Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ísland þessarar aldar er Vestfirðir síðustu aldar

$
0
0

Til að stöðva fólksflóttann þurfa stjórnvöld að hugsa eins og fólkið sem vill flytja til útlanda – ekki eins og fólkið sem sættir sig við samfélagið eins og það er.

Screen Shot 2015-07-17 at 14.05.33

Samkvæmt rannsókn Þórodds Bjarnasonar við Háskólann á Akureyri sér meirihluti unglinga á Íslandi fram á að búa í útlöndum þegar þeir vaxa úr grasi. Fyrir Hrun sá þriðjungur unglinga fram á að búa í útlöndum en nú er það sléttur helmingur. Þetta er sláandi niðurstaða. En þó í ágætum takti við aðrar sambærilegar rannsóknir á undanförnum árum.

Markaðsrannsóknarfyrirtækið MMR birti í hitteðfyrra niðurstöður könnunar um hvort landsmenn hefðu hugsað um að flytja til útlanda á síðustu mánuðum. Samkvæmt könnuninni höfðu um 40 prósent landsmann íhugað að flytja. Það er nokkuð stór hópur; tveir af hverjum fimm.

Samkvæmt könnuninni höfðu fleiri karlar en konur íhugað flutning úr landi og ívið fleiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Eftir því sem fólk hefur lægri tekjur því líklegra er það til að vera að velta fyrir sér að byrja nýtt líf í öðru landi – kannski skiljanlega.

En mesti munurinn á afstöðu fólks til brottflutnings var eftir aldursflokkum. Af fólki eldra en fimmtugt sagðist tæpur fjórðungur hafa hugsað sér til hreyfings, 2/5 af fólki milli þrítugs og fimmtugs en 57% fullorðins fólks undir þrítugu – vel rúmlega annar hvor ungur maður og ung kona.

Ef við gerum ráð fyrir að fólkið á aldrinum 30 til 50 ára eigi helminginn af börnunum og fólk undir þrítugi og fólk yfir fimmtugu sitt hvorn fjórðunginn; þá þýðir þetta að Íslendingum myndi fækka um rúmlega 120 þúsund ef allt þetta fólk léti verða af vangaveltum sínum um brottflutning. Íslendingar yrðu þá aftur 200 þúsund eins og þeir voru 1968; en náttúrlega miklu eldri þar sem fleira ungt fólk vill flytja til útlanda. Og það tæki börnin með sér.

Þetta hljómar svolítið kjánalega. Auðvitað er það æði ólíklegt að allir sem hafa hugsað með sér að flytja til útlanda láti verða að því samtímis.

En samt ekki. Saga Íslands á tuttugustu öld snerist að stærstu leyti um fólk sem tók sig upp og flutti; ekki frá Íslandi til útlanda heldur frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar.

Screen-Shot-2014-10-01-at-21.55.58

Saga Íslands er saga af fólksflótta

Þegar þessir þjóðflutningar brustu á voru engin könnnarfyrirtæki til að kanna hug fólks. En ætli niðurstaðan hefði ekki orðið svipuð og í könnun MMR í vikunni; ætli 2/5 hlutar Vestfirðingi hefði ekki haft hug á að taka sig upp og flytja í bæinn milli stríða og það hafi einkum verið unga fólkið. Það varð alla vega raunin. Árið 1925 voru Vestfirðingar rúmlega 13 prósent af þjóðinni en eru nú rúmlega 3 prósent. Vestfirðingar eru því aðeins fjórðungurinn af því sem þær væru ef ekki hefði komið til fólksflóttans á síðustu öld.

Um aldamótin 1900 bjuggu um 10 prósent landsmanna á höfuðborgarsvæðinu, 1950 var hlutfallið komið í 45 prósent, yfir 60 prósent um aldamótin 2000 og er í dag um 66 prósent — eða 2/3. Ísland er í raun borgríki og varð það fyrir löngu.

Það skrítna er að alla síðustu öld var eitt helsta meginmarkmið stjórnvalda að sporna við flóttanum af landsbyggðinni og til þess var varið svimandi fjármunum. Þessi stefna fólst fyrst og fremst í því að styðja við forna atvinnu- og lífshætti; reyna að frysta fortíðina með einhverjum hætti. Það var hins vegar þessir fornu lífshættir sem fólkið á landsbyggðinni var að flýja og því má segja að stefna stjórnvalda hafi í raun ýtt undir flóttann frekar en hitt.

Það má svo sem deila um ýmsa þætti byggðastefnunnar; hvort þessi aðgerðin eða hin hafi verið til gagns eða ekki. En um eitt þarf ekki að deila. Ef markmiðið var að stöðva fólksflóttann af landsbyggðinni þá mistókst þessi stefna algjörlega. Byggðastefnan var næstum því jafn vitlaus og gjaldeyrisstefnan.

Í ljósi þessarar sögu er því stórundarlegt að núverandi stjórnvöld virðast helst vilja yfirfæra hina föllnu byggðastefnu yfir á landið allt; beita nokkurs konar frystingu til endurreisnar gamalla atvinnu- og lífshátta, gamalla hugmynda, afstöðu og gilda. Þetta er stefna sem eins og gamla byggðastefnan hafnar þeim sem hugsa sér til hreyfings; segir að farið hafi fé betra og leggur allt upp úr því að sannfæra hina sem hafa ekki getu, kjark eða vilja til að flýja um að þeir hafi rétt fyrir sér. En samkvæmt reynslu sögunnar getur slík stefna ekki annað en ýtt undir flóttann.

AR-120819650

Síðustu áratugina hafa flest samfélög á landsbyggðinni hrörnað; völd og áhrif hafa færst frá þessum samfélögum og æ fleiri mikilvægar ákvarðanir eru teknar utan þeirra. Flest fyrirtæki og stofnanir eru í raun útibú; æðstu stjórnendur og valdsfólk er flutt á brott.

 

Nýjum láglaunahópum rennt undir fyrirtækin

En það skrítnasta við stefnu stjórnvalda er að samhliða endurreisn og útvíkkun fornrar byggðastefnu ýta undir andstöðu við innflytjendur. Það fer hins vegar alls ekki saman við byggðastefnuna gömlu; eins og reynsluna af landsbyggðinni sýnir. Ef breyta á Íslandi þessarar aldar í Vestfirði síðustu aldar þarf að skapa rými fyrir stórkostlegan innflutning fólks til að vega á móti landflótta innfæddra.

Byggðastefna síðustu aldar (sem í raun var fyrst og fremst stuðningur við þá sem áttu atvinnutækin, skipin og kvótann) breytti stórum hluta landsbyggðarinnar í vinnubúðir fyrir láglaunafólk; einhæf samfélög sem stóðu ekki undir óskum og væntingum meirihluta fólksins. Síðustu áratugina hafa flest samfélög á landsbyggðinni hrörnað; völd og áhrif hafa færst frá þessum samfélögum og æ fleiri mikilvægar ákvarðanir eru teknar utan þeirra. Flest fyrirtæki og stofnanir eru í raun útibú; æðstu stjórnendur og valdsfólk er flutt á brott.

Í stað þess að almenningur (alþýðan) notaði ríkisvaldið til að móta samfélagið að eigin þörfum og væntingum var ríkisvaldið á tuttugustu öld notað til að vernda og styrkja hlut hinna ríku, eigna- og valdamiklu. Og þegar stór hluti almennings flúði þessa þróun á landsbyggðinni (eða skort á þróun samfélaganna) var nýjum láglaunahópum rennt undir fyrirtækin svo þau gætu áfram haldið að greiða út lág laun og skila fámennum eigendahópi sínum (hinni eiginlegu elítu á Íslandi) meginþorrann af arðinum.

Íslendingar geta þakkað sínu sæla fyrir að nokkur fjöldi fólks (á okkar mælikvarða) hefur flutt hingað á undanförnum árum frá landsvæðum þar sem kjör er lakari. Af þessum sökum hanga Íslendingar enn í flokki þeirra þjóða sem hafa jákvæðan ballans í tilflutningi fólks. Ef erlent fólk hefði ekki flust hingað væru Íslendingar meðal þeirra þjóða sem eru að skreppa saman vegna brottflutnings fólks; fólks sem hefur misst trú á að samfélagið geti tryggt því gott og öruggt líf. Og það er ekki gott fyrir samfélög að falla niður í þann flokk; þegar þau skreppa saman vegna brottflutnings fólks. Þegar það gerist fer af stað illviðráðanleg keðjuverkun sem erfitt er að stöðva. Það er saga flestra byggðarlaga á landsbyggðinni. Og það getur vel orðið saga Íslands á næstu áratugum.

Þótt líkaminn sé á mölinni er andinn í sveitinni

Hin mislukkaða byggðastefna síðustu aldar ýtti ekki aðeins undir fólksflótta frá landsbyggðinni heldur hafði líka mikil áhrif á sjálfsmynd þjóðarinnar; gerði hana í raun að nokkurs konar andlegum kryppling.

Sú mikla og almenna áhersla á að þeir sem fluttu burt hafi svikið sína heimabyggð varð að rótgróinni sannfæringu um að samfélagið á höfuðborgarsvæðinu væri á einhvern hátt óekta og óæðra. Það er eitt af meginstefjum íslenskrar menningar að hið sanna líf sé á landsbyggðinni; að hún ein geti fóstrað rétt viðhorf og heilbrigð gildi.

Samfélagið þar sem mestur fjöldinn býr og þar sem mannlífið er fjölbreyttast og líklegast til að geta af sér nýjar lausnir og viðhorf; hefur verið undirsett og véfengt; almennt talið spillt og afvegaleitt. Lífið á mölinni er einskonar Ástand; svik við fósturmoldina, fjallkonuna og allt það lið.

Þetta eru ekki aðeins viðhorf fólks á landsbyggðinni heldur ekki síður fólksins á mölinni. Það er enn bundið andlegum átthagafjötrum. Það er varla að bókmenntir okkar eða kvikmyndir hafi skilað okkur einni heiðvirðri persónu sem er fædd og uppalin á mölinni. Samt er svo til allt af þessum verkum unnið á mölinni. Heiðarleiki, einurð og góðir mannkostir eru enn tengdir afdölum í samfélagi sem er í raun borgríki.

Image-1

Samfélagið þar sem mestur fjöldinn býr og þar sem mannlífið er fjölbreyttast og líklegast til að geta af sér nýjar lausnir og viðhorf; hefur verið undirsett og véfengt; almennt talið spillt og afvegaleitt. Lífið á mölinni er einskonar Ástand; svik við fósturmoldina, fjallkonuna og allt það lið.

 

Samfélag eins og fólk helst vill

Þrátt fyrir að byggðastefna síðustu aldar hafi verið kostnaðarsöm og unnið gegn öllum markmiðum sínum kannast ég ekki við að nokkurn tímann hafi staðið til að gera upp við þessa stefnu. Jafnvel enn síður en við gengisstefnuna. Þrátt fyrir að öllum hafi verið ljóst að byggðastefnan virkaði ekki og þarfnaðist róttækar endurskoðunar var vanalega brugðist við með því að gera enn meira af því sama. Ef stuðningur við forna lífs- og atvinnuhætti stöðvuðu ekki fólksflóttann var yfirleitt brugðist við með því að auka enn við þennan stuðning. Sem aftur jók fólksflóttann og kallaði á enn frekari stuðning.

Margt í umræðu dagsins bendir til að við séum að endurtaka þennan vítahring; en nú gegn samfélaginu öllu. Þrátt fyrir að öllum sé ljóst að íslenskt samfélag hafi orðið fyrir gríðarlegu áfalli og að undirstöður þess hafi verið feysknar er ríkastur vilji til að endurreisa það helst nákvæmlega eins og það var. Jafnvel óþurftar fyrirbrigði á borð við tví- og þríokun í olíu-, byggingarvöru- og matvöruverslun, tryggingar-, fjarskipta- og bankastarfsemi er endurreist með afli lífeyrissjóðanna, fjármunum alþýðunnar, þrátt fyrir að þetta fákeppniskerfi sé ein helsta ástæða þess að hér eru lífskjör almennings lakari en í nálægum löndum.

Vandi íslensks samfélags er hvorki lítill né tímabundinn. Þetta fámenna samfélagið stendur frammi fyrir því að stór hluti landsmanna (og meiri hluti ungs fólks) er að íhuga að flytja af landi brott í leit að betra lífi. Mörg undanfarin ár hafa fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess. Til að stöðva þessa þróun þarf að flytja umræðuna og fókus stjórnvalda frá því samfélagi sem þeir sem eftir sitja geta sætt sig við og til þess að móta hér samfélag eins og þeir sem eru við það að flýja land myndu helst vilja búa í.

Gunnar Smári Egilsson

Birt áður í Fréttatímanum.

The post Ísland þessarar aldar er Vestfirðir síðustu aldar appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652