Ensa og fjölskylda fengu endanlega neitun frá Útlendingastofnun nýlega og verða þau flutt á brott skömmu fyrir jól, beint aftur til Makedóníu ef ekkert verður aðhafst. Þau vita ekki hvenær þau verða flutt á brott, ekki frekar aðrir hælisleitendur sem þurfa að bíða í von og ótta eftir að fá símtal frá Ríkislögreglustjóra um brottflutning.
Ensa er menntaður leikskólakennari á meðan Zulejhi lærði tannlækningar í Skopia, þar sem þau bjuggu áður. Þau kynntust í enskutíma en bæði tala þau ensku reiprennandi. Þá hefur Ensa lært hrafl í íslensku, enda segist hann hrifinn af íslenskri menningu og sögu.
Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á hjá fjölskyldunni á einum mánuði.
„Það kviknaði í hjá okkur um daginn og við þurftum að fara á spítala vegna þessa,“ segir Ensa en fjölskyldan býr við Hafnargötu, í sama húsi og íslensk kona kveikti eld í og varð til þess að fjöldi íbúa, þar af nokkur börn, þurftu að leita á sjúkrahús vegna reykeitrunar fyrr í mánuðinum.
„Zulejhi datt á leiðinni út og á erfitt með að ganga núna,“ segir Ensa sem bætir við að læknir hafi skrifað vottorð til Útlendingastofnunar, þar sem beðið var um að brottvísun hennar yrði frestað ef hægt væri að koma því við, vegna meiðsla hennar. „Þeir hlustuðu ekkert á það,“ segir Ensa.
Eldur átti eftir að koma aftur við sögu hjá fjölskyldunni, nú af alvarlegri ástæðum. Ungur karlmaður frá Makedóníu kveikti í sér sjálfum í Víðinesi á dögunum, en Ensa frétti fljótt að maðurinn hefði verið nágranni hans í Skopia.
„Ég þekki bróðir hans vel, þannig ég hringdi í hann og lét vita af stöðu mála,“ segir Ensa sem var kunningja sínum innan handa á þessum erfiðu tímum.
„Það var hræðilegt að heyra þessar fréttir. Hann var góður maður,“ segir Ensa um manninn sem lést.
Ensa segist hafa flúið óróleika í Makedóníu og gjörspillta menningu sem viðgengst þar í landi. Hann sagðist hafa ítrekað orðið fyrir árásum fanta sem njóta verndar ríkisstjórnarinnar og vaða uppi og beita fólk ofbeldi án þess að nokkur geri neitt í því.
„Að lokum lenti ég í mjög fólskulegri líkamsárás árið 2013, sem varð til þess að ég endaði á spítala,“ segir Ensa en ástæðan var sú að hann hvatti vini og kunningja til þess að mæta á mótmæli gegn ríkisstjórninni og spillingu í landinu.
Aðspurður hvort Íslendingar skilji ekki til fulls neyð íbúa frá landinu, en Útlendingastofnun hefur skilgreint landið sem öruggt land, svarar Ensa játandi.
„Þarna vaða uppi fantar sem ganga í skrokk á fólki. Einstaklingar eru myrtir án dóms og laga og þessu verður varla lýst öðruvísi en sem landi þar sem þjóðin er kúguð með ofbeldisfullum hætti.“
Athygli vekur að vísa á fjölskyldunni úr landi en stúlkurnar tvær eru báðar fæddar hér á landi. Umboðsmaður Alþingis hefur nú á borði sínu samskonar mál, þar sem kannað er hvort það sé lögmætt að vísa börnum sem fæðast hér úr landi. Í lögum segir orðrétt: „Útlendingi sem fæddur er hér á landi er óheimilt að vísa frá eða úr landi hafi hann frá fæðingu átt hér óslitið fasta búsetu samkvæmt þjóðskrá.“
Vandinn er þó sá að stúlkurnar tvær eru með bráðabirgðaskráningu, sem veldur því að þær eru ekki með búsetu samkvæmt þjóðskrá, þrátt fyrir að þekkja ekkert annað en Ísland.
Valur Grettisson
valur@frettatiminn.is