Málið var endurupptekið hér á landi árið 2013 eftir að þekktur barnataugalæknir í Bretlandi, Waney Squier, lagði fram sérfræðimat þar sem einkenni svokallaðs „shaken baby syndrome“ voru dregin í efa.
Eins og fyrr segir var Sigurður Guðmundsson dæmdur fyrir að hafa orðið barninu að bana og var talið að hann hefði hrist barnið harkalega með þeim afleiðingum að það lést í hans umsjá. Sigurður hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og varð mál hans það fyrsta sem var endurupptekið af Hæstarétti Íslands árið 2013. Þar vó mat Waney Squier þungt.
Í vikunni fór Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sigurðar, fram á að fá að taka skýrslur af matsmönnunum tveimur í sitt hvoru lagi, en hann telur að þeir hafi ekki fylgt lögum þar sem þeir áttu að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem matsmenn. Niðurstaðan er sú sama hjá þeim báðum í flestum efnisatriðum, en þeir virðast ekki hafa fundað líkt og reglur kveða á um. Hæstiréttur hafnaði því að Sveinn Andri fengi að taka skýrslur af mönnunum.
Sveinn segir niðurstöður þeirra mikilvægar fyrir málflutning ríkissaksóknara. „Það er kveðið á um það í lögum að yfirmatsmenn eiga að funda um niðurstöðuna, og til að halda öllu til haga vildi ég láta á þetta reyna,“ segir Sveinn Andri.
Sveinn Andri segir mat breska taugalæknisins enn liggja fyrir sem eitt helsta gagnið í endurupptökumálinu, þrátt fyrir að henni hafi verið meinað að bera sérfræðivitni fyrir breskum dómstólum af breska læknaráðinu. Úrskurður um málið féll í nóvember síðastliðnum og þar kom fram að Squier hefði farið út fyrir þekkingarsvið sitt í dómsmálum sem varða barnahristing. Eins hafi hún sérvalið rannsóknir til þess að rökstyðja eigin skoðanir. Búist er við að mál Sigurðar verði tekið fyrir í Hæstarétti næsta haust.