Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Asía í Eyjafirði

$
0
0
31024_ceniza-og-throsteinn
Ceniza Baldursdóttir og Þorsteinn Baldursson hafa búið saman í 27 ár í kjallaranum hjá tengdaforeldrum hennar. Mynd/Alda Lóa

Ceniza dansar Zumba
Ceniza Baldursdóttir er 65 ára gömul, gullfalleg og geislar af orku. Hún vinnur ennþá fullan vinnudag eftir 27 ára starf á spítalanum á Akureyri. Hún dansar zumba tvisvar í viku og fyrir utan það tekur hún virkan þátt í starfi Alþýðustofu á Akureyri og félagsstarfi kaþólikka og sinnir ættingjum sínum og dreymir stundum um tíma til þess að læra á nýju ljósmyndavélina.

En árið 1985 hrundi líf hennar og tættist í sundur. Barnsfaðir hennar, lögreglumaður, var skotinn í starfi og Ceniza varð skyndilega einstæð móðir fjögurra barna og yngsta barnið var aðeins tveggja mánaða. „Það var kaos á Filippseyjum“ segir Ceniza áköf en hún metur öryggið á Islandi mikils.

Öðruvísi fátækt
Tekjurnar hjá ísverksmiðjunni þar sem Ceniza vann dugðu ekki til þess að halda heimili. „Yngri börnin fóru í fóstur hjá ættingjum, en ef þú ert ekki ríkur Filippseyingur þá ertu bláfátækur, og það eru margir. Þess vegna eru fjölskylduböndin því mikilvægari þegar lífið skellur á. Fátækt úti er samt ekki eins erfið og hérna á Íslandi. Við þurfum ekki bíl, ekkert rafmagn, við höfum hitann. Þú getur alveg lifað af litlu kaupi, ræktað þína banana, mango og hrísgrjón. Á Íslandi færðu kannski borgað um fjögur hundruð þúsund krónur og peningarnir eru horfnir á svipstundu, það þarf að borga af öllu.“ Það eina sem Ceniza tók með sér frá Filippseyjum þegar hún flaug til Islands var Mango ávöxtur.

Fann ekki Ísland
Mágkona Cenizu hafði árið 1978 gifst íslenskum bóndasyni úr Aðaldal og bjó með honum á Akureyri. Nína, mágkonan, hvatti hina ungu ekkju til þess að koma til Íslands líka. „Þorsteinn byrjaði að skrifa mér 1987 en Nína hafði sagt honum frá mér og Aðalsteinn maðurinn hennar þýddi bréfin hans úr íslensku yfir á ensku. Við skrifuðumst á í sautján mánuði“ útskýrir Ceniza. „Ég fór í Cityhall og sótti um vegabréf. Hvert ertu að fara? spurði konan, ég er að fara til Iceland. Hvar er það? Hún náði í kort og við gátum ekki fundið það. En það hlaut að vera til fyrst að Nína væri búsett þar,“ segir Ceniza slær sér á læri og skellihlær.

Lambalæri og engin hrísgrjón
En Ceniza lenti samt á landinu í maí 1989. Nína og Þorsteinn tilvonandi maður hennar tóku á móti henni. „Þetta var skrýtið, þetta var einsog að lenda á tunglinu. Það voru engin tré og engin háhýsi. Það fyrsta sem ég fékk að borða var lambalæri, ég hafði aldrei borðað lamb og horfði á manninn minn borða þetta með bestu lyst. Engin hrísgrjón sjáanleg. Ég var svo þreytt eftir flugið, sofnaði í bílnum norður til Akureyrar, vaknaði í Staðarskála og Nína benti mér á hvíta rönd og sagði þarna er hálendið og þetta er snjór. Og ég hugsaði með mér hvert í lifandis ósköpum er ég komin?“

En þegar dvalarleyfið var við það að renna út hjá Cenizu og hún á leið úr landi, þá kom upp sú staða að þau Ceniza og Þorsteinn þurftu að ákveða hvort þau ættu að vera saman. „Fram að því hafði ég búið hjá Nínu, ég er kaþólsk og það er ekki í boði að vera saman ógiftur. Að lokum þá giftum við okkur og ég flutti inn til Þorsteins. Tengdafólkið mitt var gott við mig og tók mér vel. Ég var hrædd um að því myndi ekki líka vel við mig, svona lítil og svarthærð. En tengdamóðir mín reyndist mér mjög vel og var alltaf eins og amma barnanna minna eftir að þau komu til Íslands, hún tók á móti þeim eftir skóla og gaf þeim kakó og pönnsur þegar ég var ennþá í vinnunni.“

Heimþrá og sorg
Þorsteinn hafði nýlega keypt fokhelt hús með foreldrum sínum, bændum sem höfðu hætt búskap og bjuggu á eftir hæðinni í fjölskylduhúsinu. Þau Ceniza fluttu í kjallarann þar sem þau hafa búið síðan, í 27 ár en tveir ógiftir bræður Þorsteins búa nú á efri hæðinni eftir að foreldrarnir fóru á vit feðranna. „Ég var frekar óhamingjusöm en ég hafði ekki náð mér almennilega eftir að hafa misst manninn minn og ég var með mikla heimþrá,“ segir Ceniza og bætir við að hún hafi byrjað þarna niðri en síðan hafi andleg heilsa hennar bara verið upp á við. „Það er betra að byrja niðri og fara upp en öfugt,“ segir hún með tilheyrandi handarhreyfingu og brosir.

Íslendingur og Filippseyingur
Þau hjónin Þorsteinn og Ceniza eru bæði ólík í útliti og fasi. Á meðan orkan og kátína streymir frá Cenizu þá er Þorsteinn þyngri, stærri og varkárari. „Myrkrið fer ekki vel í Þorstein,“ segir hún. „Ég er alltaf að hvetja hann til þess að hreyfa sig, fara út að labba.“ Hún kallar til hans úr eldhúsinu: „Elskan viltu gera kaffi handa okkur?“ Það er eitthvað fallegt á milli þeirra og seinna um daginn þá rifjar Þorsteinn upp þessi fyrstu ár í sambandi þeirra. „Ég hefði átt að gera mér grein fyrir ástandinu, ég hefði átt að taka af skarið,“ segir hann eins og ásakandi við sjálfan sig.“

Þorsteinn talar ekki ensku og fyrstu mánuðina voru samskiptin í gegnum litla orðabók. Ceniza var óhamingjusöm og viðutan og ráð Þorsteins var að keyra um landið og sýna henni náttúruperlurnar. Ceniza segir hann hafa farið með sig á alla þessa fallegu staði, „en ég tók ekki eftir stöðunum vegna þess að ég var með hugann annarsstaðar.“ En loksins þegar öllum var ljóst að hún saknaði barnanna sinna fór Þorsteinn á bæjarskrifstofuna og sagði þeim að Ceniza ætti börn og þau þyrftu að koma til landsins. Það voru bræðurnir Ævar og Izaar? Þeir komu fljúgandi með frænku sinni til landsins og byrjuðu í Oddeyrarskóla en eldri börn Cenizu urðu eftir og kláruðu hjúkrunarnám á Filippseyjum.

„Þeir voru fyrstu brúnu börnin í Oddeyrarskóla og krakkarnir voru alltaf að koma við þá af forvitni,“ segir Ceniza. Elsti sonur hennar starfar í dag á slysadeild Landspítalans og dóttir hennar er svæfingahjúkrunarfræðingur í London. En synir hennar sem skóluðust á Íslandi starfa annarsvegar hjá Ikea í Reykjavik og sá yngsti við Háskólann á Akureyri.

Hamborgarhryggur og ríkisborgararéttur
Ceniza byrjaði um leið og hún fékk atvinnuleyfi að vinna í þvottahúsi spítalans á Akureyri. „Ég eignaðist fljótlega vini þar, ég var látin vinna með unglingnum af því að ég var enskumælandi. Unglingurinn hét Helga og ég hélt að verkstjórinn væri að segja mér að vinna um helgar þegar ég átti vinna með Helgu,“ rifjar Ceniza upp og hellir kaffi í jólabolla og dregur fram myndaalbúm troðfullt af myndum með henni og vinnufélögunum í þvottahúsinu við ýmis tækifæri fyrir utan vinnuna. Ceniza talar mjög góða íslensku sem hún þakkar því að Þorsteinn og vinnufélagarnir töluðu yfirleitt litla eða enga ensku og hún var tilneydd til þess að læra málið. Erfiðastar eru beygingarnar og svo eru sum orðin svo löng, eins og hamborgarhryggur og ríkisborgararéttur og Ceniza ber þau fram með tilþrifamikilum og löngum r-hljóðum.

Konurnar með völdin
Þorsteinn segir að ekkert þýði að vera með mótbárur við eiginkonu sína, hann hafi lært það. „Ceniza ræður alltaf að lokum, hún sé vön því eins og konur í Filippseyjum, þær ráða öllu þar, líka fjármálunum, af því að þær vinna innan og utan heimilisins, en karlarnir eru bara úti að skemmta sér,“ segir hann um kynbræður sína í þessu fjarlæga landi. Það er greinilegt að Ceniza er vön því að fá hlutina til að virka, hún framkvæmir og staldrar stutt við en hún er fíngerð og bakvið orkuna leynist viðkvæmni. Þegar Ceniza tekur fram að eiginmaður hennar sé heiðarlegur og góður maður þá dettur manni í hug að hún líti þannig á að það sé heppni.

31024_3-maria-og-sveinn-copy-06
María Bjarnason og Sveinn Bjarnason. Mynd/Alda Lóa

Lífið byrjaði með Maríu
María og Sveinn búa á gömlum sveitabæ í hlíðinni á móti flugvellinumá Akureyri. Sveinn er 85 ára, tuttugu árum eldri en María og bjó á bænum með öldruðum foreldrum sínum þegar María kom til Islands í júní árið 1990. „Það var sumarblíða,“ og veður- og náttúrulýsingar verða ævintýralegri með hennar filippíska hreim. „Það var bara snjór hérna í fjallinu.“ Hún var léttklædd einsog túristi en bara án peninganna. „Frænka mín í Reykjavik náði í mig og sýndi mér Golden Circle. Ég var svo þreytt eftir ferðalagið en það var merkilegt að sjá allt þetta vatn, ég hafði bara séð lítinn foss á Filippseyjum sem var ekkert í samanburði við Gullfoss og Geysi þar sem vatnið sprautaðist upp úr jörðinni.“

Ekki greitt fyrir okkur
Nínu og Aðalstein hitti María á Filippseyjum og þau sögðu henni frá Sveini, hann væri bóndi og vantaði húshjálp. „Sveinn byrjaði að skrifa mér, og ég á ennþá öll bréfin okkar.“ María talar góða íslensku og hún bar saman íslensku bréfin frá Sveini og þýðingar Aðalsteins sem hún fékk sendar og segir það vera alveg kórréttar þýðingar. Það sem truflar Maríu er orðrómurinn og fordómarnir sem breiddist út á tímabili í byggðinni hennar. En sumir sögðu Aðalstein reka hjónabandsmiðlun og fá greitt fyrir að sækja konur handa mönnum í sveitinni. „Það er bara alls ekki rétt.“ segir hún ákveðin.

Örlög okkar
„Sveinn bauð mér til Íslands en ég þurfti fyrst að klára skólaárið við gagnfræðaskólann og fá mig lausa úr kennslunni. Um sama leyti dó bróðir minn, aðeins 50 ára gamall. Konan hans var veik og óvinnufær með 6 börn. Ég hugsaði sem sé að þetta væru örlög mín að fara til Íslands og hjálpa þannig fjölskyldunni minni.“ María var einhleyp og barnslaus en hafði þó tekið barn bróður síns í fóstur. María talar og hreyfir sig hratt um litla bárujárnshúsið sem er einsog filippískur veitingastaður, skreyttur frá lofti til gólfs. Það er meira segja vifta í loftinu sem hefði verið í notkun ef við værum í hitabeltinu á Filippseyjum í stað þess að vera í Eyjafirðinum í desember.

Lífið byrjaði
Sveinn segir lífið hafa tekið miklum stakkaskiptum þegar María kom inn í líf hans. „Hver sá sem hefði spáð því einhverntímann að ég ætti eftir að ferðast um allar borgir Asíu og lifa svona ævintýralegu lífi, hefði verið talinn galinn á sínum tíma,“ segir Sveinn og ljómar þegar hann horfir á eiginkonu sína. „Með Maríu byrjaði lífið og hefur ekki stöðvast síðan.“ Húsið er alltaf fullt af ættingjum hennar. Þau Sveinn gátu ekki eignast börn saman en frænkur og frændur hennar komu eitt af öðru til Íslands í fyllingu tímans fyrir hennar tilstilli og fjölskylda hennar í dag telur um 30 einstaklinga á Akureyri. „Ég er alltaf skotin í henni,“ bætir hann við og þau brosa hvort til annars eins og skólakrakkar.

Hawai-þema á jólunum
Það eru stöðugar veislur, nú er verið að undirbúa jólapartýið á jóladag, en það er siður hjá Maríu að vera með þema á jólunum, Hawai, indjána og kúreka-þema, eða allir klæddir í blátt. „Um síðustu jól vorum við öll í metal, en við eigum eftir að finna þema fyrir þessi jól,“ segir María og upptendrast við tilhugsunina. Sveinn er einkabarn og bjó með foreldrum sínum alla tíð á Brúarlandi sem er lítið bú með nokkrar skjátur og þrjár kýr. Það var siður móður Sveins að slátra einum hana í jólamatinn og fylla hann með ávöxtum, annars var lífið mjög nægjusamt. „Við þurftum ekki rafmagn eða sjónvarp, reyndar í þá daga þurfti maður ekki alla þessa hluti.“

Unglingarnir í Hrafnagilsskóla
María er frá Camtes Island þar sem hún kenndi við grunnskóla í mörg ár. Þegar hún kom til Akureyrar fékk hún vinnu hjá Nóa Síríus í þrjú ár. En þegar verksmiðjan lokaði fór hún að vinna í frystihúsi hjá ÚA og vann þar í sex ár eða þangað til að líkami hennar þoldi ekki lengur nístandi kuldann og hana fór að verkja í liði og bein. „Sveinn var alltaf að hvetja mig til þess að fara að kenna og ég fór í menntamálaráðuneytið og lagði fram skólagögnin mín en við erum með svipað skólakerfi á Filippseyjum og í Bandaríkjunum. Ég fékk leyfi til þess að vera leiðbeinandi og fór og skoðaði mig um í Hrafnagilsskóla en mér leist ekki nógu vel á unglingana. Ég er svo lítil og þau svo stór og ég varð hrædd við þau og óttaðist að verða lögð í einelti. En ég átti samt eftir að kenna.“

Íslensk vinkona Maríu úr frystihúsinu kom að máli við hana og bað hana að kenna syni sínum og koma honum í gegnum grunnskólann. Hann var orðin afhuga öllu námi og móðirin sá fram á að hann myndi falla. María las með honum og hann náði prófunum og síðast þegar María hitti hann var hann orðin verkfræðingur í Reykjavik. En María hefur bæði aðstoðað börn og fullorðna og þá sérstaklega með ensku. Hún var með enskuhópa, fólk sem hittist og spjallaði á ensku og hún hefur í gegnum tíðina verið kölluð til að túlka fyrir Filippseyinga.

Oftast góð hjónabönd
„Ég var heppin með minn mann,“ segir María um Svein. „Hann er bæði heiðarlegur og einlægur. Við höfum búið saman í 26 ár og hann gerir engar athugasemdir þegar ég hjálpa fólkinu mínu á Filippseyjum.“ Þau Sveinn og María segja filippísku konurnar yfirleitt vera í góðum hjónaböndum. Þau vita samt af tveim tilfellum þar sem konur komu í aðstæður sem ekki voru góðar. Fyrstu konurnar sem komu hingað og giftust íslenskum mönnum og lærðu íslensku taka meiri þátt í samfélaginu á Akureyri. En næstu kynslóðir, einsog yngri frændsystkini Maríu sem komu hingað þegar þau voru stálpuð, hafa flest farið út og eignast filippíska maka og þá einangrast þau frá Íslendingum og loka sig af í eigin heimi. „Það er dálítið leiðinlegt,“ segir Sveinn.

María segist hafa dregið úr ferðalögum en hún hafi á árum áður elskað að ferðast um heiminn. Hún taki ekki lengur að sér stærri verkefni eins og þýðingar á námskeiðum og þess háttar vegna heilsufars Sveins. Hún þorir ekki að yfirgefa hann of lengi. Hún vill ekki vita til þess að hann hafi dottið og liggi einhversstaðar hjálparlaus. „Þegar ég fer á styttri fundi eða fer til þess að þýða til dæmis þá bið ég hann að sitja á Glerártorgi og alls ekki hreyfa sig.“

31024_nina-og-adalsteinn2
Nína Munoz og Aðalsteinn kynntust árið 1978. Í dag telst þeim að filippísk-íslenska samfélagið telji um 120 einstaklinga á Akureyri og nágrenni. Mynd/Alda Lóa

Ljósmóðirin Nína og Aðalsteinn
„Þegar ég kom til Akureyrar árið 1978 vorum við aðeins þrjár konur með brúnan hörundslit á Akureyri.“ segir Nína. „Það var horft á okkur, en allt í lagi.“ Nína er ljósmóðir og hefur starfað á sjúkrahúsinu á Akureyri til margra ára og tekið á móti þúsund nýfæddum íslenskum börnum. Nína og Aðalsteinn hafa líka haft óbeina milligöngu um nokkur hjónabönd á milli íslenskra karla og filippeyskra kvenna í gegnum árin. En Nína vill sem minnst gera úr því og segir að hún hafi á endandum ekki kært sig um að vera áhrifavaldur í fleiri hjónaböndum og sagt stopp í þeim málaflokki. Nína átti 11 systkini og átta eru á lífi segir hún og telur upp nöfn þeirra í fingrum sér.

„Ein systir mín vinnur á Landspítalanum og önnur á Eir, þriðja hjá Matfugli í Mosfellsbæ og tvær eru hjúkrunarfræðingar í Noregi. Systir mín sem vinnur á Eir, fór í læknisfræði á Filippseyjum en hún varð ólétt þegar hún átti tvö ár eftir og hætti í námi. Við fórum öll systkinin í háskóla og þau elstu hjálpuðu til og unnu í fjölskyldufyrirtækinu svo að við hin kæmumst í skóla,“ segir Nína. Systkini hennar eru dreifð um allar jarðir í dag og starfa flest í hjúkrunargeiranum í Noregi, Svíþjóð, Ástralíu, Bandaríkjunum og á Íslandi.

Senda peninga heim
Nína starfaði sem ljósmóðir á Filippseyjum áður en hún flutti til Íslands og segir að þar þurfi konan að borga fyrir spítalavistina þegar hún fæðir. Ef konan, hin tilvonandi móðir, á ekki peninga þá þarf ljósmóðirin að gangast í ábyrgð. „Ef ég gat til dæmis ekki lagt út fyrir fæðingu einhverrar móður þá gerðu foreldrarnir mínir það,“ segir Nína. „Það var svo mikil fátækt á Filippseyjum en núna er skárra. En þeir sem læra eitthvað fara til útlanda að vinna og senda peninga heim.“

Gamall „ameríkana“
Nína segir allt í kringum hjúskap og sambúð vera strangara á Filippseyjum en á Íslandi. Fólk býr oft enn heima hjá foreldrum sínum þrátt fyrir að vera komið yfir fertugt ef það er ógift. Hér er þetta miklu frjálsara, ungt fólk flytur að heiman átján ára. „Tengdapabbi var bóndi með kókoshnetur,“ segir Aðalsteinn, „einsog pabbi var bóndi í Aðaldal.“ Kókoshnetubændunum, foreldrum Nínu leist ekkert á Aðalstein í fyrstu. Þeim fannst hann vera eins og gamall „ameríkana„ á ljósmyndinni sem hún sýndi þeim, en hvítir túristar eru gjarnan kallaðir „amerikana“ á Filippseyjum.

„Mamma sagði blátt nei, en pabbi talaði lengi við Aðalstein og féllst á að ég flytti með honum til Íslands. Ég var fyrsta barn foreldra minna sem giftist. Ég ákvað að prófa, kannski væri gott að vinna þarna og ég gæti sent peninga heim. Það var tekin hópmynd og allir svo „sad“, svo leiðir á myndinni.“ En ári seinna þegar systir Nínu giftist til Íslands var aftur tekin hópmynd og þá voru allir kátir og brosandi út að eyrum.

Þetta var brúðkaupsferð
Aðalsteinn segir ferðina til Filippseyja hafa verið brúðkaupsferð, allavega hans. Hann þýddi öll sín gögn og skilríki af því að tilgangur ferðarinnar var að biðja um hönd Nínu. Hann hafði fundið nafn Nínu í norsku blaði yfir pennavini og þau skrifuðust á í eitt og hálft ár áður en hann fór til Filippseyja. „Ég þurfti að hafa allt sendiráðið með mér í töskunni. Löggilda pappíra, vottorð um að ég væri ekki kvæntur.“ Þau Nína eiga í dag saman tvær dætur. Sú eldri býr í Gautaborg, skurðhjúkrunarfræðingur og yngri dóttirin býr á Akureyri, báðar giftar íslenskum mönnum.

Eru Filippseyjar hjá Grænlandi?
„Fólkið í vinnunni vissi ekki hvar Filippseyjar væru og héldu að það væri nálægt Grænlandi,“ segir Nína og brosir mildilega. Langafi Nínu kemur frá Spáni en Filippseyjar voru í 300 ár undir Spánverjum sem nefndu eyjarnar eftir einum af þessum konungum sem heita gjarnan Filippus. Á þessum tíma var mikilvæg verslunarleið frá Mexíco til Asíu, chili, ananas og kakó var meðal annars flutt yfir hafið frá Perú og Mexíko til Maníla, höfuðborgar Filippseyja, og kristniboðar gengu á land og skírðu fólk til kristni. Filippseyjar eru enda eina Asíuríkið þar sem yfirgnæfandi meirihluti íbúa hefur tekið kaþólska trú.

Bandaríkjamenn fengu eyjarnar eftir blóðugt stríð við Spánverja í lok 19. aldar og réðu þar ríkjum allt að seinni heimstyrjöldinni. Bandaríkjamenn hafa meira og minna haldið góðum tengslum við stjórnvöld á Filippseyjum alla tíð. Hin góða enskukunnátta Filippseyinga er afleiðing þessara tengsla. Rodrigo Duterte tók við forsetaembættinu á Filippseyjum á þessu ári. Hann hefur bæði vakið ugg og aðdáun hjá eyjaskeggjum. Hann skar upp herör gegn fíkniefnaheiminum og hefur þegar drepið mörg þúsund manns og hvetur íbúa Filippseyja til þess að drepa eiturlyfjasjúklinga sem verða á vegi þeirra. Hann breytti neyðarsímanúmerinu úr 117 í 911 og hann var fyrstur til þess að óska Donald Trump til hamingju með sigurinn í kosningunum. „Rodrigo er sama týpa og Andrés,“ segir Aðalsteinn.

Kolrugluð tilfinning
Nína og Aðalsteinn eru á leiðinni til Filippseyja um þessar mundir ásamt dóttur vinnufélaga Nínu sem slæst í för með þeim og í þetta sinn ætla þau að dvelja í tvo mánuði í fjölskylduhúsi Nínu. Þangað koma líka systkini Nínu úr hinum heimshornunum reglulega og njóta heimahaganna. Það er gott að vera ellilífeyrisþegi á Fillipseyjum segja Aðalsteinn og Nína en þau gætu aldrei flutt þangað af því að þá myndu þau missa lífeyrinn hér. „Við förum helst ekki til Maníla, þar er allt of mikið af fólki. Það er best að fljúga í gegnum Singapúr og beint til Cebu.“ Nína segir að „family planing“ sé erfið út af hinni kaþólsku menningu og eyjaskeggjar séu orðnir 100 milljónir talsins í dag. Það eru helst þeir sem mennta sig sem bíða með barneignir. „Það er einnig mikið eiturlyfjavandamál á Filippseyjum. Kannski skárra eftir að Duterte tók við, ég vona það bara,“ segir Nina efins. Nína segist alltaf sakna Filippseyja, „alveg kolrugluð tilfinning, af því að þegar ég er þar þá sakna ég Íslands,“ segir Nína og hristir hausinn yfir þessari kolrugluðu tilfinningu.

Alda Lóa Leifsdóttir
aldaloa@frettatiminn.is


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652