Bílferðir eru óhjákvæmilegur hluti af sumarfríinu hjá flestum fjölskyldum. Það getur reynst erfitt fyrir yngstu kynslóðina að sitja kyrr í bílnum til lengri tíma og því getur verið gott að hafa nokkra góða leiki til að grípa í til að stytta þeim stundir. Hér má líta á nokkrar hugmyndir að góðum leikjum sem fólk á öllum aldri getur haft gaman af.
Minnisleikurinn
Hérna reynir á minnið hjá ferðafélögunum. Bílstjórinn byrjar á orðunum „Ég er að fara upp í sveit og ég ætla taka með mér…” og nefnir hann einhvern hlut sem hann vill taka með. Næsti þátttakandi þarf svo að segja alveg það sama og sá fyrri en bæta einum nýjum hlut við listann. Þannig heldur svo listinn áfram að verða lengri og lengri og sá tapar sem er fyrstur til að gleyma einhverju á listanum.
Stafaleikurinn
Fyrst þarf að velja einhvern skemmtilegan flokk, til dæmis dýr, kvikmyndir, mannanöfn eða bílategundir. Veljið svo einn sem byrjar að nefna nafn á einhverju í þeim flokki og sá næsti þarf að nefna annað nafn sem endar á þeim staf sem það fyrra byrjaði á. Dæmi um slíkt gæti til dæmis verið í flokknum dýr þar sem fyrsti aðilinn nefnir orðið „hundur“ sá næsti þarf þá að nefna eitthvað dýr sem byrjar á „r“ þar sem það er síðasti stafurinn í orðinu. Sá aðili gæti þá til dæmis nefnt „risaeðlu“ og svo koll af kolli.
Hver er maðurinn
Leikur sem flestir þekkja og stendur alltaf fyrir sínu. Tveir eða fleiri geta tekið þátt. Einn byrjar á að hugsa sér mann og hinir reyna að komast að því hver maðurinn er með því að spyrja einungis spurninga sem hægt er að svara með jái eða neii. Þegar svarið er fundið kemur að næsta ferðalangi að hugsa sér mann.
Bílalitaleikurinn
Leikmenn velja sér lit og telja svo bílana sem mætt er á veginum í þeim lit. Gott er að velja ákveðin tímamörk eða vegalengd sem leikurinn á að standa yfir. Sá sigrar sem talið hefur flesta bíla í sínum lit.
Frúin í Hamborg
Þátttakendur eru tveir og byrjar annar á því að spyrja hinn: „Hvað keyptirðu fyrir peningana sem frúin í Hamborg gaf þér í gær?“ Sá sem svarar má ekki segja svart og hvítt, já eða nei. Hann þarf að nefna eitthvað sem hann þykist hafa keypt og síðan eiga leikmenn að tala saman um það sem hann segist hafa keypt. Spyrjandinn reynir að fá hinn til að segja bannorðin því þá er hann búinn að vinna leikinn. Til að gera leikinn flóknari má bæta við bannorðum, t.d. „það“. Það er mjög erfitt að nota aldrei „það“ orð í leiknum.
Grámyglur tvær
Störukeppni fyrir aftursætisfarþegana sem felst í því að leikmenn eru tveir og sitja hvor á móti öðrum og horfast í augu. Þeir fara með eftirfarandi þulu:
Horfumst við í augu sem grámyglur tvær.
Sá skal vera músin sem fyrst mælir,
kötturinn sem sig skælir,
fíflið sem fyrst hlær,
folaldið sem fyrst lítur undan
og skrímslið sem fyrst skína lætur í tennurnar.
Síðan hefst keppni þeirra á milli um hvor verður á undan að bregða svip eins og þulan segir til um.
Nærbuxurnar hans afa
Einn er hann í einu og hinir leikmennirnir spyrja hann ýmissa spurninga. Hann á alltaf að svara með því að segja „Nærbuxurnar hans afa“ án þess að brosa eða hlæja. Ef það tekst ekki tekur næsti leikmaður við af honum og svo koll af kolli.
The post Skemmtilegar samverustundir í bílnum appeared first on FRÉTTATÍMINN.