Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Munu Bandaríkin skipta sér af kosningum í Þýskalandi?

$
0
0

Haukur Már Helgason
ritstjorn@frettatiminn.is

Nýverið flutti bandaríski vefurinn Breitbart News frétt frá Þýskalandi; að múgur þúsund karlmanna hefði komið saman á torgi í þýsku borginni Dortmund á nýársnótt, ráðist á lögreglu og kyrjað Allahu Akhbar á meðan þeir lögðu eld að elstu kirkju Þýskalands. Austurríski fréttavefurinn Wochenblick hafði fréttina eftir Breitbart og fyrr en varði furðuðu nokkrir íbúar Dortmund sig á því, á samfélagsmiðlum, að þurfa að lesa austurrískan fjölmiðil til að heyra sannleikann um borgina sína.

Frétt Breitbart er deilt 15.000 sinnum á Facebook, Wochenblick útgáfunni 800 sinnum, þar til Thorsten nokkrum Hoffmann, kjörnum fulltrúa frá Dortmund á sambandsþinginu í Berlín, rennur blóðið til skyldunnar og sendir frá sér fréttatilkynningu um „loftárásina“ á kirkjuna.

 

Leiðréttingin

5. janúar sá loks lögreglan í Dortmund sig tilneydda að birta leiðréttingu, ásamt Ruhr Nachrichten, þýskum fréttamiðli sem Breitbart vísaði til sem heimildar: Á torginu komu vissulega saman um þúsund manns, og fögnuðu áramótum. Lögregla bað fólk að skjóta ekki flugeldum innan úr þvögunni og fjarlægði þá sem ekki hlýddu. Flugeldur lenti þó í neti sem var strengt um stillansa við kirkjuna, sem er ekki sú elsta í Þýskalandi. Úr varð, að sögn lögreglu, lítill og viðráðanlegur eldur – ekki í kirkjunni heldur netinu – sem lauk eftir nokkurra mínútna viðureign slökkviliðs. Ekkert gefur til kynna að flugeldinum hafi verið beint að kirkjunni að yfirlögðu ráði. Erill þessa nótt var að sögn lögreglu á bilinu hefðbundinn til rólegur: þjófnaðir, skemmdarverk og líkamsárásir voru færri en árið áður.

Leiðréttingin hefur auðvitað ekki fengið viðlíka útbreiðslu og frásögn Breitbart, enda ekki viðlíka spennandi. Ef frá er talinn aldur kirkjunnar sem um ræðir má jafnvel halda því fram að munurinn á frásögnunum tveimur felist í stílbrögðum frekar en innihaldi.

31518 Wochenblick Dortmund

Hitt hægrið

Breitbart var jaðarmiðilll í bandarískri fréttamiðlun þar til á síðasta ári, þegar náin tengsl miðilsins og lesenda hans við hreyfinguna að baki Donald Trump urðu lýðum ljós: Steve Bannon hét ritstjóri Breitbart, þar til Trump réði hann til að taka við starfi kosningastjóra síns í ágúst síðastliðnum. Eftir að úrslit kosninganna urðu ljós tilkynnti Trump að Bannon yrði hægri hönd sín í Hvíta húsinu og aðalráðgjafi við stefnumótun.

Bannon hefur lýst Breitbart News sem „vettvangi alt-right hreyfingarinnar“. Hugtakið alt-right, stytting á alternative right eða hitt hægrið, er komið frá Richard Spencer, manni sem skömmu eftir kosningar birtist upptaka af þar sem hann, á samkomu þessa hluta bandaríska hægrisins, hyllti Donald Trump úr pontu, með orðunum „Hail Trump“ og handauppréttingu að nasistasið.

Hreyfingin grundvallast á opinskárri kynþáttahyggju, þjóðernishyggju, kvenfyrirlitningu og aðgreiningu karlmanna eftir skipulagi apahópa; frá alfaköllum niður í þá sem þeir kalla kokkála, alla þá sem veita baráttumálum vinstrisins stuðning sinn, jöfnuði, umhverfisvernd, móttöku flóttafólks og kvenréttinda. Fólksflutninga til Vesturlanda tala þeir um sem „þjóðarmorð hvítra“.

Sínum réttu nöfnum

Hvort kalla beri hreyfinguna því nafni sem hún kýs sér sjálf, alt-right , eða hvort raunsannara og meira lýsandi væri að kalla þá til dæmis fasista, er nógu umdeilt til að ritstjórn fréttamiðilsins The Guardian tilkynnti í lok nóvember að hún myndi ekki banna notkun orðsins alt-right í miðlinum að sinni, enda telji fólk sig til hreyfingarinnar á ólíkum forsendum: Sumir séu aðallega hvítir yfirburðasinnar, aðrir fyrst og fremst gyðingahatarar, eða jafnvel andstæðingar hnattvæðingar.

En þetta er fasísk hreyfing – það er svona sem bandarískur fasismi lítur út. Eins og fasískar hreyfingar 20. aldar sprettur þessi fram í lýðræðisríki, sækir byr í ósætti almennings við stöðu efnahagsmála, pólitískt valdleysi og særða sjálfsmynd, en beinir ósættinu í farveg andúðar gegn minnihlutahópum, yfirlýstrar andstöðu við jöfnuð, mannréttindi, fjölmenningu og femínisma og haturs á vinstrinu. Vettvangur hreyfingarinnar í fjölmiðlum, Breitbart News , byggir fréttamat sitt og framsetningu á sömu grunngildum.

Afskipti af kosningum

Vefmiðillinn var stofnaður árið 2007. Hann er í dag í 34. sæti af mest lesnu vefum Bandaríkjanna en, samkvæmt einni mælingu að minnsta kosti, útbreiddasti pólitíski vefurinn á samfélagsmiðlum. Árið 2013 opnaði miðillinn sérútgáfu í London, 2015 í Jerúsalem. Breski miðillinn óx, eins og Bannon hafði gert ráð fyrir, í hlutfalli við vaxandi fylgi Brexit-hreyfingarinnar, sem hann studdi.

Þegar nýr ritstjóri bandarísku útgáfunnar, Alexander Marlow, tók við störfum síðasta sumar tilkynnti hann um frekari fyrirhugaða útgáfu í Evrópu. Strax eftir kosningarnar útfærði hann þau plön nánar og sagðist vilja opna skrifstofur í París og Berlín. Tilgangur hinna væntanlegu útibúa er, samkvæmt honum, að styðja ystu hægriöflin í komandi kosningum: Front National í Frakklandi, AfD í Þýskalandi. „Breitbart kemur til Þýskalands,“ tísti flokksskrifstofa AfD í Heidelberg: „Frábært! Það verður jarðskjálfti í storknuðu fjölmiðlalandslagi okkar“ – svo fylgdu broskallar og hjörtu.

Nýársnótt í Köln

Eftir að staðarfjölmiðillinn Ruhr Nachrichten birti leiðréttingu sína um nýársnóttina í Dortmund, að þar hefði ekkert átt sér stað í líkingu við það sem Breitbart hélt fram og aðrir miðlar bergmáluðu, var blaðamaðurinn að baki leiðréttingunni sakaður um að milda atburðarás kvöldsins, og honum fyrir vikið ógnað með myndsendingum á Twitter, af gálgum og afhöggnum hausum.

Að baki lá meðal annars gremja í garð lögreglu og helstu fréttamiðla í Þýskalandi fyrir varkárni við fréttaflutning af atburðum í Köln á nýársnótt fyrir ári síðan. Orðrómur um kynferðisbrot fjölda innflytjenda gegn konum við aðallestarstöðina í Köln barst um samfélagsmiðla strax á nýársdag. Í fyrstu fréttatilkynningu lögreglunnar sagði hún aftur á móti nýársnótt hafa verið að mestu friðsamlega.

Þann 2. janúar gaf hún út aðra fréttatilkynningu um kynferðisbrot gegn konum í borginni um nóttina. Þá höfðu verið tilkynnt 90 brot. Margir fréttamiðlar greindu frá því sem þá var vitað um atburðina, en aðrir ekki. Þannig nefndi ZDF, önnur stærsta sjónvarpsstöð landsins, atburðina ekki fyrr en 5. janúar. Þann sama dag sagði lögreglan í fréttatilkynningu að ekkert benti til að gerendur hefðu verið flóttamenn eða haft stöðu hælisleitenda, eins og orðrómur kvað.

Köln

Áður en yfir lauk bárust lögreglu tæpar 500 tilkynningar um kynferðisbrot í borginni þessa nótt, frá yfir 600 þolendum. Rúmur helmingur hafði orðið fyrir þjófnaði í sömu mund. Í fimm tilfellum var um nauðgunarkæru að ræða.. Meirihluti þeirra yfir 180 manns sem voru að lokum ákærðir voru innflytjendur frá Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum, þar af flestir frá Marokkó og Alsír. Tæpur helmingur þeirra hafði á þeim tíma stöðu hælisleitenda.

Lögregla sætti ámæli fyrir að hafa ekki gripið inn í atburðarásina um nóttina og fyrir tregðu við að greina almenningi frá því sem vitað var. Yfirmanni lögreglunnar í Norðurrín-Vestfalíu, sambandslandinu sem Köln tilheyrir, var vikið frá störfum.

Fjölmiðlar voru gagnrýndir harkalega fyrir að halda upplýsingum leyndum – ekki aðeins af almenningi, hvað þá bara öfga-hægriöflum, heldur einnig af þingi Evrópuráðsins sem ályktaði af tilefninu að fjölmiðlar ættu ekki „að halda sannleika mála frá almenningi til að tryggja pólitískan rétttrúnað“, enda kyndi slíkt undir „samsæriskenningum, hatri í garð tiltekinna samfélagshópa og vantrausti á fjölmiðlum.“

„Racial profiling“

Það lítur sannarlega út fyrir að tregða yfirvalda og fjölmiðla við að greina frá því sem vitað var um nýársnóttina í Neukölln hafi gefið ysta hægrinu nokkurn byr. Og kynt undir ótta meðal almennings: Der Spiegel greindi frá því um mitt árið 2016 að útgefnum skammbyssuleyfum í Þýskalandi hefði fjölgað úr 300 þúsund í 400 þúsund frá áramótunum. Sala byssueftirlíkinga og piparúða jókst líka stórlega.

Nú, ári síðar, endurtóku sig ekki atburðirnir á nýársnótt í Köln. Víða í þýskum borgum var lögregla með mikinn viðbúnað. Í Köln var lögreglumönnum á vakt fjölgað á bilinu fimm- til tífalt eftir deildum. Sveitirnar leystu upp hópa ungra manna af norður-afrískum uppruna og hleyptu þeim aðeins á hátíðarsvæðið einum og einum, eftir athugun skilríkja, til að koma í veg fyrir hóp-dýnamíkina sem talin er hafa ráðið nokkru um hvernig fór árið áður.

Um nóttina birti lögreglan í Köln mynd af slíkri aðgerð á twitter, með skilaboðunum: „Erum að tékka hundruð Nafra við aðallestarstöðina. Meira síðar.“ Nafri reyndist vera slangur innan lögreglunnar yfir menn af norður-afrískum uppruna.

Á meðan margir fjölmiðlar fagna árangri lögreglunnar benda aðrir á að aðferðin sem hún beitti feli í sér bæði brot á réttindum þeirra sem fyrir urðu og stjórnarskrárbrot: Aðgerðir á nýársnótt hafi ekki grundvallast á sekt og sakleysi einstaklinga heldur „racial profiling“, eins og þýskir miðlar sletta úr ensku: Að skilgreina grunaða í hópum, eftir útliti.

Afleiðingar Köln

Atburðir síðasta árs endurtóku sig ekki en þegar flugeldur lenti, eins og að framan greinir, í stillönsum við kirkju í Dortmund sáu sumir Þjóðverjar ástæðu til að trúa frekar frásögn bandaríska áróðursmiðilsins Breitbart News af atvikinu en hefðbundnum staðarmiðlum, og líta á það sem þúsund manna árás frekar en óhapp eins.

Í nóvember varaði Angela Merkel við útbreiðslu falskra frétta á samfélagsmiðlum og hugsanlegum áhrifum þeirra á komandi kosningar. Hugmyndir hafa komið fram um að bregðast við slíkum miðlum með löggjöf. Það er þó erfitt að sjá hvaða áhrif það hefði á miðil eins og Breitbart. Falskar fréttir koma þar fyrir, en aðferð miðilsins til að hafa áhrif á skoðanamyndun og kosningaúrslit felst þó heldur í efnistökum og framsetningu.

Hvort Breitbart getur haslað sér völl sem þýskur fjölmiðill, hvort þýska öfga-hægrið hefur þörf fyrir innfluttan fasisma frá Bandaríkjunum eða getur svalað eigin eftirspurn sjálft, er enn óvitað.

 

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652