Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Útgerðarfyrirtækin hætti að nota mengandi svartolíu

$
0
0

Tvö af stærstu útgerðarfélögum Íslands nota enn svartolíu að hluta til að knýja fiskimjölsverksmiðjur sínar en sú gerð af olíu er mjög mengandi. Um þetta er fjallað í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið VSÓ hefur unnið fyrir rafmagnsfyrirtækið Landsnet. Fyrirtækin sem um ræðir eru Síldarvinnslan í Neskaupstað og Ísfélag Vestmannaeyja en einnig er fjallað um svartolíunotkun HB Granda í skýrslunni. Ein af niðurstöðum skýrslunnar er að ljúka þurfi rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og láta af svartolíunotkun.

Í svari frá HB Granda kemur hins vegar fram að fyrirtækið hafi hætt að nota svartolíu árið 2016 og noti nú aðra og minna mengandi olíu við vinnslu fiskimjöls. „Hvað varðar verksmiðjur okkar þá nýta þær ekki lengur svartolíu, árið 2016 var eingöngu nýtt flotaolía (MDO og MGO). Þessi olía er dýrari valkostur en ekki eins mengandi og svartolía þar sem brennisteins innihaldið er mun lægra, bruni hennar er hreinni og rykmengun hverfandi,“ segir Garðar Svavarsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda.

Ein af niðurstöðum skýrslunnar er að ljúka þurfi rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og láta af svartolíunotkun.

Í skýrslu VSÓ er rætt um hversu mikil raforkuþörf fiskimjölsverksmiðja útgerðarfyrirtækjanna væri ef þær myndu hætta að nota svartolíuna og nota rafmagn í staðinn. Með því að hætta notkun á svartolíu myndi losun koltvísýrings í starfsemi fiskimjölsverksmiðjanna minnka en í dag er losun þessara verksmiðja 0,3 prósent af heildarlosun Íslands á koltvísýringi út í andrúmsloftið.
Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, segir að af þremur fiskimjölsverksmiðjum fyrirtækisins sé ein rafvædd að fullu en að tvær séu rafvæddar að 60 til 70 prósent leyti. Hann segir hins vegar að Síldarvinnslunni gangi erfiðlega að fá rafmagn til að knýja verksmiðjurnar og því sé notast við svartolíu þegar það er ekki hægt.
Aðspurður um hvort fyrirtækið geti ekki notað annars konar olíu sem er minna mengandi segir Jón Már að fyrirtækið eigi í alþjóðlegri samkeppni því þurfi að reka fiskimjölsverksmiðjurnar með hagkvæmum hætti og að svartolía sé ódýrari aflgjafi en til dæmis dísilolía sem mengar ekki eins mikið. „Við keyrum á rafmagni ef við getum og ef við fáum þó við þurfum alltaf að vera með olíu til vara. Við erum náttúrulega í samkeppni við aðrar verksmiðjur úti í heimi en við þurfum að huga að kostnaði og að reka þetta sem hagkvæmast. Svartolían er ódýrari en dísilolían.“
Svartolíunotkun útgerðarfélaganna virðist því vera á undanhaldi miðað við svör HB Granda og einnig svör Síldarvinnslunnar sem reynir eftir fremsta megni að nota rafmagn í fiskimjölsverksmiðjum sínum þegar það er hægt.

Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652