Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Lífið er léttara eftir að ég hætti að kenna

$
0
0

Anna Lára er grunnskólakennari og sagði frá því í viðtali við Fréttatímann í vor að það gengi tæplega upp fyrir hana að starfa sem kennari í bænum verandi einstæð þriggja barna móðir. Endar náðu ekki saman þrátt fyrir þrjú aukastörf, en hún prjónaði meðal annars vettlinga til að safna upp í Spánarferð til að vera við útskrift dóttur sinnar í sumar. Anna Lára fékk vægast sagt sterk viðbrögð við frásögn sinni í vor, meðal annars holskeflu pantana af vettlingum. Hún var að setja síðasta parið í póst í vikunni.

Að skipta um líf
„Það er mjög erfitt að rífa sig svona upp og í rauninni ekki bara skipta um starfsvettvang heldur um líf. Ég ætlaði að þrauka áfram í kennslunni en fékk boð um að taka við þessu starfi á meðan kona sem tengist mér færi í fæðingarorlof. Ég var tvístígandi fyrst og þetta var ekki auðveld ákvörðun. Ég á tvö börn í bænum og var alls ekki viss um að Dagur, 14 ára, vildi fara með mér til Víkur. En svo var hann bara rosalega spenntur og við kýldum á þetta. Hann á tvö ár eftir í grunnskóla og við stefnum á að klára það hér. Hann er ákveðinn í að læra kokkinn í Menntaskólanum í Kópavogi, svo við tökum stöðuna á ný eftir tvö ár. Skólastjórinn minn í Hafnarfirði tók reyndar ekki í mál að leyfa mér að hætta svo ég er í ársleyfi frá störfum þar, en við sjáum bara hvernig þetta fer allt.“

Hér á ég afgang
„Lífið er allt miklu léttara og einfaldara. Mér tókst ekki að láta dæmið ganga upp fyrir sunnan þrátt fyrir að skulda ekki neitt og vinna þrjú störf með kennarastarfinu. En hérna á ég afgang! Það er vissulega færra sem glepur en ég sakna einskis, nema barnanna auðvitað.“ Anna Lára fer tvisvar til þrisvar sinnum í mánuði í bæinn til að hitta eldri börnin sem eru 18 og 25 ára. „Já, ég á gamlan skrjóð og keyri á milli. Mér finnst erfiðast að vera frá þeim, þótt þau séu nánast orðin fullorðin. Ég bara verð að hitta þau reglulega.“

Virkur þátttakandi í krúttlegu samfélagi
Anna Lára er á leigumarkaðnum og alvön að flytja svo það var í sjálfu sér ekki erfitt að gera það aftur. Hún seldi mest af búslóðinni til að koma dótinu fyrir í 45 fermetra bílskúr sem þau mæðgin kalla Kleinukot. Þau una sér vel á nýja heimilinu. „Það er gott að vera hérna. Ég var búin að reikna með bakslagi hjá syninum, að þetta væri nú kannski ekki eins spennandi eftir tvo mánuði en það hefur ekki komið. Það var svo vel tekið á móti honum í skólanum og þetta er fallegt og krúttlegt samfélag. Dagur blómstrar hér. Ég finn það núna hvað þetta er gott og stresslaust líf. Maður verður meiri þátttakandi í svona minna samfélagi en ég þekki smáþorpstilfinninguna vel, verandi Rangæingur, fædd og uppalin rétt hjá Hellu. Ég er mikið náttúrubarn og það eru forréttindi að njóta náttúrunnar á milli vakta í vinnunni. Svo er ég búin að skrá mig í björgunarsveitina og fara á eitt námskeið á vegum hennar og mæta á einn kvenfélagsfund. Ég bíð spennt eftir því að vera tekin formlega inn! Það er ekki nóg fyrir mig að fara bara í vinnuna og heim að prjóna.“

Anna Lára sinnti þremur aukastörfum með kennarastarfinu en náði ekki endum saman. Nú er hún flutt til Víkur í Mýrdal og finnst hún hafa það betra við að vinna á hóteli. Myndir/Rut
Anna Lára sinnti þremur aukastörfum með kennarastarfinu en náði ekki endum saman. Nú er hún flutt til Víkur í Mýrdal og finnst hún hafa það betra við að vinna á hóteli. Myndir/Rut

Kennarastarfið á meiri virðingu skilið
Anna Lára er fegin að vera hætt að kenna þótt hún sakni nemendanna og vinnufélaganna. „Ég sakna margs úr kennarastarfinu en það hefur gefið mér mikið. Ég finn það núna hvað ég er orðin þreytt á kjarabaráttu kennara. Hún hefur staðið yfir allan minn starfsferil og ég sé ekki að það sé að fara að breytast. Ég fylgist vel með en maður verður svo þreyttur á þessu kjarabaráttuumhverfi. Að þurfa alltaf að vera að réttlæta starfið sitt. Mér finnst ávallt svo lítið gert úr fagmennsku kennara, bæði af yfirvöldum menntamála í landinu og almenningi. Það er mikill skortur á virðingu gagnvart starfinu. Það er svo margt í starfsumhverfinu sem ég er fegin að vera laus undan. Mér finnst þessi miðstýring í menntamálum vera búin að drepa niður allt sem heitir sköpun og starfsgleði hjá mér sem kennara.

Munurinn á nýja starfinu og kennslunni er sá að þegar ég var að kenna var ég alltaf með hugann við alls kyns verkefni sem ég þurfti að leysa og sum þeirra tóku mikinn toll af mér. Ég var oft jafnvel andvaka að hugsa um hvernig ég gæti hjálpað barni með náms- eða samskiptaörðugleika, vandamál tengd heimili eða jafnvel grun um ofbeldi. Lausar stundir nýtti ég einnig til að viða að mér kennsluhugmyndum eða gúggla eitthvað sniðugt til að dýpka námsefnið sem verið var að vinna með. Ég var einhvern veginn alltaf í vinnunni. En hérna, þótt það sé brjálað að gera og mikið álag, hugsa ég ekki um vinnuna þegar ég geng út af vinnustaðnum. Launin eru sambærileg og mér finnst þau alveg sanngjörn fyrir vinnuna sem ég er að vinna núna. En þau eru alls ekki sanngjörn fyrir kennarastarfið og allt það álag sem því fylgir.

Þegar ég var að byrja að kenna sagði ég stundum í gríni að ég hefði efni á að vera kennari því maðurinn minn var vélstjóri til sjós. Þetta er bara sorgleg staðreynd í dag. Ég er fráskilin og hef ekki efni á því að vera kennari lengur. Þú getur ekki verið einstæð móðir í kennarastarfinu, það gengur ekki upp. Nema kannski úti á landi þar sem fríðindi í formi húsnæðis geta fylgt. Ég gæti kannski farið að kenna aftur í litlum sveitaskóla, en það væri útilokað á leigumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu.“

Kósíjól á náttfötunum
Anna Lára er nú búin að vera í fimm mánuði í Vík og finnur sig heima. Hún er augljóslega ánægð með þá ákvörðun að taka lífið í sínar hendur og hafa freistað þess að bæta lífsgæði sín og barnanna. Hún hlakkar til jólanna og getur loks haldið eilítið áhyggjulausari jól en í mörg undanfarin ár. Þau verða þó ekki haldin í Kleinukoti heldur í sumarbústað með vinkonu hennar, eins og hefð er orðin. „Síðustu 5 ár höfum ég og vinkona mín, sem er líka einstæð, verið í sumarbústað um jólin. Við erum á náttfötunum öll jólin og förum í heita pottinn og eldum góðan mat. Krakkarnir eru alltaf jafn spenntir fyrir þessu. Við leigjum okkur bústaði hér og þar. Við erum svo öll í eins náttfötum. Í fyrra voru það röndótt flónelsnáttföt en það verður deluxe útgáfan núna, satínsnáttföt með blúndum og slaufum, beint frá Kína. Jólamyndin er alltaf voðalega kósí.“

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir
ritstjorn@frettatiminn.is


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652