„Við reyndum að fá að vita hvaða dag hann yrði sóttur en lögreglan vildi ekki gefa það upp,“ segir Ali Reza Matin, sambýlingur og besti vinur Rohalla Rezaei. Eins og fram kom í síðasta Fréttatíma þá flúði Rohalla Afganistan fyrir fjórtán árum og hefur líf hans síðan þá snúist um að finna sér samastað. Eftir að hafa komið til landsins fyrir tæpu ári og sótt hér þrisvar um hæli var honum vísað úr landi síðastliðinn mánudagsmorgun, aftur til Grikklands þar sem hann er með tímabundið hæli.
Eins og Hollywood-mynd
„Þeir komu alveg óvænt heim til okkar um níu leytið á sunnudagskvöldið og tóku hann með sér á lögreglustöðina. Við vorum að borða kvöldmat en hann fékk ekki að klára matinn né pakka niður fötunum sem voru í þvottahúsinu. Hann fékk engan tíma til að kveðja okkur almennilega, hann var farinn hálftíma eftir að lögreglan kom og ég hef ekki séð hann síðan. Mér fannst þetta allt skrítið, dálítið eins og í Hollywood-mynd því lögreglumennirnir voru svo margir og komu inn í íbúðina á tveimur stöðum, eins og Rohalla væri glæpamaður sem hefði í hyggju að flýja. Þessi harka var algjör óþarfi því Rohalla hefur aldrei sýnt nein merki um mótspyrnu.“

Rohalla eyddi nóttinni í haldi og gat ekki hringt í neinn þar sem síminn var tekinn af honum. Vinirnir gátu því ekki talað saman fyrr en Rohalla fékk símann aftur, í lögreglubílnum á leiðinni út á flugvöll. „Hann hefur búið í Grikklandi áður en þekkir engan í Aþenu svo ég vildi tala við hann og segja honum hvert hann gæti farið. Það er aldrei hægt að vita hvað gríska lögreglan gerir við flóttamenn en planið hans var að finna sér hostel ef honum yrði ekki stungið í fangelsi,“ segir Ali.
Flóttamenn á götunni í Grikklandi
„Þeir sem vita eitthvað um flóttamannamál vita að staðan í Grikklandi er mjög slæm,“ segir Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hælisleitenda hjá Rauða krossinum. „Íslensk stjórnvöld hafa ekki sent fólk sem fellur undir í Dyflinnar-reglugerðina til Grikklands í nokkur ár vegna þeirra aðstæðna sem bíða hælisleitenda þar, þeir sem eru komnir með einhvers konar vernd í Grikklandi eru hins vegar sendir þangað jafnvel þó að aðstæður þeirra séu oft verri en þeirra sem enn bíða svara. Það fólk hefur ekki rétt á því að stjórnvöld útvegi þeim húsnæði og þurfa að treysta á opinbera kerfið í Grikklandi en það er ekki í stakk búið til að sinna öllu því fólki sem er í neyð í landinu. Flestir sem eru með vernd í Grikklandi eru illa staddir, fá enga vinnu og mjög margir búa á götunni.“
Flóttamenn í Grikklandi
Dyflinnar-reglugerðin heimilar öllum þeim löndum sem fá til sín hælisleitendur að senda þá aftur til þess lands innan Evrópska efnahagssvæðisins sem upprunalega tók við þeim. Staðsetning Grikklands veldur því að landið er áfangastaður fjölda flóttamanna, að miklu leyti frá Sýrlandi, Afganistan, Íran, Írak og Vestur-Afríku. Staða hælisleitenda í Grikklandi er mjög slæm og ekki síður þeirra sem fengið hafa hæli því staða þeirra er enn veikari innan kerfisins, þar að auki sýna rannsóknir að andúð í garð flóttamanna jókst þar verulega í kjölfar hrunsins 2008. Endursendingum hælisleitenda til Grikklands frá Íslandi var hætt árið 2010 vegna þess að aðstæður í gríska hæliskerfinu voru taldar ófullnægjandi.