Þegar talið hafði verið upp úr kjörkössunum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Grikklandi um lánaskilyrði troikunnar svokölluðu (framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins) sagði Antonis Samaras, fyrrum forsætisráðherra, af sér sem formaður Nýja lýðræðisflokksins, stærsta flokks landsins á eftir Syriza. Samaras hafði hvatt Grikki til að samþykkja skilyrði troikunnar jafnvel þótt þeir gerðu það sér þvert um geð. Samaras mat það svo að höfnun Grikkja á skilyrðunum myndi skilja þjóðina eftir í vondri stöðu, mögulega án aðstoðar, hugsanlega án nothæfs gjaldmiðils og á endanum jafnvel utan Evrópusambandsins. Þess vegna vildi Samaras að Grikkir samþykktu skilyrði troikunnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þegar atkvæði höfðu verið talin undir morgun og í ljós kom að 61,3 prósent Grikkja höfðu sagt nei við skilyrðunum en aðeins 38,7 prósent já sagði Antonis Samaras af sér sem formaður Nýja lýðræðisflokksins. Hann taldi sig ekki geta verið leiðtogi flokks eftir að þjóðin hafði hafnað með jafn afgerandi hætti leiðsögn hans í mikilvægu máli á viðsjárverðum tímum. Samaras mat það svo að gjá hefði myndast milli pólitísks sýnar hans og vilja þjóðarinnar.
Grikkir hætta, Íslendingar sitja áfram
Höfnun Grikkja á lánaskilyrðum troikunnar í þjóðaratkvæðagreiðslu voru sjónarmun meira afgerandi en höfnun Íslendinga á Icesave-samningnum í seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í janúar 2011 sögðu 58,9 prósent Íslendinga nei en 39,7 prósent já við Icesave. Samningurinn sem lagður var fyrir þjóðina hafði verið samþykktur á Alþingi með atkvæðum allra þingmanna Samfylkingarinnar og flestra þingmanna Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Formenn þessara flokka höfðu á þingi sagt að samkomulagið væri besta niðurstaðan sem í boði væri og besti kostur Íslendinga. Þjóðin hafnaði því mati. Þrátt fyrir það sögðu Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon eða Bjarni Benediktsson ekki af sér sem formenn sinna flokka. Og þau Jóhanna og Steingrímur sátu í verklítilli ríkisstjórn út kjörtímabilið og skiluðu flokkum sínum af sér í sárum til eftirmanna sinna stuttu fyrir kosningar. Samfylkingin og Vinstri græn guldu afhroð í kosningunum og settu í þeim Evrópumet í fylgistapi. Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar fékk aðeins örlítið meira fylgi í kosningunum en í fyrstu kosningunum eftir Hrun og uppskar því lítið sem ekkert eftir fjögurra ára stjórnarandstöðu gagnvart sérlega óvinsælli og ósamstilltri ríkisstjórn.
Danir hætta, Íslendingar sitja áfram
Þegar talið var upp úr kjörkössunum í Danmörku fyrir réttum mánuði kom í ljós að hægri blokkin hafði sigrað. Þrátt fyrir eilitla fylgisaukningu Sósíaldemókrata hafði mið-vinstrið tapað og ljóst var að Helle Thorning-Schmidt myndi ekki leiða næstu ríkisstjórn. Helle sagði strax af sér sem leiðtogi krata þótt blokkin hennar hafi misst mest af fylgi vegna lélegs árangurs sósíalíska þjóðarflokksins og Radikale Venstre í kosningunum. Það er sögulegt hlutverk leiðtoga sósíaldemókrata í Danmörku að leiða vinstri blokkina til sigurs í kosningum svo mögulegt verði að koma stefnumálum flokksins til framkvæmda. Það mistókst Helle Thorning-Schmidt og þess vegna sagði hún af sér. Það var kominn tími til að einhver annar reyndi við þetta hlutverk. Röðin var komin að Mette Frederiksen.
Þegar íslenskir flokksleiðtogar hrökkva upp við afleita útkomu flokka sinna á kosninganótt gangast þeir ekki við ábyrgð á útkomunni. Það þekkist ekki að íslenskur flokksformaður segi af sér á kosninganótt eða snemma morguninn eftir, eins og alsiða er í flestum löndum. Samt gildir það sama lögmál á Íslandi og annars staðar; að flokksformaður sem hefur tapað illa í kosningum mun aldrei ná að sigra í kosningum eftir það.
Aldrei sigur eftir tap
Í nokkrum tilfellum hefur formaður sem tapar kosningum verið felldur í formannskjöri nokkrum árum síðar. Davíð Oddsson felldi þannig Þorstein Pálsson í formannskjöri næstum fjórum árum eftir að Sjálfstæðisflokkur Þorsteins tapaði miklu fylgi 1987. Þorsteinn fékk því ekki að reyna fyrir sér í öðrum kosningum. Það gerði hins vegar Geir Hallgrímsson. Hann vann góðan sigur 1974 en tapaði síðan miklu fylgi 1978. Og náði ekki að vinna það til baka 1979 þrátt fyrir skammlífa og ósamstæða vinstri stjórn sem hrökklaðist frá eftir aðeins rúmt ár. Í kjölfar þessara kosninga klofnaði þingflokkur sjálfstæðismanna. Geir var síðan felldur í prófkjöri 1983 niður í sjöunda sæti listans í Reykjavík og náði ekki inn á þing. Hann hætti sem formaður um haustið. Bæði Davíð Oddsson og Jóhann Hafstein hættu sem formenn Sjálfstæðisflokksins nokkrum árum eftir mikið tap flokksins í kosningum og sneru sér að öðru.
Framsóknarflokkurinn tapaði miklu fylgi í kosningunum 1978 en eftir sem áður myndaði formaðurinn Ólafur Jóhannesson stjórn með vinstri flokkunum, sem höfðu unnið stóran sigur. Þessi stjórn varð aldrei starfshæf og reyndist ásamt kosningatapinu endalokin á löngum ferli Ólafs. Bæði Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson byrjuðu sinn feril sem formenn á góðum sigrum en síðan seig fylgið. Flokksmenn snerust gegn þeim vegna slælegs árangurs í kosningum og þeir viku. Jón Sigurðsson brann upp sem formaður í einum slæmum kosningum og sömuleiðis Valgerður Sverrisdóttir. Guðni Ágústsson fuðraði upp milli kosninga. Það var öllum ljóst að honum myndi aldrei takast að vinna fylgi utan síns heimahrepps.
Fleiri töp
Margrét Frímansdóttir, fyrsti formaður Samfylkingarinnar, hætti ári eftir kosningaúrslit sem voru langt undir væntingum stofnenda flokksins. Össur Skarphéðinsson náði góðri kosningu en tapaði engu að síður fyrir mágkonu sinni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, í formannsslag. Ingibjörg náði ekki sérstakri útkomu í kosningunum 2007, en erfitt er að fullyrða hversu mikið kosningarnar veiktu hana. Jóhanna fékk góð úrslit 2009 og ætlaði sér ekki að leiða flokkinn í gegnum aðrar kosningar vegna aldurs. Hún skilaði honum hins vegar af sér í henglum.
Áður en Samfylkingin var stofnuð hafði Alþýðuflokkurinn undir forystu Jón Baldvins Hannibalssonar tapað miklu fylgi 1995. Jón Baldvin átti því enga framtíð innan Samfylkingarinnar. Kjartan Jóhannesson fór með Alþýðuflokkinn í gegnum vondar kosningar og tapaði síðan formannskjöri ári síðar fyrir Jóni Baldvini. Gylfi Þ. Gíslason hætti sem formaður krata eftir mikið tap í kosningunum. Það er ekki hægt að segja um Benedikt Gröndal, hann missti frekar stuðning vegna kynslóðaskipta en fylgistaps.
Steingrímur J. Sigfússon hætti sem formaður VG stuttu fyrir kosningarnar 2013 þegar ljóst var að fylgishrun blasti við. Hann hafði sem formaður aukið fylgi flokksins í tvennum kosningum í röð. Fyrir tíma VG hafði Ólafi Ragnari Grímssyni mistekist sem formanni að auka fylgi Alþýðubandalagsins og hvarf til annarra starfa. Ólafur tók við þegar Svavar Gestsson hafði misst fylgi flokksins mjög niður í kosningunum 1987. Ekki er hægt að segja að Lúðvík Jósepsson eða Ragnar Arnalds hafi tapað kosningum sem formenn Alþýðubandalagsins.
Tapari rústar flokknum sínum
En hvað um það.
Á síðustu hálfri öld eru engin dæmi um að flokksformaður hafi farið í gegnum kosningaósigur með flokk sinn en síðan náð að vinna fylgið til baka. Ekki eitt dæmi. Algengast er að flokksmenn missi trú á formanninum og hann hætti fáeinum misserum eftir ósigurinn; stundum er hann felldur í formannskjöri en algengast er að hann sjái sína sæng útbreidda, skynji veikt bakland og hverfi af vettvangi. Þegar flokksformenn þráast við og skynja ekki sinn vitjunartíma hafa kallað miklar hörmungar yfir hann sjálfan og flokk hans. Skýrasta dæmið er Geir Hallgrímsson. Þráseta hans lék Sjálfstæðisflokkinn svo illa að eftirmaður hans réð í raun ekki við afleiðingarnar. Þráseta Geirs rústaði bæði formennsku hans og Þorsteins Pálssonar.
Og þetta er einmitt ástæða þess að í flestum löndum hefur myndast hefð fyrir að flokksformenn sem tapa kosningum hætti samdægurs. Það er ekki eftir neinu að bíða. Horfurnar verða engu betri eftir viku og þær verða aðeins enn verri eftir ár eða tvö. Flokksforystan getur vanist vondri stöðu, en hún batnar aldrei. Því hættir flokksformaður sem tapar kosningum strax til að gefa eftirmanni sínum tíma til að endurskoða stefnuna, laða nýtt fólk til forystu og skipuleggja starfið. Nýr formaður með framtíðina fyrir sér hefur allt önnur og betri tækifæri en gamall formaður með vont tap á bakinu.
Þú ert aldrei sterkari en síðustu kosningaúrslit
Í Hollywood er sagt að enginn sé sterkari en síðasta mynd. Farsæll leikstjóri með margar metsölumyndir í ferilskránni er líklegri til að endurtaka vondu myndina sem hann gerði síðast en einhverja af góðu myndunum sem hann eitt sinn gerði. Það sama á við um leikara. Ef enginn keypti miða á síðustu mynd hans er líklegast að það sama gerist með næstu mynd. Það er ólíklegra að hún slái í gegn eins og eldri myndir hans. Þótt þetta sé grimm sýn þá er ýmislegt hæft í þessu í kvikmyndabransanum. En þetta er lögmál í pólitík. Enginn stjórnmálamaður er sterkari en síðustu kosningar. Og þá skiptir engu hvernig ferillinn var fram að því eða hvaða væntingar fólk gerði til stjórnmálamannsins áður fyrr.
Langvarandi afsagnir standa í vegi fyrir þroska flokkanna
Þar sem þetta er alþjóðlegt lögmál og öllum ljóst er undarlegt að það hafi ekki haft meiri áhrif á íslenskt flokksstarf. Hvers vegna sagði Þorsteinn Pálsson ekki af sér eftir tapið í kosningunum 1987? Hefði það ekki verið betra fyrir hann og Sjálfstæðisflokkinn? Og hvers vegna sagði Davíð Oddsson ekki af sér eftir tapið í kosningunum 2003? Hann gæti þá í dag státað sig af óvenju glæsilegum stjórnmálaferli í stað þess að verja arfleið sína nánast daglega í Mogganum. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað endurnýjað sig fyrr og betur. Afsagnir flokksformanna eru þannig alls ekki vond mál heldur endurnýjandi og gefandi.
Það má örugglega færa að því góð rök að þessar langvarandi og þreytandi afsagnir flokksformanna hafi hægt á þroska íslenskra stjórnmála og séu jafnvel ein helsta ástæða þess að þau eru jafn frumstæð og raun ber vitni. Örari og snaggaralegri afsagnir hefðu ýtt undir þroska stjórnmálaflokkanna.
Formennirnir fæla fólkið frá
Og ef fólk vill leita skýringa á hvers vegna almenningur hefur misst trú á fjórflokknum nægir að benda á formennina. Í flestum löndum hefði Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir sagt af sér formennsku vegna kosningaófara til að flýta fyrir að flokkarnir gætu aðlagað sig breyttum tímum. Þegar horft er yfir þingflokka þessara flokka; einkum Samfylkingar og VG, sést hópur kosningatapara. Slíkur hópur snýr alltaf vitlaust; horfir aftur og reynir að nota málefni dagsins til að réttlæta fortíðina.
Það má sjálfsagt margt ljótt segja um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, en hann er þó eini formaður fjórflokksins sem kjósendur hafa ekki hafnað. Hann er þvert á móti sigurvegari tveggja síðustu kosninga; þingkosninganna 2013 og Icesave-kosninganna 2011.
En það er hins fleira í stjórnmálum en síðustu kosningarnar. Til dæmis traustmælingar. Ég fjallaði um þær hér og ætla ekki að gera það aftur. Sigmundur Davíð hefur tapað trausti þjóðarinnar og er kominn í þá stöðu að það er eiginlega sama hvað hann gerir; alls snýst í höndunum á honum. Það eru því engar líkur til að hann vinna næstu kosningar. Ef hann heldur formannssætinu í Framsókn mun hann leiða mikið fylgishrun yfir flokk sinn. Eins og hinir formennirnir.
Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is
The post Því fyrr sem þið hættið, því betra appeared first on FRÉTTATÍMINN.