
Hlín Agnarsdóttir múltíkúnstner
Raddir úr húsi loftskeytamanns eftir Steinunni Helgadóttur: Uppgötvun ársins, nýr og nær óþekktur höfundur stígur fram með áhrifamikla og geysivel skrifaða skáldsögu. Sagan samanstendur af sjálfstæðum köflum og persónum sem allar tengjast innbyrðis. Virðist fyrirhafnarlítið verk á yfirborðinu en undir býr djúp hlustun og skynjun höfundar á mannlífinu.
Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson: Smásagnasafn og fyrsta bók höfundar sem hefur getið sér gott orð sem sviðslistamaður og er einn af höfundunum í leikhópnum Kriðpleir. Friðgeir er launfyndinn maður sem fer ekki mikið fyrir en kann virkilega að horfa á mannlífið og skoða smáatriðin sem stundum verða svo stór.
Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur: Höfundur bregður sér í hlutverk hins skapandi blaðamanns og þefar uppi stórmerkilega konu sem er einhleypur bóndi á Ljótarstöðum í Skaftártungu. Rödd Heiðu er einstök og tungutakið eins og þversnið af íslensku gegnum aldirnar og ekki er barátta hennar fyrir landi og náttúru síðri.
Langbylgja eftir Gyrði Elíasson: Þetta smáprósasafn hlakka ég verulega til að lesa. Ég hef orðið æ hrifnari af Gyrði eftir því sem ég hef lesið meira eftir hann og þar eru bækur eins og Sandárbókin og Suðurglugginn í miklu uppáhaldi. Rödd hans og stíll ná að hreyfa við hugsun og tilfinningum lesandans með einstökum hætti.
Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur: Hlakka til að lesa þessa nýju bók Auðar Övu en ég hef lesið flestar bækur hennar áður. Efni bókarinnar virðist tala beint inn í þá tíma sem við lifum og laskað heimsástandið. Hvernig getum við fundið tilgang og merkingu í stríðshrjáðum heimi og nýtt þekkingu okkar í þágu þeirra sem þurfa á henni að halda?

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur
Sofðu ást mín, eftir Andra Snæ. Hún er einlæg, dimm og björt og fjallar um stóra og litla heiminn, Ísland og kynslóðina sem eldist. Þetta eru smásögur í samfelldu samhengi. Persónuleg bók og Andri skoðar nærheiminn meir en áður. Ég gef þessari bók fimmtíu lóuegg.
Svo eru afbragðs ljóðajól. Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson. Hún er yljandi og sönn, yfirfull af einstökum myndum og sækir á hugann lengi eftir lestur. Bókin er langt og djúpt ferðalag í kjarnann. Það er mikil jarðtenging í ljóðunum, en líka hátt flug eins og Sigurði er einum lagið.
Nýjasta ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Skin, stendur svo sannarlega undir væntingum. Hún er fáguð og nákvæm og skilaboðin tær í víða samhenginu. Mér finnst alltaf tilhlökkunarefni þegar Guðrún sendir frá sér ljóðabók. Hún á mikilvægt erindi við lesandann. Ljóðið læðist oftast hljóðlega í jólafárinu, en finnur sína.
Kött Grá Pé og Perurnar í íbúðinni minni. Hann er óvæntur, djúpur, bjartur og myrkur. Ég heyrði upplestur úr bókinni á dögunum. Aldeilis magnaður texti sem hreyfir við manni. Nýstárleg og fersk rödd í fjölbreyttum ljóðakórnum.
Elsku Drauma mín eftir Vigdísi Grímsdóttur. Saga Sigríðar Halldórsdóttur Laxness. Þarna hræra spennandi manneskjur saman í potti. Vigdís hefur sterka og listræna sögumannsrödd og Sigríður er sjálf mikill sagnameistari. Mér finnst báðar þessar konur hafa erindi sem mig langar að heyra og velta fyrir mér yfir konfektkassa.
Bjarni Harðarson, bókaútgefandi og bóksali í Bókakaffinu á Selfossi
Bókin Sá sem flýr undan dýri eftir Jón Daníelsson á að vera skyldulesning allra sem fylgjast með þjóðfélagsmálum á Íslandi. Bókin dregur hin svokölluðu Geirfinnsmál saman og jafnframt fram að íslenskt réttarkerfi stenst illa skoðun. Þegar saman eru borin dómskjöl og upplýsingar um hluti eins og færð og veður þá daga sem meintir glæpir eiga að hafa átt sér stað hrynur málið allt eins og spilaborg.
Um miðja 20. öld kom út bókin Saga smábýlis eftir Hákon á Borgum við Hornafjörð. Nú hafa afkomendur Hákonar endurútgefið þetta merka rit ásamt öðrum skrifum afans á Borgum sem legið höfðu í handritum. Merk lesning og þörf því hugsjón Hákonar um fegurð og hamingju í hinu smáa á alltaf erindi, sérstaklega við Íslendinga.
Land míns föður eftir Wibke Bruhns er afar forvitnileg nálgun á 20. aldar sögu Evrópu þar sem við kynnumst stríðsrekstri Þjóðverja frá sjónarhorni þeirra sjálfra, sögu þeirra og arfleifð. Höfundurinn er dóttir SS foringja sem gerði ásamt fleiri uppreisn gegn Hitler og var tekinn af lífi 1944.
Af íslenskum skáldsögum sem við í Bókaútgáfunni Sæmundi erum ekki að gefa út verð ég að nefna Fórnarleika eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Álfrún er einn af okkar snjöllustu höfundum og leikur sér lipurlega að því í þessari bók að segja sögu harms og fórna.
Önnur skáldsaga sem hreif mig er bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Skegg Raspútíns. Ég er yfirleitt ekki mjög ginnkeyptur fyrir sjálfsævisögulegum skáldsögum en hér tekst höfundi mjög vel að segja sögu sem tengist hennar eigin ævi og eigin upplifunum án þess að týnast í smásmugulegum naflaskoðunum. Skemmtilega skrifaður texti og athyglisverðar pælingar um fjölmenningarsamfélag í mínum gamla fæðingarbæ, Hveragerði.

Páll Baldvin Baldvinsson, blaðamaður og rithöfundur
Viðar Hreinsson, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Feit og mikil ævi og aldarfarssaga unnin með tilstyrk margra sjóða. Eitt glæsilegasta bókverk ársins og gefið út af fallega fólkinu í Lesstofunni.
Tvær nýjar bækur Gyrðis Elíassonar skálds frá Dimmu eru möst. Langbylgja – smáprósar og Síðasta vegabréfið – ljóð. Hann er eini maðurinn sem réttlætanlegt er að safna nú um stundir. Hann er allra átta og allra tíma.
Hafbókin eftir Morten Ströksnes hinn norska. Hákerlingin eða hákarlinn eins og við köllum hann oftast í seinni tíð fær flotta bók um sig í glæsilegri þýðingu, sannkölluð hákarlalega á miðum sem við eigum nú aldeilis að þekkja eftir áttæringa okkar feðra og mæðra fyrir austan, vestan og norðan.
Nú vandast valið: Geirmundargeim eða Látra-Björg Hermanns? Hugsa ég halli mér bara að nýrri ljóðabók Guðrúnar frænku minnar Hannesdóttur: Skin.

Anna Gyða Sigurgísladóttir, útvarpskona á RÚV
Af ljóði ertu komin eftir Steinunni Sigurðardóttur. Uppáhalds ljóð mitt í bókinni byrjar á setningunum: „Af því að ekkert gerist um leið og það gerist, er lífið samsett úr andartökum sem við missum af“. Tilfinningaþrungnar heimspekilegar hugleiðingar Steinunnar eru eitthvað sem heillar mig ávallt í skrifum hennar. Ljóðin fjalla einhvern veginn alltaf um eitthvað miklu stærra og miklu meira en hana sjálfa – eins konar heimspekileg lögmál tilfinninganna.
Líkhamur eftir Vilborgu Bjarkadóttur. Örsögur eru form sem heillar mig mjög. Ég las þetta örsagnasafn fyrir stuttu og hugsa enn um það. Í nokkrum setningum skoðar höfundur hvernig líkaminn mótar skynjanir okkar, tilfinningar og minningar. Sögurnar ná að draga fram mynd af aðstæðum sem við könnumst við, tilfinningum sem við öll þekkjum og gott er að láta minna sig á.
Útsýnið úr fílabeinsturninum eftir Hrafn Jónsson.: Pistlasafn Hrafns Jónssonar. Samfélagsleg ádeila hans, satíran, er mannleg, viðkvæm og tengjanleg. Ég hef nú lesið fyrstu fimm og hlegið upphátt í hverjum einasta. Þetta er bók sem ég hef ákveðið að klára ekki í einum rykk en eiga þess í stað, eins lengi og mögulegt er, pistil inni til að minna mig á oft og tíðum fáránleikann í háalvarlegum og dramatískum kringumstæðum og stjórnmálaaðstæðum okkar Íslendinga.
Að heiman eftir Arngunni Árnadóttur. Ég hef aðeins heyrt góða hluti af þessu verki og því ákveðið að veita því alla mína athygli í jólafríinu. Ég veit í raun ekkert við hverju má búast en lýsingin „einstök kynslóðarsaga frá Íslandi ferðamennsku og eftirhruns“ gerir mig spennta.
Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud í þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar. Ég hef enn ekki kynnt mér ljóðlist Rimbauds en verið dolfallin af dullarfullu lífi hans sem tók því miður enda of fljótt. En ég er spennt að byrja Rimbaud tímabilið á helstu ljóðaverkum hans í þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar.

Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og verkefnisstjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða
Hvítsvíta eftir Athena Farrokhzad (þýð. Eiríkur Örn Norðdahl). Magnaður ljóðabálkur sem talar beint inn til okkar tíma um leið og hann hefur sögulega dýpt og landfræðilega breidd. Bókverkið sjálft, hvítt letur á svörtum bakgrunni, skapar sérstaka lestarreynslu. Allt of lítið er gefið út af Norrænum samtímabókmenntum á Íslandi en hér er komin mikilvæg bók sem á erindi við okkur.
Blómið – saga um glæp eftir Sölva Björn Sigurðsson. Áhugaverð fjölskyldusaga með vísindaskáldskaparívafi. Sölva tekst að spinna saman á áreynslulausan hátt raunsæislegum þráðum fjölskyldusögunnar og fantastískum þráðum vísindaskáldskapar. Atvikið sem undirtitillinn vísar til drífur svo lesturinn áfram og gerir söguna spennandi.
Að heiman eftir Arngunni Árnadóttur. Ég er mjög spenntur fyrir þessari fyrstu skáldsögu Arngunnar Árnadóttur. Í fyrstu bók sinni Unglingum sýndi hún frábær tök á snörpum stíl smáprósa eða prósaljóðs. Það er því tilhlökkunarefni að lesa þessa nýju bók sem er gefin út af kröftugu grasrótarforlagi.
Fórnarleikar eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Ný bók eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur er alltaf stórviðburður í íslenskum bókmenntum. Álfrún er einfaldlega einn allra fremsti höfundur okkar og hefur einstök tök á bæði formi og stíl. Þessi bók verður geymd fram á aðfangadagskvöld.
Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson. Þetta stórvirki, sem gefið er út af litlu grasrótarforlagi, hlýtur að sæta tíðindum. Ég hlakka til að kynnast Jóni lærða betur í gegnum verkið. Það sem gerir bókina mest spennandi er að fá betri innsýn í samtíma Jóns og heimsmynd hans, sérstaklega samband mannsins við náttúruna sem titillinn vísar til. Þetta síðastnefnda held ég að eigi fullt erindi við okkar tíma.

Eiríkur Guðmundsson, rithöfundur og útvarpsmaður
Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar. Þessi verk eru mikilvæg. Stafróf vestrænnar nútímaljóðlistar. Að þau skuli birtast á íslensku nú með jafn fínum hætti, ómetanlegt.
Ismail Kadare: Hershöfðingi dauða hersins, í íslenskri þýðingu Hrafns E. Jónssonar. Stríðum er ekki lokið þótt þeim ljúki. Þeim lýkur aldrei. Þessi bók fjallar um það. Blautar grafir í Albaníu eiga hér stefnumót við tannlæknaskýrslur og drykkfelldan hershöfðingja sem bugast. Kadare loksins kominn á íslensku, reyndar 25 ára gömul þýðing sem ekki fékkst útgefin fyrr, það segir nokkuð um íslenskt bókmenntalíf almennt.
Steinunn Sigurðardóttir: Af ljóði ertu komin. Ný bók, og þá meina ég ný. Inniheldur besta ljóð ársins og þótt víðar væri leitað, og óstöðvandi gufuskipið Sorg leysir hér festar. Mjög vel heppnað.
Sjón: CoDex 1962. Þrjú verk í einu bindi. Verk sem þessi merki höfundur ætlaði sér áreiðanlega alltaf að skrifa. Sköpunarsaga, upprunasaga, og beitt ádeila á tilveru okkar í nýju lýðveldi, skrifuð með aðferðum skáldskaparins frá öllum tímum.
Þorsteinn frá Hamri: Núna. Og samt / er svo margt fallegt. / Þar á meðal / þessi orð. / Og þú / að segja þau.
Ingi F. Vilhjálmsson
ingi@frettatiminn.is