruverslunina Grímskjör ásamt konu sinni) og setti á laggirnar veitingahúsið Kríuna sem enn er til.“

–„Haustið 2007 kom fyrra áfallið. Þá var höfðað opinbert mál gegn Brynjólfi „fyrir fjárdrátt, með því að hafa frá janúarmánuði 2003, þar til í ágústmánuði 2007, þá starfandi sem umboðsmaður Olíudreifingar ehf., dregið sér 12.900 lítra af olíu, en olíu þessa hagnýtti ákærði sér til að hita upp heimili sitt og húsnæði sem hann rak, í verslun sína Grímskjör í Grímsey,“ eins og sagði í ákæru sýslumannsins Akureyri 6. nóvember sama ár. Brynjólfur játaði sök sína og endurgreiddi Olíudreifingu ehf. en var síðan dæmdur til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar (Héraðsdómur Norðurlands, 2007). Þetta mál varð til þess að farið var að skoða bókhald hreppsins og þá kom í ljós að sveitarstjórinn hafði nánast hreinsað upp alla sjóði sveitarfélagsins í eigin þágu. Með það var Binni fluttur í land og settur í tukthús – með viðkomu á geðdeild, niðurbrotinn maður.“

Treyst fyrir of miklu

–„Lögreglurannsókn á því máli öllu stóð næstu mánuði og í desember 2008 var hann ákærður í tólf liðum fyrir að hafa stolið rúmlega 26 milljónum úr sveitarsjóðnum með ólögmætum millifærslum af ýmsu tagi. Við dómsrannsókn lækkaði upphæðin um nærri tíu milljónir en engu að síður komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að brotin væru „í heild stórfelld og framin í opinberu trúnaðarstarfi fyrir fámennt sveitarfélag… Hefur sveitarfélagið orðið fyrir verulegu tjóni vegna brota ákærða. Refsing hans ákveðst með tilliti til þessa fangelsi í 18 mánuði, sem ekki eru efni til að skilorðsbinda að neinu leyti.“ (Héraðsdómur Norðurlands, 2008). Hann var að auki dæmdur til að endurgreiða hreppnum þær tæplega 14 milljónir króna sem sannað var að hann hefði dregið að sér.
Um tíma virtist Grímseyingum sem þeir hefðu verið slegnir í rot, svo mikið var áfallið.
Brynjólfur átti konu og börn í Grímsey og tengdaforeldra, Sigfús Jóhannesson og Aðalheiði Sigurðardóttur í Vogi. Eiginkonan fór með börnin fjögur í land. Miklar ýfingar urðu með heimamönnum í framhaldi af þessu máli, „mikil úlfúð sem varla hefur jafnað sig enn, þótt löngu sé búið að dæma Brynjólf og hann búinn að sitja af sér,“ sagði einn heimamanna mér.
Fleiri hafa staðfest við mig að svo sé: af og til má heyra hnjóðsyrði í garð fjölskyldu sveitarstjórans fyrrverandi í Grímsey og enn heilsa ekki allir Guðrúnu þegar hún heimsækir foreldra sína í eyjunni – og var hún þó sú sem upphaflega fylltist grunsemdum um óvenjuleg fjárráð manns síns og gerði sveitarstjórninni viðvart.“

–„Sárindi heimamanna voru þeim mun meiri vegna þess hve Brynjólfur hafði komið sér vel í eyjunni. „Hann er ofsalega sniðugur maður, hann Binni, dagfarsprúður og vel liðinn,“ segir Dónald Jóhannesson sem var skólastjóri í Grímsey á þessum tíma. „Hann gerði margt gott fyrir þessa eyju, það vantar ekki. Hann bara dettur inn í eitthvað sem við vitum ekki alveg hvað er…“ „Kannski var honum treyst fyrir allt of miklu,“ segir Helga Mattína Björnsdóttir, kona Dónalds. „Það virtist enginn geta gert neitt nema Binni, hann sá um Kiwanis, öll samskipti við land…enginn gat gert neitt nema hann.““

grimsey-7-akureyri-vikublad-30034
Valgerður Þorsteinsdóttir í Akureyri vikublaði

Útgerðarmaður kærður fyrir kynferðisbrot

–„Sumarið 2014 kom upp mál í Grímsey sem sennilega hefur gjaldfellt félagsauð heimamanna meira en nokkuð annað. Þá gerðist það að 21 árs gömul stúlka, Valgerður Þorsteinsdóttir, ættuð frá Tröð, kærði Garðar Ólason, ráðandi útgerðarmann í plássinu, fyrir að hafa misnotað sig kynferðislega árum saman, allt frá því að hún var 14-15 ára. Í Grímsey eru flestir blóðtengdir: amma Valgerðar, Ragna í Tröð, er systir Gylfa Gunnarssonar, meðeiganda Garðars í útgerðarfélaginu Sigurbirni ehf., og býr í næsta húsi við þá. Um haustið hófst lögreglurannsókn á ásökunum Valgerðar. Skuggi lagðist yfir Grímsey, eins og ég átti eftir að finna sjálfur þegar ég kom þangað í nóvember til að taka þátt í Fiske-deginum: Garðar og Áslaug kona hans sátu þá nánast ein við borð ásamt Alfreð syni sínum og hans fjölskyldu. Eins og nærri má geta var kæran, og lögreglurannsóknin sem fylgdi, gríðarlegt áfall fyrir þetta litla samfélag. Þá um haustið fluttu Garðar og Áslaug til Grindavíkur þar sem systkini hans búa. Flæmd í burtu? „Nei, ekki segi ég það,“ sagði Garðar mér vorið 2016, „en stemningin var þannig að við ákváðum að fara.““

–„Í janúar 2015, birtist ítarlegt viðtal við Valgerði í Akureyri vikublað undir fyrirsögninni „Ætlar ekki að hætta fyrr en réttlætinu er fullnægt,“ þar sem hún rakti sína hlið á málinu og segist hafa ákveðið að leggja fram kæruna eftir að hafa verið lögð inn á geðdeild sumarið áður.
Í viðtalinu kom einnig fram að hæpið væri að Garðari (sem ekki var nafngreindur í blaðinu) yrði framvegis vært í Grímsey „en á sama tíma hafa opinberir aðilar kallað eftir samstöðu eyjarskeggja til að leysa kvóta- og byggðavandann. Viðtalið… veltir því almennt upp hvort brot gegn einstaklingi sé einnig brot gegn samfélagi. Samfélagslegar afleiðingar kunna að verða nánast fordæmalausar ef allt fer á versta veg í Grímsey.““

Óuppgert mál

–„Lögreglurannsóknin fór í fyllingu tímans sína leið til ríkissaksóknara sem komst að þeirri niðurstöðu vorið 2015 að ekki væri tilefni til höfðunar opinbers máls á hendur Garðari, framburður stúlkunnar hefði verið óljós og breytilegur og ekki hægt að ætla að málshöfðunin myndi leiða til sakfellingar. Mér hefur ekki tekist að koma höndum yfir bréf ríkissaksóknara þar um. Ekki var ágreiningur að þau tvö hefðu átt í kynferðislegu sambandi, heldur frekar hvenær það hefði hafist – þegar hún var 17 ára eins og hann heldur fram, eða 15 ára eins og hún segir og þar með sætt misnotkun.“
30034_grimsey1
–„Garðar var virtur í byggðinni, vinsæll og ráðagóður. Traustur og ábyggilegur, var lýsingin sem ég fékk áður en þessi hörmung öll komst í hámæli: ásamt með tveimur til þremur mönnum öðrum var hann kjölfestan í atvinnulífinu og hafði mikil áhrif á allan rekstur samfélagsins. Og þarna kemur til önnur tegund auðmagns sem flækir málið enn frekar – helmings eignarhlutur í þeim veiðiheimildum sem halda uppi byggð í Grímsey. Augljóslega kýs Garðar að selja sinn hlut í útgerðinni úr því sem komið er – en í Grímsey er enginn til að kaupa kvóta fyrir nokkur hundruð milljónir.
Hvað gerist ef enginn er reiðubúinn, eða fær um, að axla þá ábyrgð sem eftir situr? Hvers virði er allur sá félagsauður sem Garðar og fjölskylda hans bjuggu að í Grímsey þegar hann er fluttur af staðnum og veit að hann treglega velkominn aftur?“

–„…leggja Grímseyingar á það ofuráherslu í samtölum við gesti, og það sama má lesa í flestu því sem skrifað hefur verið af gömlum Grímseyingum, að þegar á bjáti standi þeir saman sem einn maður, þá sé samheldnin algjör. Það var mér freistandi framan af að líta svo á að þarna væri verið að lýsa félagsauðnum, það væri einmitt þetta sem væri undirstaða samfélagsins, að öll dýrin í skóginum væru vinir. Vandinn er hins vegar sá að þetta er ekki alveg satt – það er munur á því sem fólk segist gera og því sem það gerir í raun.“30034_grimsey9

Útlagar í eynni

–„Enn eimir eftir af þegjandahætti í garð fjölskyldu Brynjólfs Árnasonar, fyrrum sveitarstjóra, nærri áratug eftir að hann afplánaði dóm sinn, og allmargir láta sem þeir sjái ekki Garðar og Áslaugu þegar þau koma úr landi, til dæmis um páskana 2016. Sumir eru ævareiðir, til dæmis amma Valgerðar, sem finnst „ekki hægt að ætlast til þess að ég fyrirgefi. Barnabarnið mitt verður aldrei það sama, vinátta okkar er búin, samfélagið í eyjunni meira og minna laskað.“ Öðrum þykir vandræðalegt að ræða fall Garðars og vilja helst ekki að það sé rætt yfirleitt – þannig væri kannski hægt að láta eins og þetta hefði aldrei gerst.“

–„Gylfi Gunnarsson, meðeigandi Garðars í útgerðinni og ömmubróður Valgerðar, efast um að Garðar eigi afturkvæmt til Grímseyjar. Hann hefur boðist til að kaupa Garðar út úr útgerðinni „með fyrirvara um fjármögnun og svoleiðis, eins og venja er, en það hefur ekki náð neitt lengra. Hann verður þá að sætta sig við að eiga sinn hlut í þessu hér. Alfreð sonur hans hefur engin þau ráð að hann geti keypt hlut pabba síns.“ Varla er hægt að segja að þeir gömlu félagarnir hafi talað saman síðan málið kom upp. „Ég veit eiginlega ekki hvað ég ætti að segja,“ sagði Gylfi mér haustið 2015. Þess í stað hefur hann brugðist við þessu áfalli á sama hátt og jafnan áður, hann drekkir sér í vinnu: „Þegar ég var búinn að vakna upp á nóttunni yfir þessu í nokkrar vikur, alveg heltekinn af þessu máli öllu, þá ákvað ég að kasta þessu öllu aftur fyrir mig og fór að róa eins og vitlaus maður.“ Áratuga löngu samstarfi er í reynd lokið, vinátta fjölskyldnanna verður aldrei söm. Eftir sitja umtalsverðir sameiginlegir fjárhagslegir hagsmunir, rækilega samtvinnaðir framtíð byggðarinnar, en að sama skapi hefur verið gengið svo freklega á sameiginlega félagsauðinn að hann er varla til skiptanna lengur. Félagslega tengslanetið, grundvöllur hinnar félagslegu samloðunar, hefur rofnað.“

Samstaðan ekki af væntumþykju

–„Það er sú staða sem Grímseyingar eru í þessi misserin: einstakir menn hafa tekið miklu meira út en sanngjarnt getur talist. Einstakir menn, og jafnvel fjölskyldur þeirra, hafa þurft að sæta útskúfun. Þeir sem ekki undirgangast reglur samfélagsins, eða misbjóða því á einhvern hátt, þeim verður ekki lengi vært í Grímsey, eru nánast útskúfaðir. Þá koma brestir í samheldnina sem heimamönnum er svo gjarnt að tala um og í ljós kemur að samheldnin á sín takmörk… Það felur einnig í sér að Grímseyingar geta ekki lengur haldið því fram að þegar á reyni standi þeir saman sem einn maður, dæmin sem hér hafa verið rakin sanna það. Miklu frekar er að þeir standi saman sem einn maður þegar það hentar – og sú lýsing á vafalaust við miklu fleiri samfélög manna en bara Grímsey. Þessi staða sýnir enn á ný að það er munur á því sem fólk segist gera og því sem það gerir í raun. Samstaðan er sú sem hún þarf að vera, ekki endilega sú sem hún er sögð vera. Einn Grímseyinga orðaði það svo í spjalli að kæmi til þess að hann flytti í land, myndi hann gæta þess að hafa aldrei framar samskipti við suma nágranna sína í eyjunni, sér líkaði í raun ekki betur við þá en svo: Hér stendur fólk saman af nauðsyn, sagði Grímseyingurinn, ekki endilega af væntumþykju.“

30034-omar-03331

Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652