Ylfa Helgadóttir hefur staðið í ströngu á aðventunni enda veitingastaðurinn Kopar, sem hún á og rekur, með vinsælustu stöðum borgarinnar.
„Það hefur gengið rosalega vel. Veitingastaðir geta farið tvær leiðir á aðventunni, jólahlaðborð eða jólamatseðil. Við höfum alltaf farið í jólamatseðilinn og reynum að útbúa seðil sem höfðar til allra. Við reynum að vera skilningsrík á gæjann sem vill halda í hefðirnar þó að allir aðrir vilji prófa eitthvað nýtt og erum með purusteikina og laxinn meðal nýstárlegri rétta,“ segir Ylfa en jólamatseðllinn er aldrei eins milli ára.
Ylfa segist aldrei hafa viljað hafa opið á aðfangadag og jóladag og í ár verður ekki breyting þar á. „Ég er kannski svolítið íhaldssöm hvað þetta varðar en ég gæti ekki hugsað mér að vinna á aðfangadag og jóladag svo ég ætla ekki að biðja mitt fólk að gera það.“
Hins vegar verður hægt að koma í mat á gamlárskvöld og þá myndast alltaf verulega notaleg stemning. Þrátt fyrir að flestir séu erlendir ferðamenn slæðast alltaf inn Íslendingar líka sem kjósa að njóta þess að láta elda fyrir sig um áramót. „Við höfum verið með opið á gamlárskvöld frá því við opnuðum og það hefur alltaf verið mjög gaman. Stundum hafa fjölskyldur starfsmanna komið og borðað og þetta er bara mjög notalegt.“
En hvað skyldi kokkurinn borða heima um jólin? Hjá fjölskyldu Ylfu er alltaf borðaður hamborgarhryggur í aðalrétt en forrétturinn er breytilegur milli ára – eftir að Ylfa tók við stjórninni. „Þegar ég fór að læra kokkinn fór ég að pæla í því hvað við borðuðum á jólunum en við vorum yfirleitt með aspassúpu í forrétt – aspassúpu úr pakka, kannski með smá rjóma. En þetta er kannski dálítið undarlegur forréttur á heilagasta deginum. Ég hef því fengið að grúska dálítið í honum gegnum tíðina en er aldrei með það sama. En ég held að ég ætli ekki að fikta í eftirréttinum núna en við erum með sjerrítrifle með ís.“
Aðspurð hvort hamborgarhryggurinn sé með hefðbundnu sniði á heimilinu segir Ylfa svo vera og ekki góð reynsla af því að fikta í. „Ég borða ekki svona mat nema einu sinni á ári, mig langar virkilega í þennan mat þennan eina dag. Einu sinni sá ég uppskrift í Nóatúnsbæklingi að sveskjugljáa og ætlaði að vera rosalega flott á því og prófa það en það gekk ekki. Síðan hef ég bara látið hann vera. Þetta er náttúrulega í grunninn mjög einföld matargerð. Flestir borða bara Ora með alla leið en það flóknasta er kannski að brúna kartöflurnar og gera sósuna. Ég myndi ekki vilja hafa þetta öðruvísi.“
Heldur veganboð í ár
Ylfa reynir að halda eitt boð á aðventunni og í fyrra bauð hún fjölskyldunni í veglegt boð rétt fyrir jól. „Það er alltaf svolítið erfitt að bóka sig á þessum tíma. Í fyrra fluttum við rétt fyrir jól og héldum boð fyrir nánustu fjölskyldu sem var að koma í fyrsta sinn til okkar eftir að við fluttum. Ég vildi að allir sætu við borð og við myndum vera lengi að borða og njóta samverunnar. Við vorum með kaldan hamborgarhrygg og kalt hangikjöt en ekkert heitt meðlæti. Svo vorum við með súpu, baunasalat, flatkökur og graflax. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og ég ætla að gera þetta líka núna rétt fyrir jól,“ segir Ylfa sem ætlar þó að hafa boðið með töluvert ólíkara sniði í ár. „Ég ætla að vera með veganþema í ár, prófa að gera súpu og steikur og þessi salöt með rauðbeðum sem eru svo jólaleg. Það er uppsveifla í þessu í samfélaginu og maður hrífst með,“ segir Ylfa sem óttast ekki viðbrögð fjölskyldunnar en ætlar þó kannski að lauma einum bakka á kantinn með hangikjöti og graflaxi – fyrir afa. „Hann er samt mjög opinn fyrir öllu, myndi kannski spyrja „finnst mér þetta gott“ og ég segi bara já og hann treystir því!“
Ylfa er langt því frá ókunn því að prófa nýjan mat og fjölskyldan öllu vön. Þegar hún byrjaði að fá áhuga á matreiðslu eldaði hún svo mikið að hún bauð fjölskyldunni gjarnan í mat. „Mamma sagði alltaf „þú getur ekki verið að elda eitthvað sem þú hefur ekki eldað áður og vera að fá fólk í mat – hvað ef það heppnast ekki?„ Ég sagði alltaf bara: „Hvað ertu að segja, auðvitað heppnast það.“ – Ég skildi ekki pælinguna um að þetta myndi ekki heppnast! Núna eru allir komnir yfir þetta og treysta mér algerlega.“
Ylfa gefur okkur hér uppskrift að eftirrétti sem þarf að nostra dálítið við en er algerlega þess virði.
Jólakúlan á Kopar við Gömlu höfnina

Súkkulaðimúskúla
3 matarlímsblöð
500 g dökkt súkkulaði
500 g hrásykur – mulin í duft
500 g smjör
300 g eggjarauður
500 g rjómi
1l rjómi
Leggið matarlímið í bleyti. Bræðið súkkulaði sér og geymið. Hitið sykur og smjör upp í ca. 70°C. Blandið rjóma út í, þannig úr verði karamella.
Takið af hita og hrærið eggjarauðum út í. Blandið matarlími saman við og blandið svo súkkulaðinu varlega saman við. Leyfið að standa þar til blandan kólnar aðeins. Þeytið rjóma meðan blandan kólnar. Blandið öllu varlega saman. Sprautið í kúluform eða gerið litla plastfilmu búta, sprautið u.þ.b. ½ dl á bútinn og bindið upp í kúlu. Frystið.
Rifsberjagel
1 kg rifsberjapure
14 g agar
Setjið hvort tveggja í pott og hitið að suðu. Hellið leginum í skál og látið stífna. Tekur u.þ.b. 15 mínútur í kæli. Lögurinn verður að hlaupi og síðan settur í blandara og verður að hlaupi.
Takið kúluna úr frysti og setjið í skál eða á disk og skreytið með berjum og súkkulaðisósu ef vill áður en borið er fram.