Innan við sólarhring eftir að lögin um jöfnun lífeyrisréttinda voru samþykkt hafði stjórn Kennarasambands Íslands ákveðið að kæra ríkið vegna lagasetningarinnar, þar sem hún bryti gegn eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. BSRB hefur nú bæst í hópinn en samkvæmt lögunum er ríkisábyrgð afnuminn á lífeyri þeirra sem ekki hafa náð sextugsaldri.
Þórður Hjaltested formaður KÍ segir þingmenn hafa talað gegn betri vitund í þinginu þegar þeir héldu því fram að málið hefði verið unnið í samkomulagi við forystu opinberra starfsmanna. Hann segir að lífeyrir í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, hafi jafnan verið tryggður og iðgjöld sjóðfélaga hækkað strax ef lífeyrir væri skertur. Með samþykkt frumvarpsins sé þetta tekið úr sambandi. „Núna á lífeyrir allra sjóðfélaga undir sextugu að taka breytingum eftir því hvernig sjóðurinn ávaxtar sig,“ segir hann. „Þetta er ekkert annað en eignaupptaka að okkar mati enda hafa félagsmenn KÍ hafa margir hverjir greitt í opinberu lífeyrissjóðina allan sinn starfsaldur og þegið lægri laun fyrir vikið gegn tryggari lífeyrisréttindum. Það er því verið að brjóta réttindi sem eru varin af stjórnarskrá.“
Með eftirlaunalögunum voru æðstu embættismönnum þjóðarinnar veitt betri eftirlaunaréttindi en almennt tíðkast og þeim tryggð ákveðin lágmarksréttindi til eftirlauna umfram þau réttindi sem opinberir starfsmenn njóta. Yfirlýstur tilgangur laganna var að gera alþingismönnum og ráðherrum sem verið höfðu lengi í störfum á opinberum vettvangi kleift að draga sig í hlé og stuðla þannig að meiri endurnýjun í þjóðmálum.
Þegar þau lög voru numin úr gildi í febrúar 2009 fól breytingin í sér að þingmenn og ráðherrar hættu að ávinna sér réttindi samkvæmt eldri lögunum. Alls áttu 633 einstaklingar réttindi samkvæmt lögunum í árslok 2007 og nam áfallin eftirlaunaskuldbinding ríkissjóðs vegna þeirra rúmlega 12 milljörðum króna. Þau réttindi voru varðveitt og gert ráð fyrir því að áhrif þess á skuldbindingar ríkissjóðs komi fram eftir því sem árin líða enda kom aldrei til álita að skerða réttindi þeirra sem höfðu áunnið sér þau.
Samkvæmt því sem er uppi á teningnum núna er ekki hægt að tryggja áunnin réttindi ef ávöxtun til framtíðar verður dræm, enda ekki lengur ríkisábyrgð á lífeyri opinberra starfsmanna, nema þeirra sem hafa náð sextugsaldri við lagabreytinguna. Ef farin hefði verið sú leið að loka A-deildinni en starfrækja hana áfram fyrir þá sem þegar hafa áunnið sér réttindi þar, hefði verið hægt að komast hjá því að skerða áunnin réttindi. Þá fellur réttur sjóðfélaga til lífeyrisauka almennt niður falli iðgjaldagreiðslur þeirra niður til lengri tíma en tólf mánaða. Opinber starfsmaður, sem hefur þurft að sætta sig við jafna ávinnslu réttinda fyrri hluta starfsævinnar, getur ekki gert meira en árs hlé frá störfum hjá hinu opinbera vilji hann ekki glata réttinum. Smári McCarthy þingmaður Pírata sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu segir að það megi því segja að hann sé í reynd í vistarbandi út starfsævina.
Sjúkraliðafélag Íslands sem hefur lagst eindregið gegn breytingunni þar sem hún brjóti gegn stjórnarskrá og skerði samningsbundin réttindi hefur ennfremur talið nauðsynlegt að sjúkraliðar geti hafið töku lífeyris um 65 ára aldur. „Sjúkraliðar geta hætt störfum 65 ára í dag án þess að skerða lífeyri, en við breytingu á lögunum er öllum skylt að vinna til 67 ára. Þá eru í farvatninu breytingar sem gera fólki að vinna til sjötugs,“ segir Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélagsins. „Ef sjúkraliðar vinna lengur bæta þeir í lífeyrinn en margir þeirra geta það ekki þar sem starfið er svo líkamlega erfitt. Sumir þurfa reyndar að fara á örorku fyrir 65 ára aldur.“
Kristín bendir ennfremur á að fæstir sjúkraliðar vinni 100 prósent vinnu þar sem starfið sé of erfitt og víðast hvar sé það ekki í boði. Þeir beri því enn minnni lífeyri úr býtum en annars.
„Ég tel að lögin séu stórslys, hvorki meira né minna,” segir Kristín en BSRB hefur ákveðið láta á það reyna hvort lögin séu brot á stjórnarskránni.