Framleiðsla enskrar útgáfu teiknimyndaþáttanna eru á lokametrunum og er áætlað að þeir verði aðgengilegir í steymisveitu Amazon í lok ársins. Japönsk stikla úr þáttunum hefur þegar birst á netinu og má sjá hér að neðan. X-Files stjarnan Gillian Andersson verður rödd Ronju en enskar talsetningar á teiknimyndum Studio Ghibli eru afar metnaðarfullar.
Goro Miyazaki er leikstjóri þáttanna en hann er sonur Hayao Miyazaki, eins fremsta kvikmyndaleikstjóra heims. Hayao stofnaði teiknimyndafyrirtækið Studio Ghibili og hefur meðal annars skapað meistaraverkin Spirited Away, Totoro og Ponyo. Studio Ghibili er einskonar Disney í Asíu. Kvikmyndir þeirra eru þær útbreiddustu í álfunni og fullyrt er að Spirited Away frá árinu 2001 hafi velt Titanic úr sessi sem ein útbreiddasta kvikmynd heims.
Nú er sonur Hayao tekinn við aðalhlutverkunum hjá Studio Ghibili og leiðir framleiðslu á 26 þáttum um Ronju. Bókin Ronja Ræningjadóttir eftir Astrid Lindgren kom út árið 1981 en hún hefur verið þýdd á rúmlega 40 tungumál og selst í rúmlega tíu milljón eintökum. Á miðjum níunda áratugnum kom svo út kvikmynd Tage Danielsson um Ronju. Þessi nýja japanska útgáfa af sögunni um Ronju hefur þegar verið sýnd í sænska sjónvarpinu og kallað á háværa umræðu um hvort þeir stæðust skoðun Lindgren sjálfrar, væri hún á lífi. Gagnrýnendur í Svíþjóð virðast á einu máli um að hér sé á ferðinni einstaklega vandað sjónvarpsefni í anda ævintýralegra kvikmyndagerðarmanna frá Japan.
Ronja Ræningjadóttir hefur ásamt Línu langsokki verið talin ein helsta fyrirmynd sænskra stelpna enda eru þær ástælustu sögupersónunnar landsins.

Hanna Zetterberg fór með hlutverk Ronju Ræningjadóttur í samnefndri kvikmynd sem kom út árið 1986.