Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Leonard Cohen og Ameríka

$
0
0

Það er verst að skáldin skuli yfirgefa okkur einmitt þegar við þurfum mest á þeim að halda. En það er jú eðli skálda að vera áfram með okkur, jafnvel þó þau séu farin. Leonard Cohen tékkaði sig út úr heimi sem ekki er lengur hægt að skilja nema sem metafór fyrir eitthvað allt annað. Cohen er nú staddur á efstu hæð á sönglagaturninum mikla á himnum og við fáum aldrei að vita hvað hann hefði sagt um veröld Donalds Trump. Og þó má einmitt vera að hann hafi varað okkur við.

Leonard Cohen fæddist þann 21. september 1934 í borginni Montreal í Kanada. Þar ólst hann upp í hverfinu Westmount, sem er enskumælandi eyja í hinu frönskumælandi Québéc héraði, sem aftur er frönskumælandi eyja í hinu mikla enskumælandi úthafi sem er Norður-Ameríka.

Þrátt fyrir að vera af gyðingaættum leit faðir hans, sem barðist í fyrri heimsstyrjöld, svo á að hann væri viktoríanskur séntilmaður og gaf syni sínum ljóðabækur eftir helstu skáld Englendinga, eins og Wordsworth og Byron. Cohen las enskar bókmenntir við McGill háskóla í heimaborginni og gaf út ljóðabók í klassískum stíl, en fyrir sunnan heilluðu Bandaríkin þar sem allt var að gerast.

Cohen fór í framhaldsnám til New York og kynntist þar bítskáldum á borð við Kerouac og Ginsberg, sem fannst hann hlægilega gamaldags. Kanadamaðurinn hélt aftur heim og gaf út fleiri ljóðabækur og skáldsögur, en frumlegri, sem unnu til verðlauna. Í bókinni Flowers For Hitler talar hann mann sem er enskur í útliti en hafði amerískan metnað. Sjálfur hafði Cohen snert af slíkum og eftir að hafa heyrt í Dylan hélt hann aftur til New York, en í þetta sinn til að gerast söngvaskáld.

Með hippum og í hernum

Hann kom fram í fyrsta sinn á mótmælatónleikum gegn Víetnamstríðinu og var svo feiminn að hann gekk af sviði en vinkona hans, Judy Collins, dró hann aftur fram. Hann samdi hið magnaða lag „Story of Isaac“ gegn stríðinu, þar sem eldri kynslóðinni er stillt upp sem Abraham að fórna syni sínum fyrir einhverskonar málstað. Cohen var þó ekki friðarsinni með öllu. Árið 1973 gekk hann til liðs við afþreyingardeild ísraelska flughersins í Yom Kippur stríðinu og drakk koníak með Ariel Sharon í eyðimörkinni, en bauð við hryllingi stríðsins og hélt aftur heim.

cohen_4

Cohen sló í gegn, en ekki í Ameríku, heldur í Evrópu. Platan Various Positions, sú með „Hallelujah“ á, var ekki einu sinni gefin út þar í landi í fyrstu. En Cohen settist eigi að síður að þar í landi, og þegar kalda stríðinu lauk og flestir fylltust bjartsýni gaf hann út hina martraðarkenndu plötu The Future sem nú er mikið deilt í netheimum í ljósi nýjustu tíðinda. „Geturðu ekki glaðst yfir neinu?“ spurði vinkona hans, Jennifer Warnes, hann af því tilefni.

Þegar Cohen varð sextugur yfirgaf hann hina gullfallegu leikkonu Rebekku De Mornay og gekk í klaustur á Baldy fjalli í Kaliforníu og virtist hafa sagt skilið við heiminn. Snemma í október 2001 birtist hann þó aftur með nýja plötu, Ten New Songs, og í laginu „Land of Plenty“ vonast hann til þess að ljósið í landi allsnægtanna muni lýsa á sannleikann einhvern daginn.

Lagið var tekið upp fyrir atburðina 11. september, en á næstu plötu á eftir brást hann við þeim beint með laginu „On That Day.“ Þar syngur hann um þá sem særðu New York og öfunda hana vegna gulls hennar og þræla. Afstaðan er því tvíbent til þessarar nútíma Babylonsborgar. En þannig var það alltaf.

Blóm fyrir Trump

Cohen kom í heiminn í heimskreppunni miklu, ári eftir að Hitler tók völd. Hann var tíu ára þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk og orti síðar um gleðina sem því fylgdi. En hann og vinir hans litu síðar á eftirstríðsárin sem glatað tækifæri, samheldni stríðsáranna var rofin, konurnar sendar aftur í eldhúsið og kaup og sala komu í stað hinnar nýju Eden sem menn höfðu barist fyrir. Og ofan á öllu trónuðu Bandaríkin.

Hann heillaðist af kántrítónlist og af rokkinu, þó hann hafi verið ári eldri en Elvis. Hann upplifði mótmæli gegn Víetnam og endalok hippatímans, sem hann þó var aldrei fyllilega hluti af. Þó hann hafi komið fram á hátíðum á borð við Isle of Wight rak faðir hans herrafataverslun og honum leið aldrei nógu vel í lörfum, ekki einu sinni frægum bláum regnjökkum. Hann var hvað vinsælastur undir lok Reagan tímans þegar hann steig aftur fram, nú sem snyrtilegur og vitur eldri maður, kom til Íslands og hitti sjálfan Hrafn Gunnlaugsson. En ekki trúði hann á þetta tímabil heldur, og söng um að hinir fátæku yrðu áfram fátækir en aðeins hinir ríku yrðu ríkir.

cohen_2

Mestur spámaður gerðist hann við upphaf 10. áratugarins, þegar frjálshyggjumenn spáðu því að nú væri sögunni lokið en hann söng um framtíð þar sem hinn gamli vestræni sáttmáli yrði rofinn, einkalífið sprengt í tætlur, eldar loga á götunum en hvíti maðurinn dansandi, konu sem hangir á hvolfi og öll lélegu skáldin sem reyna að hljóma eins og Charlie Manson.

Hvað hefði Cohen sagt um þá veröld sem hann skildi við, veröld Donalds Trump? Kannski einmitt þetta. Og þó sá hann það góða í Bandaríkjunum, sem hann kallaði vöggu þess best og hins versta. Eða eins og hann orti í örkvæði í sinni síðustu ljóðabók:

„Eitt að lokum. Þið munið sakna Bandaríkjanna þegar þau eru horfin.“

Og við munum sakna þín, Leonard.
cohen_3


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652