Það gæti farið svo að einn daginn verði tölvutæknin nýtt til að gera námið skemmtilegt, það er að segja sjálfa kennsluna og frammistöðu kennarans fyrir framan bekkinn, þegar hann reynir að koma fróðleik og visku aldanna ofan í nemendur sína og víkka sjóndeildarhring þeirra.
Í Sichuan háskóla í Kína hefur prófessorinn Wei Xiaouong verið að þróa tækni sem gerir kennurum kleift að fylgjast með því hvernig nemendur hans fylgjast með. Prófessorinn hefur komið mörgum myndavélum vandlega fyrir í kennslustofunni sem nema áhuga í andlitum nemendanna. Myndefnið er síðan sent í tölvu þar sem hugbúnaður tekur við og reiknar út þau áhrif sem kennslan hefur á nemendurna. Reiknilíkönin fylgjast með geðsveiflum nemendanna og skynja hve spenntir eða mæddir þeir eru yfir kennslunni og efninu sem kennarinn hefur fram að færa.
Í samtali við The Telegraph segir Wei að þannig sé hægt að sjá hvað það er í náminu sem grípur athyglina og hvað ekki. Fleiri kennarar í kínverskum háskólum hafa fengið að prófa tæknina, en henni er ætlað að bæta kennsluaðferðir og hjálpa kennaranum að finna hvað virkar og hvað ekki.
Auk hefðbundinna spurninga um persónufrelsi og upplýsingaöryggi kvikna líka spurningar um hvaða kennslugreinar það eru sem myndu falla á prófinu og eru of þreytandi og leiðinlegar fyrir slík vísindi, þær greinar sem einfaldlega er ekki viðbjargandi með slíkum mælingum og nýjustu tækni. Svari því hver fyrir sig, kennarar og nemendur. -gt