„Ég held að þetta sé fyrst og fremst gott fyrir íslenska neytendur. Þetta verður vonandi til þess að lækka verð og auka vöruúrval og þá er tilgangnum náð,“ segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar um komu amerísku verslunarkeðjunnar Costco til Íslands en verslunin hefur undirritað samning við Garðabæ sem tryggir þeim landssvæði og byggingu í Kauptúni í Garðabæ. Stefnt er að því að opna verslunina næsta sumar. „Korputorg kom líka til greina en það er mjög ánægjulegt að þeir skuli hafa valið Kauptúnið í Garðabæ.“
Fyrirhuguð koma Costco til landsins vakti mikla athygli í fyrrasumar en Costco selur meðal annars áfengi og lyf í verslunum sínum, sem er ekki leyfilegt á Íslandi. Gunnar segir stjórnendur fyrirtækisins fyrst og fremst vera hissa á því að mega ekki selja áfengi en þeir ætli sér að bíða og sjá hvort það breytist ekki með tímanum. „Þeir munu eðlilega virða lög og reglur sem eru hér í landinu,“ segir Gunnar. „Allar þeirra óskir eiga eftir að koma fram núna í framhaldinu og fara þá í venjulegt skipulagsferli, eins og gengur og gerist.“
En hvað er Costco?
Verslunin Costco opnaði dyr sínar í yfirgefnu flugskýli í Seattle árið 1983 og er í dag ein stærsta smásölukeðja heims sem rekur yfir sex hundruð verslanir í sjö löndum. Costco selur vörur í mjög stórum pakkningum á mjög lágu verði auk þess að bjóða upp á mjög fjölbreytt vöruúrval. Meðal þess sem selt er í verslunum Costco, auk matvara, er áfengi, lyf, útilegubúnaður, brúðarkjólar, tjaldvagnar og grillaður kjúklingur, svo eitthvað sé nefnt.
Verslanir Costco eru gríðarlega stórar og reglan er sú að öll ferskvara sé aftast í húsnæðinu. Til að komast að henni þarf viðskiptavinurinn að ganga í gengum nokkra tugi metra af til dæmis raftækjum, skartgripum eða fatnaði svo hann kaupi sér nú örugglega eitthvað sniðugt til heimilisins eða jafnvel giftingarhring í leiðinni. Verslunin er þekkt fyrir gott vöruúrval fyrir þá sem hræðast heimsendi, en þar er auk „heimsendakitts“, hægt að panta „Neyðarkassa“ sem inniheldur 30.000 matarskammta sem endast í 25 ár, á aðeins 4000 dollara.
En þrátt fyrir fjölbreytt vöruúrval býður Costco ekki upp á fjölbreytt úrval vörumerkja. Verslunin selur að meðaltali um 4000 vörur á meðan venjulegur stórmarkaður í Bandaríkjunum selur um 40.000 vörur. Það er til að mynda bara ein gerð tómatsósu í boði í Costco svo neytandinn getur aldrei borið saman verð, það er bara eitt í boði.
80% af öllum gróða Costco kemur frá félagsgjöldum en til að geta verslað í Costco, allt nema áfengi og eldsneyti, þarf að vera meðlimur. Félagsgjöldin eru 55 dollarar á ári í Bandaríkjunum. Costco-meðlimir telja nú um 64 milljónir á heimsvísu og 90% meðlima endurnýja áskrift sína ár eftir ár.
Fyrirtækið eyðir engum peningum í auglýsingar en reiðir þess í stað á að óvæntur glaðningur í verslununum muni draga spennta neytendur að. Þessi óvænti glaðningur, t.d. skoskt viskí selt í heilum viðartunnum á 8500 dollara, Rolex-úr á hálfvirði eða ítalskur pítsueldofn á 4000 dollara, eru vörur sem koma á óvart, bjóðast í takmörkuðu upplagi og á tilboðsverði. Það er þessir óvænti glaðningur, sem breytist frá degi til dags, sem gera ferð í Costco að sérstakri og öðruvísi upplifun fyrir neytandann og oft á tíðum háðan því að koma og versla aftur og aftur í Costco. Það má því segja að verslunin sé líkari dótaverslun fyrir fullorðna en matvöruverslun.
Í Costco er líka hægt að borða, eða ná í mat og taka með heim. Risastórar pítsusneiðar á mjög lágu verði njóta gífurlegra vinsælda meðal amerískra neytenda og er Costco einn stærsti pítsuframleiðandi Bandaríkjanna í dag. En verslunin býður líka upp á sívinsælt pylsu og kók tilboð sem hefur kostað einn og hálfan dollar í þrjátíu ár.
Fyrirtækið er þekkt fyrir að koma vel fram við starfsmenn sína og borga mannsæmandi laun, næstum helmingi hærri en þeirra helsti keppinautur, Wal-Mart.
Og í lokin, fyrir þá sem hafa gaman af óþarfa en áhugaverðum staðreyndum þá er líka hægt að nefna það að Costco kaupir upp helminginn af allri kasjúhnetu-uppskeru heimsins og að eplakakan í American Pie var keypt í Costco.
(Tekið úr grein Fréttatímans um Costco frá 04.07.2014)
The post Costco kemur til Íslands. En hvað er Costco? appeared first on FRÉTTATÍMINN.