Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Leikdómur um Óþelló: Úrkynjað pakk í plasti

$
0
0

Jólasýning Þjóðleikhússins, sem er auglýst sem sýning á Óþelló Shakespeares, hefst á því að Ingvar E. Sigurðsson birtist á sviðinu á nærbrókinni einni saman með exi í hendi og heggur niður stórt grenitré, jólatré. Það hefur staðið góða stund eitt á miðju sviði, baðað ljósum og ómum, áður en atgangurinn byrjar. Ingvar er tiltölulega snöggur að þessu, stofninn er ekki sver þótt tréð sé meira en tveggja mannhæða hátt. Sem betur fer fellur það inn á sviðið, en ekki út í salinn.

Ekkert Sjeikspír-drasl
Nú veit ég svo sem ekki hvað þetta á að fyrirstilla frekar en margt annað í þessari furðulegu uppsetningu. Svona tré getur táknað margt. Það getur verið lífstréð og sem jólatré (að vísu án skrauts) gæti það staðið fyrir allt sem við höldum með einhverjum hætti heilagt. Mér dettur helst í hug að Gísli Örn Garðarsson, eini höfundur þess sem hér fer fram (Shakespeare er alsaklaus af því) sé að reyna að segja eitthvað í þessa veru: Það sem þið, hæstvirtir áhorfendur, eigið í vændum og hafið keypt ykkur inn á er ekki neitt gamaldags Sjeikspír-drasl því ég er framúrstefnuleikstjóri og nú ætla ég að brytja leikrit Shakespeares í spað eins og allir sannir framúrstefnuleikstjórar – og mér er skítsama þó að ég eyðileggi jólin fyrir ykkur sem eruð svo vitlaus að halda að ég geri ekki nákvæmlega það sem mér sýnist.

Í drullu og skít
Og Gísli Örn gæti haldið áfram eitthvað á þessa leið: Já, nú er ÉG sloppinn inn í helgustu vé íslenskrar leiklistar, af því að ég er orðinn svo frægur í útlöndum að ég get fengið að gera hvað sem ég vil, Ari segir ekki neitt, hann myndi aldrei þora að banna MÉR neitt. Ég get látið leikarana veltast um í drullu og skít í þrjá klukkutíma, háttað þá og látið þá arga og garga, gera stykkin sín, ég get fært kalla í kvenföt, látið konur leika kalla; já, ég kem með ný og ný trix í allt kvöld: stropljós þarna, slómó hér, diskó á einum stað, myndastyttuleik annars staðar; svo hef ég með svona “meta-teater”, því það gera allir avanseraðir leikstjórar sem ég hef séð í útlöndum þar sem heimsfrægðin bíður mín. En ég er líka mjög prógressífur og félagslega meðvitaður, þess vegna smelli ég á einum stað inn frumsaminni predikun á móti rasisma, auðvitað er ég líka á móti kvennakúgun, ekki það ég haldi þetta hafi neitt að segja eins og ´68-kynslóðin hélt, nei nei, leikhúsið breytir engu, ekki nokkrum sköpuðum hlut, þið getið bara tekið þetta, ef ykkur sýnist, sem kveðju til ´68-liðsins sem er nú sem betur fer búið að moka út úr leikhúsinu (eins og það henti út kynslóðinni á undan því) og á leið á elliheimilin (sem ég gerði einu sinni lítinn sætan söngleik um, þið hljótið að muna eftir honum, hann var jafn frábær og allt sem ég geri). Því nú höfum VIÐ tekið völdin, við sem erum ung og fersk, en umfram allt hip og kúl, já ef ég er eitthvað – sem ég er svosem ekkert viss um að ég sé – þá er ég hip og kúl.

Oní útikamarinn
Og hinn ungi (reyndar bráðum hálffimmtugi) og ferski meistari leikhústöfranna lætur dæluna ganga: Já, og svo passa ég upp á að sjokkera smáborgarana, því ég er ekkert að láta þetta sem þeir kalla smekklegheit þvælast fyrir mér, ég geri til dæmis grín að alkóhólistum og AA eins og ekkert sé, og svo – já svo geri ég dáldið sem enginn hefur áður gert í Þjóðleikhúsinu, ég dýfi Ingvari á kaf oní útikamar og læt hann vafra um ataðan brúnni sósu, svo ykkur langar mest að gubba, pempíurnar ykkar, en mér er sama, við í Vesturporti höfum nóg klapplið sem æpir og stappar svo hátt í salnum að þið munuð ekki þora annað en standa upp og hrópa húrra, forsetinn líka. Og svo pakka ég öllu heila klabbinu inn í risa-plastumbúðir, sal og sviði (af því við lifum í svo plöstuðum heimi, ég hef skrifað um það í leikskrána, ég er svo mikill umhverfissinni) og það hefur heldur enginn gert áður í Þjóðleikhúsinu og ég fæ að gera allt sem ég vil í Þjóðleikhúsinu, sama hvað það kostar, Ari segir ekki múkk, ekki við mig sem er rétt að verða heimsfrægur í Stóra-Bretlandi, hann opnar bara veskið, ég læt Börk sjá um plastið (það er bara besta fólkið sem fær að vinna fyrir mig), og þetta verður upplýst mjög estetískt og svo massa ég þetta með flottri músík úr græjunum (ég get vel verið svít og melló ef mér sýnist) – já það er sko eins gott fyrir ykkur að standa upp í leikslok, hrópa húrra og klappa fyrir mér. Fyrir MÉR.

Vörusvik í Þjóðleikhúsinu
Einhvern veginn svona gæti hún hafa hljómað, greinargerðin fyrir sýningunni sem Vesturportarinn hefði átt að skrifa í leikskrána. Því miður hefur hann sleppt því sem er út af fyrir sig skiljanlegt; þetta er einungis enn eitt flippið, enn ein skrumskælingin á verki eftir Shakespeare sem tvö aðalleikhús þjóðarinnar hafa trakterað okkur nokkuð reglubundið á síðustu tuttugu árin eða svo. Og ekkert nýtt í því, nema helst óvenju stór skammtur af sora sem leikstjórinn leggur til frá eigin brjósti. Leikrit Shakespeares er að vanda skorið niður, tætt í sundur svo ekkert er orðið eftir af dramatísku samhengi eða mótsetningum (sem skáldið notar alltaf á afar markvissan hátt), persónum er hent út eftir geðþótta, persónum bætt við og þær sem eftir standa afskræmdar.

Hinn sögulegi rammi verksins, Feneyjar í baráttu við veldi Tyrkja, er klipptur út og af hinu magnaða lokaatriði leiksins þar sem hvað rekur annað: morðið á Desdemónu, afhjúpun Jagós og sjálfsvíg Óþellós, er ekkert eftir nema átakanleg slitur. Í leikritinu er Jagó neyddur til að játa verknað sinn frammi fyrir fulltrúum feneyskra stjórnvalda; hér kjaftar hann sjálfur öllu í Óþelló þegar hann hefur kálað konu sinni – þeir eru einir á sviðinu – með þeim afleiðingum að Óþelló tryllist, lemur hann, en hættir við að drepa hann og hengir þess í stað sjálfan sig í rauðum borða sem hann bindur við rimla í rúmgaflinum (sverð og hnífar eru að vonum útlæg úr svo tímalausri sýningu). Þetta er svo ámátlegt og kauðskt að maður nánast blygðast sín fyrir hönd leikstjórans að þurfa að horfa upp á það.

Það er lágmarkskrafa til Þjóðleikhússins að kynna önnur eins ósköp og þessi sem hugverk leikstjórans. Það svíkst leikhúsið um og selur því enn og aftur svikna vöru þeim áhorfendum, sem hafa keypt sig inn í von um að kynnast og njóta listar Shakespeares. Það er EKKI nóg að í leikskrá standi með litlum stöfum og daufum svo vart er læsilegt að hann hafi samið „leikgerð“ – sem getur raunar merkt hvað sem er.

Afskræmdar persónur
Engin persóna vekur hér áhuga eða samúð. Þetta er allt saman úrkynjað pakk í plasti. Óþelló er búralegur öskurapi. Óþelló Shakespeares er svartur á hörund, gæti jafnvel verið afrískur blökkumaður (sem Laurence Olivier gerði hann í frægri sýningu), en Ingvar er á litinn eins og rjómakaffi; hann gæti í mesta lagi hafa legið fulllengi inni á sólbaðsstofu. Ég efa raunar að Ingvar hefði ráðið vel við hlutverk Óþellós, jafnvel undir vitrænni leikstjórn; textameðferð Ingvars er ekki hans sterka hlið og sjaldan hrífandi, en hlutverkið eitt hið best skrifaða í öllum verkum Shakespeares, fullt af magnaðri póesíu sem einungis texta-meistarar á borð við Arnar eða Hilmi Snæ geta komið til skila. Það er synd að Arnar skuli aldrei hafa fengið tækifæri til að leika Óþelló – og svei mér ef hann gæti ekki enn plumað sig í honum, rúmlega sjötugur, því að aldur Óþellós er óráðinn og Arnar hefur haldið sér vel. Og röddin enn ung, þróttmikil og full af blæbrigðum, eins og við heyrðum nú síðast í Horft af brúnni.

Desdemóna, ein glæsilegasta kvenlýsing Shakespeares, er súludansmær og dræsa. Hún er leikin af ungri nýútskrifaðri leikkonu, Aldísi Amah Hamilton; það er sjálfsagt hæpið að dæma hana eftir frammistöðu við slíkar aðstæður, en leikur hennar var sannarlega ekki mikið til að hrópa húrra yfir. Engar tilfinningasveiflur sem er hægt að trúa á, ekki heldur þegar Óþelló myrðir hana. Hún verður aðeins svoldið reið, en aldrei særð eða hrædd. Það er augljóst að Aldís Amah hefur enga persónuleikstjórn fengið, enda hefur leikstjórinn eflaust haft nóg að hugsa um umbúðirnar, plastverkið sem umlykur þetta allt, og lítið mátt vera að því að sinna leikurum.

Hreinleiki Desdemónu er jafnstórt atriði í leik Shakespeares og illska Jagós, eins og ég tæpti á í smágrein sem ég skrifaði hér í Fréttatímann fyrir jól. Það er því afar sérkennilegt að sjá leikkonuna stíga fram, klædda í mellulega glimmer-korselettu, og flytja frumsamið samtal hennar og “Jagós” um kvenréttindi!! Því ef eitthvað er hægt að lesa út úr þeirri mynd af persónunni, sem er hér dregin upp, er það kvenfyrirlitning. Í Óþelló lýsir Shakespeare hlutskipti giftra kvenna fyrri tíma, undirokun þeirra og vanmætti í hjónabandinu, af næmi og samúð sem vart á sér hliðstæðu í öðrum verkum hans, hvað þá annarra skálda. Margar helstu kvenlýsingar hans eru stórbrotnar konur, konur sem hafa jafnvel þor og burði til að rísa gegn stöðu sinni í samfélagi stýrðu af körlum. Og konur hans sýna engu minni siðferðisstyrk en karlarnir, ef nokkuð er meiri, þurfi þær að mæta beiskum örlögum eða dauða. Desdemóna er besta dæmið um þetta, en það er einnig hægt að benda á Rósalind, Kleópötru, Kordelíu, Imogen, Hermíónu og Katrínu af Aragon.

Kassíó í útgáfu Gísla Arnar er klæðskiptingur og vappar góða stund um sviðið á brókinni einni saman í netnælonsokkum (sýndist mér úr sæti mínu á níunda bekk sem er aftar en svo að maður geti verið viss um öll smáatriði). Arnmundur Ernst Bachmann hefur sýnt og sannað, nú síðast í Djöflaeyjunni, að hann er eitt af bestu leikaraefnum sinnar kynslóðar; hæfileikum hans er misboðið með slíkri meðferð, en við verðum að vona að leikhúsið hafi í framtíðinni vit á að bjóða honum þroskavænlegri verkefni.

Jagó er leikinn af eiginkonu leikstjórans, Nínu Dögg Filippusdóttur. Nína Dögg hefur sést í tveimur stórum dramatískum hlutverkum á sviði Þjóðleikhússins að undanförnu, en hvorugu náði hún að gera minnisverð skil. Hér kemur best í ljós hversu takmörkuð raddbeiting hennar og textameðferð er; tónninn einhæfur, áherslur á stundum rangar, textinn einatt höggvinn einkennilega sundur, auk þess sem hún á til að buna honum út úr sér svo hratt að vart verða greind orða skil. Hvaða hugsun er á bak við þessa hlutverkaskipan er mér fullkomlega óskiljanleg. Gísli Örn hefur stært sig af því að þetta sé í fyrsta sinn sem kvenmaður leikur Jagó, en það er rangt af tveimur ástæðum: í fyrsta lagi hefur kona áður leikið Jagó – og í öðru lagi á sá Jagó sem þarna er sýndur jafnlítið skylt við persónusköpun Shakespeares og önnur skrípi á fjölum leikhússins.

Ólafur Egill Egilsson vingsast um sviðið með gamalkunnum kippum og rykkjum. Hann fer ekki með neitt sérstakt hlutverk, en fær að tína upp eitt og annað smálegt héðan og þaðan, svo sem leifar úr hlutverki Emilíu, konu Jagós, sem hefur eðlilega verið strikað út (Emilía er raunar einnig meðal betri kvenhlutverkum skáldsins). Ólafur hefur verið með í Vesturports-familíunni frá upphafi, ef ég man rétt, og væntanlega hefur Gísli ákveðið að leyfa honum að hoppa um borð, svona upp á gamlan vinskap.

Eini maðurinn sem þarna sýnir eitthvað sem kalla má leiklist er Björn Hlynur Haraldsson. Hann býr til kostulega fígúru úr föður Desdemónu (og öðru blandi leikstjórans), og gerir það svo listilega að hann er nánast óþekkjanlegur í byrjun. Hann fer einnig mjög vel með textann. Og vitaskuld hefði hann átt að leika Jagó. Björn Hlynur á til að virka fremur kaldur á sviði, eins og hann nái ekki almennilega til hinna dýpri og hlýrri tilfinninga, en það er kostur í hlutverki Jagós sem er ískaldur og slóttugur í senn.

Ólíkar undirtektir
Þjóðleikhúsið hafði að þessu sinni þann hátt á að frumsýna í tvennu lagi – eða hvað á að kalla það: kvöldið fyrir Þorláksmessu var hin eiginlega frumsýning; þá mætti forsetinn og slatti af þeim fínimönnum sem gjarnan láta sjá sig á frumsýningum. Á kvöldi annars í jólum var svo eitthvað sem leikhúsið kallaði „hátíðarsýningu“; þar voru heldur færri fyrirmenn sýndist mér (borgarstjórinn þó þar á meðal) en öllu meira af leikhús- og listafólki. Í bæði skiptin tók þjóðleikhússtjóri sjálfur á móti gestum (nokkuð sem tíðkaðist aldrei fyrr en Tinna tók það upp eftir Magnúsi Geir sem byrjaði á því í Borgarleikhúsinu) og bauð upp á sama freyðivínið og Nóa-konfektið.

En undirtektir sýningargesta á þessum tveimur sýningum voru áberandi misjafnar. Á „frumsýningunni“ var klappliðið auðheyrilega mætt og þá var æpt og hóað og risið úr sætum. Andrúmsloftið á „hátíðarsýningunni“ var mun kuldalegra og klappið í lokin kurteislegt en laust við allan innileika. Ég hef heyrt daufara klapp á frumsýningum Þjóðleikhússins, en ekki oft. Í þetta skipti náði ég að fylgjast svolítið með viðbrögðum annarra leikhúsgesta á meðan á sýningunni stóð, og þau voru ekki lífleg. Einstaka maður geispaði, aðrir laumuðust til að líta á klukkuna, margir sátu sem frosnir. Ég er hræddur um að undirritaður hafi ekki verið sá eini sem fannst keisarinn nakinn.

Að lokum:
Herra þjóðleikhússtjóri, Ari Matthíasson! Þessi sýning er ykkur öllum til skammar og einkum þér, því endanlega er ábyrgðin þín. Þú ert nýr í starfi og ættir nú að hafa tækfæri til að hefja leikhúsið upp úr þeirri botnlausu lágkúru sem það hefur sí og æ verið að detta í mörg undangengin ár. Þú hefur þegar þann stutta tíma sem þú hefur gegnt embættinu sýnt ótvíræða viðleitni til að bæta verkefnavalið og sýningin á Horft af brúnni fyrr í haust var leikhúsinu til mikils sóma. Út af þeirri sýningu gekk maður jafn glaður og maður gengur hryggur út af þessari.

Af hverju reynirðu nú ekki að fá hingað einhvern af þeim mörgu snjöllu Shakespeare-leikstjórum sem Bretar eiga um þessar mundir? Ef þú eða þínir hjálparkokkar þekkja ekki til þeirra, skal ég með glöðu geði gefa þér nokkrar ábendingar. Þetta eru menn sem kunna að fara með Shakespeare, leysa hann úr viðjum gamalla hefða, en virða þó þau grundvallaratriði listar hans sem gera hana að því sem hún er. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að þú ætlir að viðhalda þeirri ómenningu tveggja síðustu forvera þinna, að leyfa mönnum, sem eru ólæsir á leikskáldskap, að gefa íslenskum áhorfendum rammfalska mynd af stórbrotnasta leikskáldskap allra tíma.

Jón Viðar Jónsson
ritstjorn@frettatiminn.is


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652