Simon Fuller, einn stærsti sjónvarpsþáttaframleiðandi í heimi, ætlar að búa til bandaríska útgáfu af norsku vefsjónvarpsþáttunum SKAM. Þættirnir eru skapaðir af Julie Andem og norska ríkissjónvarpinu og engan óraði fyrir að þeir yrðu það vinsælasta sem sjónvarpsstöðin hefur nokkru sinni búið til.
Vinsældir SKAM hafa farið eins og eldur í sinu um heiminn á undanförnum mánuðum. Í Noregi er allt á hliðinni vegna þáttanna og varla talað um annað en aðalpersónurnar. Hægt er að fylgjast með lífi þeirra á samfélagsmiðlum og ný brot úr þáttunum birtast daglega á heimasíðunni skam.p3.no
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessu brjálæði og eru aðdáendahópar þáttanna sístækkandi á Facebook. Þá þykir skyndilega orðið ægilega töff að tala norsku í íslenskum menntaskólum.
Simon Fuller er maðurinn sem setti saman Spice Girls hljómsveitina. Hann er auk þess skapari Idol-stjörnuleitarinnar og dansþáttanna vinsælu So you think you can dance. Fyrirtæki Fullers, XIX Entertainment, hefur keypt réttinn til að framleiða bandaríska útgáfu af SKAM.
Og fyrir forfallna SKAM-aðdáendur, voru að berast þær gleðifréttir að fjórða þáttarröðin er í smíðum og verður sýnd næsta vor. –þt
