Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Uppreisn almennings

$
0
0

Við hvern áfanga af losun hafta heyrast fullyrðingar stjórnmálamanna um að nú hilli undir að öllum gjaldeyrishöftum verði lyft. Þetta eru innihaldslausar væntingar. Það er óhugsandi í ljósi nýliðinnar sögu að íslenska krónan verði nokkru sinni án hafta. Það var reynt um skamma hríð að láta hin svokölluð markaðsöfl gæta krónunnar og það endaði í hruni gjaldmiðilsins sem leiddi yfir allan almenning þungbæra kjaraskerðingu sem fólk er enn að súpa seyðið af.

Svo til allan líftíma sinn hefur krónan verið í höftum. Íslenska krónuhagkerfið er svo lítið og veikt að það er ekki hægt að sleppa krónunni lausri. Sagan sannar að krónan heldur illa utan um verðmæti. Verðbólga hefur ætíð verið hærri hér en í næstu löndum. Ástæða þess að verðbólga er nú lág er að hversu hátt gengisfallið var síðast. Sá sem geymdi fé sitt í krónum horfir því á verðmæti sín rýrna. Íslenskar krónur vilja því út úr kerfinu til að bjarga lífi sínu.

Þetta ójafnvægi hefur alla tíð verið á Íslandi. Allir sem vettlingi geta valdið hafa reynt að koma fé sínu í skjól í útlöndum. Það átti við um saltfiskútflytjendur snemma á síðustu öld og síldarspekúlanta, heildsala og bílasala, fiskútflytjendur og útrásarvíkinga.

Lengst af var girt fyrir fjárflóttann með lögum um gjaldeyrisskil, en þau voru alla tíð götótt. Þeir sem mestan hag höfðu af götunum, fiskútflytjendur og heildasalar, beittu áhrifum í gegnum stjórnmálaflokkana til að halda þessum götum opnum. Ströngustu reglur giltu fyrir almenning en ríkisvaldið horfði í gegnum fingur sér varðandi svik inn- og útflutningsfyrirtækja.

Með EES-samningnum voru gjaldeyrisviðskipti gefin frjáls. Eftir það liðu ekki nema um tíu ár áður en fjárflóttinn frá Íslandi hafði rústað íslensku efnahagslífi. Öll fyrirtæki landsins höfðu verið skuldsett upp í rjáfur til að standa undir arðgreiðslum til eigendanna sem flúðu með féð út úr krónuhagkerfinu. Við það féll krónan, verð á innflutningi snögghækkaði og kaupmáttur meginþorra almennings féll saman.

Eftir á að hyggja er augljóst að stjórnvöld hefðu átt að grípa inn í. Á þremur árum fyrir Hrun runnu úr landinu um 2200 milljarðar króna að núvirði. Það er sexföld snjóhengjan sem Seðlabankinn er að reyna að hemja með lögum sem Alþingi samþykkti um helgina.

Ástæður þess að ekkert var að gert voru annars vegar trúarlegar og hins vegar mannlegar. Stjórnvöld á þessum tíma, bæði í ríkisstjórn og Seðlabanka, voru markaðstrúar; trúðu að með óbeisluðum markaði risi upp hið náttúrlega jafnvægi. Þegar fjármunir streymdu til landsins í von um hagnað af vaxtamunarviðskiptum töldu ráðamenn það viðurkenningu markaðarins á hæfni þeirra sjálfra og færni. Þegar erlendir spákaupmenn misstu trú á íslensku bólunni sprakk hún. Afleiðingar fjárflóttans hvolfdust yfir almenning.

Sagan kennir okkur að krónan er sameign okkar. Við eigum hvert fyrir sig einhverjar krónur en verðmæti þeirra markast af því hvernig okkur farnast að verja verðgildi krónunnar. Við getum farið með fé okkar eins og við viljum, svo framarlega sem það skaðar ekki aðra. Þótt það geti verið hagsmunir okkar að flytja fé okkar úr landi getum við ekki gert það ef það veldur öllum hinum skaða.

Á meðan ferðamenn streyma til landsins er engin þörf á að setja gjaldeyrishöft á öll venjuleg viðskipti. Höftin munu ekki að snerta venjulegt líf venjulegs fólks á nokkurn hátt. En ef það sjást aftur merki fjárflótta frá Íslandi verða stjórnvöld að setja upp girðingar sem halda. Við skulum vona að þá verði ekki einhverjir markaðstrúar oflátungar við völd.

Við sættum okkur við höft varðandi mjaðamaskiptaaðgerðir, svo dæmi sé tekið. Þegar 150 manns vilja slíka aðgerð en Landspítalinn annar ekki nema 50 á ári verður þriggja ára bið eftir aðgerð.

Það sama mun gilda um fjárflótta frá Íslandi. Ef 500 milljarðar vilja komast út úr krónuhagkerfinu en kerfið þolir aðeins útstreymi 100 milljarða á ári mun myndast fimm ára biðröð. Það má vera fúlt fyrir þá sem lenda í röðinni, en þeir verða bara að sætta sig við það. Hinn kosturinn er að taka upp sterkari mynt.

Höftin munu ekki hafa áhrif á þá sem vilja ferðast til útlanda eða stunda eðlileg milliríkjaviðskipti. Þau munu aðeins hefta eitt prósent af eina prósentinu, fólkinu sem flutti út 2200 milljarða króna fyrir nokkrum árum og rústaði með því íslenskan efnahag.

Gunnar Smári


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652