Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Matarvölvan 2017: Blómkálið verður stjarna ársins

$
0
0

Þennan síðasta mánuð ársins hafa matarspekúlantar víðs vegar um heim spáð því sem koma skal á nýju ári í matarmenningu. Það sem allir eru algjörlega sammála um er að árið 2017 verður ár jurtaríkisins.

jurtarikid

Undanfarin ár hefur grænmetið tekið æ meira pláss í hillum stórmarkaða og á matseðlum veitingastaða en á næsta ári mun grænmetið allsstaðar verða í algjöru aðalhlutverki. Hér með tilkynnist það að tíð grænmetis sem meðlæti dýraafurðanna er liðin. Það þýðir samt ekki að allir kokkar gerist grænmetisætur eða verði vegan og að við þurfum öll að verða það, heldur að grænmetið mun taka við aðalhlutverki kjötsins á disknum. „Flexitarian“ er orð sem við munum heyra mikið af á árinu, en það er manneskja sem er mestmegnis grænmetisæta en borðar kjöt einstaka sinnum, og þá kjöt sem kemur af býli en ekki úr verksmiðju. Hluta þessara róttæku breytinga, sem hafa verið að gerjast undanfarin ár, má rekja til aukinnar meðvitundar um verksmiðjuframleidd matvæli, ekki bara vegna áhrifa á heilbrigði og velferð mannskepnunnar heldur líka dýra og jarðarinnar allrar.

Nýjir kjötskurðir og hægeldun

nyjir-skurdir

Önnur afleiðing aukinnar meðvitundar um verksmiðjuframleiðslu er sú að fókusinn verður settur á kjötmenningu. Kjötið mun taka sér aukið rými í formi heimagerðra afurða, nýjum skurðum og gamalgrónum uppskriftum sem hafa fallið í skuggann af fitusnauðum lífsstíl síðustu ára. Ef þessi bylgja nær til Íslands munum við kannski sjá kjötborð á ný í verslunum þar sem hægt verður að biðja um sérstaka skurði af dýrinu, á mun hagstæðara verði en til dæmis hina klassísku lund. Bitar á borð við frampart, háls, bóg, bringu eða síðu, eru mun ódýrari en alls ekki síðri ef fólk gefur sér tíma til hægeldunar. Hægeldun og marínering, eða réttara sagt það að gefa sér tíma til að elda, verður einmitt annað af matartrendum næsta árs.
Blómkálið verður stjarna ársins

gettyimages-79560938

 

Það eru alltaf einhver hráefni sem skína skærar en önnur og kokkar helstu matarblaða heims eru sammála um að stjarna næsta árs verði grænmeti sem hefur aldrei verið í sviðsljósinu áður; blómkálið.
Blómkálið er nú þegar byrjað að læðast inn á matseðla en þegar líða fer á árið verður það alveg búið að taka sess grænmetis sem hefur verið áberandi á liðnu ári, eins og grænkáls, avókadós og rauðrófa. Vinsældir avókadós hafa reyndar verið svo miklar á liðnu ári, ekki síst á hipsterastöðum í Bandaríkjunum, að einn helsti matargagnrýnandi vestanhafs sagði að fengi hann eina ósk varðandi mat á næsta ári yrði hún að útrýma rándýrum avókadobrauðsneiðum af öllum matseðlum.
Hér á landi þekkjum við blómkál helst í blómkálssúpu en auðvitað er fjöldi leiða til að elda það. Það hefur hingað til ekki verið ofarlega á listum heilsu-gúrúa en það er nú samt sem áður stútfullt af trefjum, fólíni og c-vítamíni og þar að auki er mjög auðvelt að rækta það á Íslandi.

Skordýr

skordyr

Skordýr eru stór hluti af matarmenningu fjölda þjóða og hafa hægt og rólega verið að læðast til Vesturlanda. Skordýramjöl og pasta úr skordýramjöli er umhverfisvænn og próteinríkur valkostur fyrir þá sem vilja ekki neyta kjöts en samkvæmt matarspekúlöntum munum við fara að sjá meira af heilum skordýrum á matardiskunum. Ekki verður heldur langt að bíða þess að hægt verði að panta pönnukökur úr skordýramjöli á hvaða veitingastað sem er.

Viðarkolakokteill

kola

Eitt óvæntasta tískutrend ársins verða viðarkol. Þeir sem kjósa að grilla með kolum frekar en gasi vita að kol gefa bragð en það er ekki bara bragðið sem gerir kolin vinsæl á árinu, heldur líka heilsubætandi eiginleikar þeirra. Viðarkol hafa löngum verið þekkt fyrir afeitrandi eiginleika og hafa til dæmis verið notuð gegn matareitrun. Þau eru líka notuð til að hvítta tennur og sem meðal við timburmönnum. Ekki verða hissa ef þú sért viðarkolakokteil á barnum þegar líða fer á árið.

Minni sóun og meiri hagsýni

hiemagerd-pulsa

 

Hluti af sókn heimagerðra afurða, hvort sem það er í pylsu- og skinkugerð, niðursuðu eða frystingu má rekja til aukinnar áherslu á að minnka matarsóun. Það að nota bita af kjötinu sem hraðneyslusamfélagið hefur hent síðastliðin ár, líkt og hefur verið gert við mat sem stenst ekki útlitskröfur, er ein leið til að minnka sóun og auka hagsýni. Veitingahús munu á nýju ári leggja mikla áherslu á að elda upp úr því sem hingað til hefur farið í ruslið og matvælaframleiðendur munu í auknum mæli sýna samfélagslega ábyrgð og þróa vörur í sátt við umhverfið.

Alvöru pítsa

Simple stock food images on a dark background.

Að fara aftur til upprunans og einfaldleikans verður vinsælla og klassísk eldbökuð ítölsk pítsa úr góðum hráefnum með einni áleggstegund er ein birtingarmynd þess. Hipsterapítsustaðir þar sem súrdeigspítsur með rauðrófum ráða ríkjum munu víkja fyrir heimilislegum og einföldum stöðum með rauðköflóttum dúkum og engum stælum.

Þjóðleg matreiðsla

Portúgalskar vanillukremskökur
Portúgalskar vanillukremskökur

 

Þeir sem voru hræddir við að alþjóðavæðingin myndi þurrka rótgrónar matarhefðir út geta slakað á því þær hafa aldrei verið vinsælli. Við munum sjá norræn brauð, kúbanska pottrétti, mexíkósk takó og rússneskar súpur í fáguðum útgáfum á fínum matseðlum árið 2017.
Innan í heimagert takó úr rauðum maís verður hægeldaðari nautasíðu eða mauksoðnum svínabóg blandað saman við heimaræktað salat og spænskt hvítlauksmæjónes og á eldbökuðu súrdeigsbrauði frá Þrándheimi verður villtur lax úr Fljótunum í stað eldislax frá Noregi. Matur frá Portúgal og Filippseyjum verður það allra heitasta á árinu.
Gerjaður matur

gettyimages-495059353

Gerjaður matur verður ein af stjörnum ársins svo ekki láta þér bregða ef súrsaðar gúrkur, kóreskt kimschi eða þýskt sauerkraut fer að poppa upp á matseðlum bæjarins. Sé grænmetið súrsað með hefðbundnum aðferðum myndast í því bakteríur og mjólkursýrugerlar sem eru nauðsynlegar fyrir þarmaflóruna. Gerjun hefur verið notuð í öllum heimshlutum til að súrsa grænmeti, og halda um leið lífi í manninum, en auk þess til að búa til áfengi, brauð, mísó, tófú, osta og jógúrt svo eitthvað sé nefnt.

Peningarnir renna í matarbransann

Fjárfestar í sílíkondalnum í Kaliforníu horfa í sífellt meira mæli til sprotafyrirtækja í matariðnaði og þangað mun mestallur þeirra peningur fara árið 2017, samkvæmt viðskiptablaðinu Forbes.
Það sem helst er verið að fjárfesta í er sjálfbær framleiðsla og tímasparnaður:
-Heilsumatvæli úr sjálfbærri framleiðslu, mestmegnis úr hnetum, grænmeti og skordýrum.
-Heimsendingaþjónusta frá veitingahúsum.
-Matvælasendingar fyrir starfsmenn fyrirtækja.
-Heimsendingar beint frá býli.
-Heimsendingar á hráefni í rétti, líkt og Eldum rétt á Íslandi.
-Matvæli, heilsu og snyrtivörur út kannabis, en kannabis hefur nú verið lögleitt í níu ríkjum Bandaríkjanna, og í 21 einu ríki er það löglegt í lækningaskyni.

Það sem við losnum blessunarlega við árið 2017:
-Avókadó. Í öllum sínum myndum, líka ristaðar brauðsneiðar með einni avókadósneið og kálblaði á rándýrum hipsterakaffihúsum.
-Grænkál. Grænkál er ágætt en ekki svo gott að það verðskuldi að vera í öllum réttum, hvað þá að taka við af kartöflunni sem uppistaðan í snakki.
-Rauðrófur. Þetta ágæta grænmeti er og hefur verið ein helsta uppistaðan í rússneskri matargerð og á sínar góðu stundir, eins og til dæmis í Borch-súpunni, en það er eins og íslenskir kokkar hafi verið að uppgötva tegundina, slík hefur innkoma hennar verið í íslenskum eldhúsum síðustu ár. Nú er nóg komið.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652